Tekjuskattur

Umsögn í þingmáli 918 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 27.03.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 10 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 12 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Alþýðusamband Íslands Viðtakandi: Efnahags- og viðskiptanefnd Dagsetning: 19.04.2024 Gerð: Umsögn
Alþýðusamband íslands Alþingi Nefndasvið Austurstræti 8-10 150 ReykjavÍk ReykjavÍk: 19. Apríl 2024 Tilvísun: M202404-0229 Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003 (Barnabætur, sérstakur vaxtastuðningur). Til umsagnar er frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt sem felur í sér breytingar á barnabótakerfinu og greiðslu sérstaks vaxtastuðnings í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda tengdri kjarasamningum. Aðgerðir stjórnvalda í kjölfar undirritunar kjarasamninga á almenna vinnumarkaðinum studdu við gerð samningana, sem stuðla að fyrirsjáanleika og samræmast verðstöðugleika á næstu árum. Breytingar á barnabótum og sérstakur vaxtastuðningur eru hluti af þeim aðgerðum. Alþýðusambandið styður aðgerðirnar og hvetur til þess að málið nái fram að ganga. Alþýðusambandið hefur um árabil gagnrýnt miklar tekjuskerðingar í barnabótakerfinu. Kerfið hefur þannig verið lágtekjumiðað, með lágum skerðingarmörkum og miklum tekjuskerðingum. Það hefur því veitt takmarkaðan stuðning til þorra launafólks á vinnumarkaði. Þetta er ólíkt stuðningi við barnafjölskyldur á Norðurlöndum, sem er almennur og miðar að því að hvetja til barneigna og styðja við fæðingartíðni. Með þeim breytingum sem gerðar voru í tengslum við kjarasamninga 2022 og við stöðugleika- og velferðarsamninginn 2024 hefur verið gerð stefnubreyting í stuðningi til barnafjölskyldna með hækkun skerðingarmarka og lækkun skerðingarhlutfalls. Breytingar verða til þess að fjölga fjölskyldum sem fá barnabætur og ýta þeim ofar upp tekjustigann. Í yfirlýsingu ríkisstjórnar er jafnframt boðað að fjárhæðir kerfisins fylgi þróun launa og verðlags á árinu 2025. Alþýðusambandið telur brýnt að stjórnvöld verji kaupmátt fjárhæða til lengri tíma enda algengt að fjárhæðir fái að síga milli kjarasamninga. Þetta grefur undan stöðugleika á vinnumarkaði og setur þrýsting á launakröfur til að mæta raunlækkun stuðnings. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir greiðslu sérstaks vaxtastuðnings á árinu 2024 til að mæta aukinni vaxtabyrði heimila. Sérstakur vaxtastuðningur er útfærður á svipaðan hátt og núverandi vaxtabætur, þó með öðrum skerðingarmörkum eigna og tekna. Verkalýðshreyfingin taldi mikilvægt að mæta aukinni vaxtabyrði heimila við gerð kjarasamninga en lagði einnig áherslu á að draga úr þensluáhrifum aðgerða með fullri fjármögnun þeirra og réttri hönnun úrræða. Áhersla var því lögð á að sérstakur vaxtabætur greiddust inn á lán eða kæmu til lækkunar á afborgun fremur en að greiðast beint út við álagningu. Þessi áhersla kemur fram í fyrirliggjandi frumvarpi. Alþýðusamband íslands f.h Alþýðusambands Íslands Róbert Farestveit Hagfræðingur Sviðsstjóri hagfræði og greiningasviðs