Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Umsögn í þingmáli 916 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 27.03.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 9 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 18 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Nasdaq verðbréfamiðstöð Viðtakandi: Efnahags- og viðskiptanefnd Dagsetning: 24.04.2024 Gerð: Umsögn
Nasdaq Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ReykjavÍk, 24. apríl 2024 Efni: Umsögn Nasdaq Iceland um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (fjárfestingarkostir viðbótar lífeyrissparnaðar), mál nr. 916 Nasdaq Iceland (Kauphöllin) þakkar fyrir tækifærið til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum við frumvarp til laga um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. mál nr. 916 sem snýr að fjárfestingarkostum viðbótarlífeyrissparnaðar. Kauphöllin ítrekar þau sjónarmið sín sem komu fram í umsögn sinni við drög að frumvarpi sem kynnt voru í samráðsgátt stjórnvalda 12. mars 2024 (mál nr. S-83/2024), þ.e. Kauphöllin fagnar því að það sé verið að stíga skref í þá átt að auka frelsi einstaklinga til að ráðstafa eigin viðbótarlífeyrissparnaði en telur að eigi að ganga lengra og leyfa einstaklingum að fjárfesta í einstaka skráðum verðbréfum. Sú tillaga sem lögð er fram í frumvarpinu er að mati Kauphallarinnar of varfærin þegar haft er í huga að um viðbótarlífeyrissparnað einstaklinga er að ræða en ekki skyldusparnað. Þá væri hægt að gæta að varfærni með öðrum leiðum, t.d. með hámarki á hlutfalli fjárfestingar í einstaka verðbréfum, með því væri sjónarmiðum um áhættudreifingu mætt. Kauphöllin áttar sig á mikilvægi þess að varfærni sé höfð að leiðarljósi við breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og að þær séu gerðar í litlum skrefum. Ef ekki er vilji til að gera þær breytingar sem Kauphöllin leggur til í sínum umsögnum, þá leggur Kauphöllin til, með ofangreind varfærnissjónarmið í huga, að þessar heimildir einstaklinga til fjárfestingar í sjóðum sem frumvarpið tiltekur verði teknar til endurskoðunar að loknum hóflegum reynslutíma með það í huga að opna fyrir fjárfestingar í einstaka skráðum verðbréfum, enda er opnað á það í greinargerðinni þar sem brugðist er við umsögn Kauphallarinnar í máli nr. S-83/2024, „Ekki er talið að svo stöddu rétt að leggja til að frumvarpið taki til annarra fjárfestingarkosta en þar er mælt fyrir um.“ Kauphöllin hefur ekki frekari athugasemdir við drögin og er fús til frekari umræðu og samstarfs um ofangreint mál. Virðingarfyllst, Árnína Steinunn Kristjánsdóttir, yfirlögfræðingur Nasdaq á Íslandi.