Tekjuskattur

Umsögn í þingmáli 918 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 27.03.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 10 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 12 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samtök atvinnulífsins Viðtakandi: Efnahags- og viðskiptanefnd Dagsetning: 23.04.2024 Gerð: Umsögn
Nefndasvið Alþingis b.t. efnahags- og viðskiptanefndar Smiðju, Tjarnargötu 9 101 Reykjavík sent á umsagnargátt Alþingis Reykjavík, 23. apríl 2024 Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (barnabætur, sérstakur vaxtastuðningur), 918. mál Samtök atvinnulífsins (SA, samtökin) vísa til tölvupósts efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis frá 18. apríl þar sem óskað var umsagnar samtakanna. SA gera í fyrsta lagi athugasemdir við þann skamma frest sem veittur var, sérstaklega í ljósi þess að frumvarpið var ekki kynnt í samráðsgátt stjórnvalda áður en það var lagt fram á Alþingi. Þannig er takmarkaður sá tími sem samtökunum gafst til að kynna sér málið og greina áhrif þess. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt varðandi barnabætur og sérstakan vaxtastuðning og eru breytingarnar hluti af stuðningi ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna langtímakjarasamninga á vinnumarkaði. Markmið aðila vinnumarkaðarins í lok árs 2023 var að taka höndum saman um gerð langtímasamninga sem auka myndu fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu. Þannig voru samningsaðilar sammála um að eitt mikilvægasta verkefnið í komandi kjaraviðræðum væri að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi sem komið hefur hart niður á bæði fyrirtækjum og heimilum. Áhersla var lögð á að allir legðust á eitt og að enginn gæti skorast undan ábyrgð. Hluti af ábyrgð yfirvalda þegar kemur að því að ná framangreindum markmiðum felst í því að sýna aðhald í opinberum rekstri til að styðja við markmið peningastefnunnar. Að öðrum kosti mun vaxtastig þurfa að vera hærra en ella. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að árleg framlög til stuðnings við barnafjölskyldur í gegnum barnabótakerfið verði aukin um 3 milljarða kr. á árinu 2024 til viðbótar við fyrri áform, og um 2 milljarða kr. til viðbótar á árinu 2025 Áætlað er að umfang sérstaks vaxtastuðnings nemi 5-7 milljörðum kr. Loks segir að ríkissjóður verði af nokkrum tekjum, a.m.k. til skemmri tíma, verði frumvarpið að lögum. Í ljósi þess að stjórnvöld hafa ákveðið að styðja við nýgerða kjarasamninga, m.a. með þeim hætti sem frumvarpið boðar, árétta samtökin mikilvægi þess að ráðist sé í forgangsröðun í ríkisútgjöldum. Ekki er svigrúm í ríkisrekstri til útgjaldaaukningar í tilteknum málaflokkum án þess að heildstæð forgangsröðun fari fram samhliða og dregið úr útgjöldum í öðrum málaflokkum á móti. Að mati samtakanna er ótækt að útgjaldaaukningin leiði til aukinnar skattlagningar á atvinnulífið enda er ekki gert ráð fyrir henni við kostnaðarmat þeirra kjarasamninga sem nú hafa verið undirritaðir. Skattheimta er nú þegar óvíða, ef nokkurs staðar, meiri en á Íslandi og brýn þörf á að draga þar úr fremur en að bæta í. Hús atvinnulífsins | Borgartún 35, 105 Reykjavík 1 Samtökin fagna umræðum um að vaxtabótakerfið verði endurskoðað og mögulega lagt niður í núverandi mynd á næstu árum. Í skýrslu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa frá árinu 2019 segir1: “Vaxtabótakerfið er flókið, ógagnsætt og þungt í vcfum í því tilliti að stjórntæki þess eru mörg. Það endurspeglast íjjölda lagskiptra útreikninga,fjölda viðmiðunarfjárhæða o.sfrv. Að mörgu leyti eru hagræn áhrf einstakra stýribreyta í kerfinu ójós og erfitt hefur reynst að ná yfirsýn yfir áhrfþeirra og samspil. Þá eru hagrænir hvatar vaxtabótakeifisins um margt óæskilegir. Kerfið hefur í grundvallaratriðum ekki tekið breytingum frá upphafi en því hefur verið stýrt með viðmiðunarfiárhæðum, tekju- og eignatengingum. Stuðningur vaxtabóta nær langt upp í tekjudreifnguna.” (bls. 41) Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt til að vaxtabótakerfið verði lagt niður í heild sinni af fjölmörgum ástæðum sem lesa má um í ofangreindri skýrslu, en fyrst og fremst vegna þess að slíkt kerfi er ekki skilvirk leið til að aðstoða fólk við að fjárfesta í eigin húsnæði. Því telja samtökin jákvætt að stjórnvöld hafi markvisst dregið úr áherslu húsnæðisstuðnings í gegnum vaxtabótakerfið á umliðnum árum. Þá má færa fyrir því rök að slíkur stuðningur sé til þess fallinn að torvelda miðlun peningastefnunnar, sem verður að teljast sérstaklega óæskilegt um þessar mundir. Einnig getur hann stuðlað að hækkun húsnæðisverðs þar sem hann beinist að eftirspurnarhlið húsnæðismarkaðarins en ekki framboðshliðinni, þar sem vandinn liggur. Samtökin leggja áherslu á að stuðningur yfirvalda á húsnæðismarkaði felist í því að auka framboð íbúða á markaðslegum forsendum, s.s. með umbótum á umgjörð og regluverki byggingarmarkaðar, auknu lóðaframboði í samvinnu við sveitarfélög og ábyrgum ríkisfjármálum sem stuðla að stöðugra vaxtastigi. Slíkur stuðningur er til þess fallinn að draga úr byggingarkostnaði og þjónar því markmiðinu um viðráðanlegt húsnæðisverð til lengri tíma litið, á meðan stuðningur á eftirspurnarhlið er þvert á móti fremur til þess fallinn að hækka húsnæðisverð og gengur þannig gegn markmiði sínu. Að lokum vilja samtökin árétta að kjarasamningagerð ætti að snúa að kjörum launafólks á vinnumarkaði þar sem samningsaðilar eru stéttarfélög og vinnuveitendur. Réttast væri að aðgerðir yfirvalda mótuðust af yfirlýstri stefnu þeirra í tengslum við það umboð sem þeim er falið í lýðræðislegum kosningum. Aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum í gegnum tíðina hefur hins vegar verið töluverð í formi margvíslegra aðgerða sem hafa krafist verulegra fjárútláta af hálfu ríkissjóðs. Farsælla væri ef aðkoma þeirra einskorðaðist við umgjörð kjarasamningaumhverfisins, þ.m.t. með uppfærðri vinnulöggjöf sem stuðlar að skilvirkari kjarasamningagerð en nú er raunin. Að lokum vísa samtökin í umsögn Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu varðandi önnur atriði frumvarpsins. 1 https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og- skrar/Endursko%C3%B0un%20tekjujuskatts%20og%20bo%CC%81takerfa.pdf Hús atvinnulífsins | Borgartún 35, 105 Reykjavík 2 https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og- Virðingarfyllst, f.h. Samtaka atvinnulífsins, Anna Hrefna Ingimundardóttir Heiðrún Björk Gísladóttir Hús atvinnulífsins | Borgartún 35, 105 Reykjavík 3