Tekjuskattur

Umsögn í þingmáli 918 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 27.03.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 10 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 12 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu Viðtakandi: Efnahags- og viðskiptanefnd Dagsetning: 23.04.2024 Gerð: Umsögn
Q Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu Nefndarsvið Alþingis Efnahags- og viðskiptanefnd Tjarnargötu 9 101 Reykjavík Reykjavík, 23 apríl 2024 Umsögn: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (barnabætur, sérstakur vaxtastuðningur), 918. mál. Þann 18. apríl sl. bárust Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (barnabætur, sérstakur vaxtastuðningur), 918. mál. SFF hafa tekið framangreint frumvarp til skoðunar og vilja koma á framfæri eftirfarandi sjónarmiðum og breytingartillögum. Með frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á fjárhæðum, skerðingarmörkum og skerðingarhlutföllum barnabóta og hins vegar er lagt til í frumvarpinu að á árinu 2024 verði ákvarðaður sérstakur vaxtastuðningur sem verði greiddur inn á höfuðstól lána eða til að lækka afborganir lána. SFF hafa ekki athugasemdir við tillögur frumvarpsins er lúta að barnabótum. Hins vegar er ljóst að tillögur frumvarpsins um sérstakan vaxtastuðning gera ráð fyrir talsverðri aðkomu fjármálafyrirtækja við framkvæmd og ráðstöfun inn á lán eða afborganir. Eftir umfjöllun hjá aðildarfélögum SFF hefur komið í ljós að hluti af þeim tillögum sem koma fram í frumvarpinu um ráðstöfun á sérstökum vaxtastuðningi mun reynast illmögulegur í framkvæmd eins og nánar verður lýst í þessari umsögn. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sérstakur vaxtastuðningur verði greiddur beint inn á höfuðstól lána nema lántakandi óski þess sérstaklega að nýta hann til að lækka afborganir tiltekins láns út árið 2024 þar til fjárhæðinni er allri ráðstafað. Gert er ráð fyrir því að Ríkisskattstjóri tilkynni Fjársýslu ríkisins upplýsingar um ákvörðun stuðningsins og inn á hvaða lán skuli greiða fyrir 31. júlí 2024, sem muni í framhaldinu greiða stuðninginn til lánveitanda innan fimm virkra daga frá móttöku til lánveitanda sem skuli ráðstafa greiðslunum beint inn á lán eða afborganir innan fimm virkra daga frá móttöku greiðslunnar. Greiðsla inn á höfuðstól. Samkvæmt skoðun SFF ætti ráðstöfun vaxtastuðnings beint inn á höfuðstól að mestu að geta gengið með þeim hætti sem lýst er í frumvarpinu. Hugsanlegar tímasetningar á ráðstöfun greiðslunnar inn á höfuðstól geta hins vegar reynst óheppilegar sé gert ráð fyrir að ráðstöfun geti farið fram á tímabilinu frá byrjun júlí og fram í byrjun ágúst nk., en vegna útreikninga og stofnunar á kröfum fyrir reglulega gjalddaga er óheppilegt að greiðslum sé ráðstafað inn á höfuðstól lána á tímabilinu síðustu 10 daga fyrir gjalddaga og fyrstu 2 dagana eftir gjalddaga. Berist greiðslur inn á höfuðstól á því tímabili getur það útheimt handvirkar leiðréttingar á birtum gjalddögum, sem væri óheppilegt í svo miklu magni á sumarleyfistíma. SFF leggja því til að frumvarpinu verði breytt þannig að ráðgert verði að lánveitendur muni ráðstafa greiðslum inn á höfuðstól lána á tímabilinu 5. til 20. ágúst 2024. 1 sff@sff.is www.sff.is mailto:sff@sff.is http://www.sff.is/ Q Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu Greiðslur til lækkunar á afborgunum Verði valið að ráðstafa greiðslum til lækkunar á afborgunum er Ijóst að sú leið getur reynst illmöguleg innan þeirra tímamarka sem vísað er til í frumvarpinu og þarfnast kerfisbreytinga á útlánakerfum vel flestra lánveitenda. Eftir athugun hjá helsta birgja lánakerfis til fjármálafyrirtækja er tæknileg útfærsla á ráðstöfun greiðslna til lækkunar afborgana ekki til staðar í dag og ekki er talið raunhæft að það takist að þróa slíka lausn á þeim tíma sem er til stefnu samkvæmt frumvarpinu. Kannað var hvort hægt yrði að nýta kerfisútfærslur vegna ráðstöfunar séreignasparnaðar inn á afborganir lána en í ljós hefur komið að þær geta ekki nýst fyrir þetta úrræði þar sem sú lausn er eingöngu útfærð vegna óverðtryggðra lána. Samkvæmt frumvarpinu er ennfremur gert ráð fyrir því að greiðslu á allri fjárhæð vaxtastuðnings fyrir hvern umsækjanda verði ráðstafað til lánveitenda í einu lagi en eigi að koma til lækkunar á afborgunum lána út árið 2024. Tæknileg lausn til þess að ráðstafa fjármunum til greiðslu óútgefinna gjalddaga í framtíð svo fjárhæð hans lækki, er ekki til staðar í dag, hvorki í gegnum handvirk né sjálfvirk ferli. Verði fjármunum ráðstafað til lánveitenda í einu lagi en lánveitendur þurfa að halda á fjármunum og ráðstafa í skömmtum er ennfremur ekki að fullu ljóst af frumvarpinu hvernig á að fara með vörslur þeirra fjármuna á því tímabili. Í frumvarpinu segir að fjárhæð sem ekki greiðist eða unnt er að greiða inn á lán skuli endurgreiða Fjársýslunni og ennfremur að greiðsla vaxtastuðnings teljist eign ríkissjóðs þar til ráðstöfun hennar hefur farið fram. Ef lánveitendur þurfa að halda á fjármunum út árið sem þarf að ráðstafa inn á gjalddaga þarfnast umrætt fyrirkomulag nánari útfærslu og skýringa. Af framansögðu er ljóst að mati SFF að ráðstöfun á sérstökum vaxtastuðningi til lækkunar á afborgunum lána kallar á umfangsmiklar breytingar og tæknilegar útfærslur hjá lánveitendum, sem líklegt er að hafi í för með sér töluverðan kostnað. Ennfremur þykir ekki raunhæft að slíkar breytingar geti náð fram að ganga innan þeirra tímamarka sem fjallað er um í frumvarpinu. SFF leggja því til að frumvarpinu verði breytt þannig að ef ráðstafa eigi sérstökum vaxtastuðningi inn á lán, verði eingöngu heimilt að ráðstafa honum til innborgunar á höfuðstól. Fyrir þá lántaka sem kjósa eða þurfa aukið ráðstöfunarfé sem myndi felast í lækkun reglulegra greiðslna mætti bjóða upp á það val að fá vaxtastuðninginn greiddan beint inn á bankareikning líkt og hefðbundnar vaxtabætur. Hægt yrði að skipta þeim greiðslum mánaðarlega út árið 2024 eins og lagt er til með lækkun afborgana. Ætti sú leið að hafa sömu áhrif á fjármuni til ráðstöfunar fyrir þann sem nýtur stuðningsins. Virðingarfyllst, F.h. Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Jóna Björk Guðnadóttir, yfirlögfræðingur 2 sff@sff.is www.sff.is mailto:sff@sff.is http://www.sff.is/