Ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

Umsögn í þingmáli 920 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 27.03.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 3 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 16 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Hagsmunasamtök heimilanna Viðtakandi: Efnahags- og viðskiptanefnd Dagsetning: 19.04.2024 Gerð: Umsögn
Umsögn um 920. mál á 154. löggjafarþingi Nefndasvið Alþingis Tjarnargötu 9 150 ReykjavÍk Hagsmunasamtök Heimilanna 19. apríl 2024 Efni: Umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um 920. mál á 154. löggjafarþingi Frumvarp til laga um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf. Með ofangreindu frumvarpi er í meginatriðum lagt til að ráðherra verði heimilt að ráðstafa eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka með markaðssettu útboði og Ijúka þannig við einkavæðingu bankans. Íslandsbanki var, eins og hinir stóru viðskiptabankarnir, reistur á herðum heimila landsins sem lágu þá í sárum eftir stórfelldan samfélagslegan skaða sem hlaust af gjaldþrotum forvera þessara sömu banka haustið 2008. Tugþúsundir einstaklinga misstu heimili sín í hendur bankanna og þeir ollu enn fleirum stórfelldu tjóni. Mörg þeirra hafa aldrei náð sér eftir þá aðför sem þau máttu þola. Frá því að ríkið fékk bankana í fangið hefur það alltaf verið afstaða Hagsmunasamtaka heimilanna að ekki komi til greina að einkavæða þá aftur fyrr en heimilunum hafi verið bætt að fullu það tjón sem þeir ollu þeim og hafa valdið síðan þá. Til þess skuli nýta þá fjármuni sem liggja íbönkunum sem og hagnaðinn af áframhaldandi starfsemi þeirra. Jafnframt má draga í efa þá hugmynd að bankarekstri sé best borgið í höndum einkaaðila. Leyfi til bankareksturs fylgir gríðarlegt vald, ekki aðeins til að skapa með útlánum stærstan hluta þeirra fjármuna sem teljast til peningamagns í umferð heldur einnig til að því er virðist nánast ótakmarkaðrar gjaldtöku af þeirri sameiginlegu auðlind þjóðarinnar. Jafnframt hefur reynslan sýnt að þegar hin meinta áhætta af því að eiga banka raungerist þá lendir áfallið alltaf á almenningi, sem losnar því ekki undan þeirri áhættu þó bankar séu einkavæddir. Upplýst umræða um það fyrirkomulag bankastarfsemi sem hingað til hefur viðgengist hefur aldrei farið fram og almenningi hefur aldrei verið gefinn kostur á að taka lýðræðislega afstöðu til þess. Þvert á móti var því komið á fyrir löngu síðan af bankamönnum fyrir bankamenn á bakvið luktar dyr fjarri augsýn og án aðkomu almennings. Jafnframt hefur heimilunum ekki enn verið bætt það stórfellda tjón sem bankarnir hafa valdið þeim. Á meðan þessi staða er óbreytt er afstaða Hagsmunasamtaka heimilanna til einkavæðingar bankanna það líka. Samtökin eru því andvíg markmiði hins ofangreinda frumvarps eins og þau hafa verið andvíg öllum fyrri skrefum sem hafa verið tekin í sömu átt. - o - Virðingarfyllst, f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna Guðmundur Ásgeirsson, varaformadur@heimilin.is Hagsmunasamtök heimilanna • Sigtúni 42 • 105 Reykjavík • kt. 520209-2120 • heimilin@heimilin.is • www.heimilin.is http://www.heimilin.is https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/154/920/?ltg=154&mnr=920 http://www.heimilin.is mailto:varaformadur@heimilin.is mailto:heimilin@heimilin.is http://www.heimilin.is