Menntasjóður námsmanna

Umsögn í þingmáli 935 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 05.04.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 2 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 28 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Hagsmunasamtök heimilanna Viðtakandi: Allsherjar- og menntamálanefnd Dagsetning: 19.04.2024 Gerð: Umsögn
Umsögn um 935. mál á 154. löggjafarþingi Nefndasvið Alþingis Hagsmunasamtök Tjarnargötu 9 Heímílanna 150 ReykjavÍk M 19. apríl 2024 Efni: Umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um 935. mál á 154. löggjafarþingi Menntasjóður námsmanna (ábyrgðarmenn og námsstyrkir) Með ofangreindu frumvarpi er m.a. lagt til að ábyrgðarmannakerfi námslána verði fellt niður að fullu. Hagsmunasamtök heimilanna fagna þeim tillögum. Ábyrgðarmannakerfið er barn síns tíma og fyrir löngu tímabært að það hljóti sinn náttúrulega dauðdaga. Þegar mál vegna skuldavanda einstaklinga koma inn á borð samtakanna er mjög algengt að þar á meðal séu skuldir vegna námslána. Fjölmörg dæmi eru um að slíkan vanda sé hægt að rekja til ábyrgða á námslánum sem hafa fallið á viðkomandi vegna greiðsluerfiðleika lántaka og erfiðleikar eins hafi þannig leitt til erfiðleika annars. Frumvarpsdrögin vekja þó upp spurningar um stöðu ábyrgðarmanna sem hefur þegar verið gengið að vegna greiðslufalls á námslánum hingað til eða a.m.k. frá gildistöku núgildandi laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020. Til að gæta jafnræðis hlýtur að verða að gera þá jafnsetta við þá sem munu njóta góðs af þeirri breytingu sem er lögð til í frumvarpsdrögunum. Ef ekki með því að endurgreiða þær ábyrgðarkröfur sem hafa verið innheimtar hjá þeim, verður að minnsta kosti að sjá til þess að fjárnám sem kunna að hafa verið gerð hjá þeim og vanskilaskráningar ásamt neikvæðum áhrifum þeirra á lánshæfismat viðkomandi einstaklinga falli að sama skapi niður. Jafnframt ítreka samtökin enn og aftur þá kröfu að undanþága námslána frá áhrifum gjaldþrotaskipa samkvæmt 26. gr. laga um Menntasjóð námsmanna verði felld brott. Tveggja ára fyrningarregla 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti var sett árið 2010 í kjölfar bankahrunsins og hefur reynst mikilvæg réttarbót enda er gjaldþrot oft eina leiðin sem einstaklingar hafa út úr óviðráðanlegum skuldavanda. Með 26. gr. Menntasjóðslaga var vegið að því úrræði og þar með grafið verulega undan réttarstöðu skuldara. Sjóðurinn er í raun eini kröfuhafinn sem hefur ekki viljað una slíkri fyrningu og hefur höfðað fjölda dómsmála til reyna að að slíta henni, en tapað þeim öllum. Í öllum dómum Hæstaréttar Íslands í þeim málum var því hafnað að sjóðurinn hefði sérstaka hagsmuni umfram aðra kröfuhafa af því að kröfur sínar fyrndust ekki samkvæmt ákvæðinu. Ákvæði 26. gr. Menntasjóðslaga ganga í berhögg við þessar afgerandi niðurstöður Hæstaréttar Íslands og ber því að fella þau brott. - o - Virðingarfyllst, f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna, Guðmundur Ásgeirsson, varaformadur@heimilin.is Hagsmunasamtök heimilanna • Sigtúni 42 • 105 Reykjavík • kt. 520209-2120 • heimilin@heimilin.is • www.heimilin.is http://www.heimilin.is https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/154/935/?ltg=154&mnr=935 http://www.heimilin.is mailto:varaformadur@heimilin.is mailto:heimilin@heimilin.is http://www.heimilin.is