Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Umsögn í þingmáli 916 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 27.03.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 9 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 18 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Alþýðusamband Íslands (ASÍ) Viðtakandi: Efnahags- og viðskiptanefnd Dagsetning: 26.04.2024 Gerð: Umsögn
Alþýðusamband Íslands Nefndasvið Alþingis Efnahags- og viðskiptanefnd Smiðja, Tjarnargötu 9 101 Reykjavík Reykjavík, 26. apríl 2024 Tilvísun: M202404-0214 Efni: Fjárfestingarkostir viðbótarlífeyrissparnaðar, frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, 916. mál 154. löggjafarþing - umsögn Alþýðusambands Íslands Alþýðusamband Íslands setur fyrirvara við framlagningu frumvarps á þessum tímapunkti og varar jafnframt almennt við þeim hugmyndum sem felast í áformum stjórnvalda. Alþýðusamband Íslands skilaði áður umsögnum um málið á Samráðsgátt stjórnvalda. Lýsti ASÍ andstöðu við málið ásamt því að bent var á samráðsleysi. Takmarkaðar breytingar hafa orðið á því frumvarpi sem fjármála- og efnahagsráðherra leggur fyrir Alþingi og byggir þessi umsögn ASÍ því á fyrri umsögnum. Líkt og fram kemur í greinargerð frumvarps stendur yfir vinna við gerð grænbókar um lífeyriskerfið sem fjármála- og efnahagsráðuneytið boðaði til. Starfshópurinn sem vinnur að grænbók er skipaður aðilum vinnumarkaðar, fulltrúum lífeyrissjóða, ásamt stjórnvöldum. Lýsa á stöðu lífeyriskerfisins, helstu áskorunum þess ásamt því að hvetja til umræðu og lýsa framtíðarstefnumótun líkt og segir í skipunarbréfi. Í skipunarbréfi segir einnig: „Horft er til þess að áframhaldandi samráð verði milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar sem snýr að hugsanlegum lagabreytingum[...]". Breyting á hluta laga lífeyriskerfisins á meðan heildstæð rýni fer fram með breiðum hópi hagsmunaaðila er afar óheppileg og dregur úr vægi yfirstandandi vinnu að grænbók. Sátt um breytingar á hluta lífeyriskerfisins verður ekki eins rík og mætti vera gegnum vinnu breiðs hóps hagsmunaaðila. Ekkert kemur fram í rökstuðningi sem réttlætir að taka þennan þátt lífeyriskerfisins út fyrir heildarrýni í grænbók. Halda verður til haga að stærri breytingar á lífeyrissjóðakerfinu eru að frumkvæði aðila vinnumarkaðar og í sátt við þá. Mótframlag atvinnurekenda í viðbótarlífeyrissparnaði eru kjarasamningsbundin réttindi sem aðilar vinnumarkaðar sömdu um. Samráð við aðila vinnumarkað skortir í aðdraganda framlagningar frumvarpsins. Tilkynnt samráð var einungis við sjálf stjórnvöld, eigendur viðbótarlífeyrissparnaðar og þá sem hagnast af auknum umsýslu- og þóknunarkostnaði . Viðbótarlífeyrissparnaður er valfrjáls sparnaður sem ráðstafað er í sjóð að eigin vali og eins er val um fjárfestingarstefnu eða -leið. Eins og er stendur ekkert í vegi þess að viðbótarlífeyrissparnaði sé ráðstafað að vild milli sjóða eða fjárfestingarstefna. Í áformum er ekki að finna neitt um að eigendur viðbótarlífeyrissparnaðar verði betur settir þegar kemur að töku lífeyris verði frumvarpið að lögum. Ásamt háfleygum en innihaldsrýrum rökum um aukið valfrelsi eru aukin skilvirkni fjármálamarkaða og samkeppni þau einu sem færð eru fyrir breytingunum sem frumvarpið felur í sér. Umtalsverð samkeppni er um viðbótarlífeyrissparnað þar sem fjöldi sparnaðarkosta er á áttunda tug. Lífeyrissparnaður, ALÞÝÐUSAMBAND ÍSLANDS • GUÐRÚNARTÚNI 1 • 105 REYKJAVÍK • SÍMI: 5 3 5 5 600 • ASI@ASI.IS • WWW. ASI.IS mailto:ASI@ASI.IS http://www.asi.is/ Alþýðusamband Íslands bæði kjarasamnings- og lögbundinn skyldusparnaður og viðbótarlÍfeyrissparnaður sem frumvarpið snýr að, er sparnaður til að tryggja afkomu á efri árum. Það er óvarlegt að breyta reglum um sparnaðinn með annað Í huga svo sem skilvirkni fjármálamarkaðar og seljanleika þar. Með viðbótarlífeyrissparnaði getur launafólk lagt til hliðar fyrir efri árin og notið þeirra með sparnaði umfram þann sem einungis fæst með skyldusparnaði lífeyris. Verði opnað fyrir frekari aðkomu að ákvörðunum um einstakar fjárfestingar með sparnaðinum og breytingum á fjárfestingarstefnu eru líkur á að óþörf áhætta skapist en jafnframt ljóst að minna verður úr sparnaðinum vegna umsýslu- eða þóknunarkostnaðar. Í greinargerð með frumvarpinu er vikið að kostnaði en þar segir: „Þá má ætla að ákvæði frumvarpsins sé til þess fallið að vera kostnaðarsamari í umsýslu fyrir vörsluaðila en aðrar fjárfestingarleiðir sem í boði eru." Vakin skal athygli á að þess verður ekki vart að í samfélaginu sé uppi almenn krafa um frelsi í fjárfestingarstefnum og aðkomu að eignastýringu með viðbótarlífeyrissparnað. Hugmyndir í þá átt koma einkum þaðan sem þóknana- og umsýslukostnaður rynni fremur en eigendum viðbótarlífeyrissparnaðar. Ætla mætti að þegar væri brugðist við almennu ákalli um fjölbreyttari fjárfestingarstefnur. Sæju vörsluaðilar hag af auknu framboði sjóða með fjölbreyttari fjárfestingarstefnur væri nú þegar keppst um að hýsa sparnaðinn með síauknu framboði kosta viðbótarlífeyrissparnaðar. Leggur ASÍ til að starfshópur um grænbók fái að ljúka vinnu áður en breytingar á kerfinu verði að lögum. Alþýðusamband Íslands leggst gegn þeim áformum sem birtast í áformaskjali bæði í ljósi vinnu vegna grænbókar og skorts á rökstuðningi fyrir þeim breytingum á lífeyriskerfinu sem lagðar eru til. Virðingarfyllst, f.h. ASÍ Þórir Gunnarsson Hagfræðingur ALÞÝÐUSAMBAND ÍSLANDS • GUÐRÚNARTÚNI 1 • 105 REYKJAVÍK • SÍMI: 5 3 5 5 600 • ASI@ASI.IS • WWW. ASI.IS mailto:ASI@ASI.IS http://www.asi.is/