Sóttvarnalög

Umsögn í þingmáli 867 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 19.03.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 10 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 46 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Umboðsmaður barna Viðtakandi: Velferðarnefnd Dagsetning: 26.04.2024 Gerð: Umsögn
UMBOÐSMAÐUR BARNA Velferðarnefnd Alþingis Reykjavík, 24. apríl 2024 Efni: Umsögn um frumvarp til sóttvarnalaga. 867. mál. Vísað er til erindis nefndasviðs Alþingis þar sem óskað var eftir umsögn umboðsmanns barna vegna frumvarps til sóttvarnalaga, 867, mál. Frumvarpið var lagt fram á 152. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Umboðsmaður barna skilaði umsögn um frumvarpið þann 1. júní 2022. Umboðsmaður barna setur nú í meginatriðum fram sömu athugasemdir og áður hafa komið fram í áðurnefndri umsögn embættisins. Í nóvember 2021 kynnti heilbrigðisráðuneytið til samráðs áform um heildarendurskoðun á núgildandi sóttvarnarlögum í samráðsgátt stjórnvalda. Í upplýsingum ráðuneytisins kom fram að áformað væri að gera breytingar á því hvernig opinberar sóttvarnaráðstafanir eru ákvarðaðar, ekki síst á grundvelli fenginnar reynslu af Covid-19 heimsfaraldrinum. Í umsögn umboðsmanns barna um áformin var sérstaklega áréttað að fengin reynsla hafi sýnt að heimsfaraldurinn og ekki síst opinberar sóttvarnaráðstafanir, hafi haft veigamikil og alvarleg áhrif á líðan, stöðu og réttindi barna í íslensku samfélagi. Því taldi umboðsmaður það miður, að í áformum heilbrigðisráðuneytisins um fyrirhugaða lagasetningu, væri ekki minnst sérstaklega börn né Barnasáttmálann sem ætti að koma til álita á sama hátt og Mannréttindasáttmáli Evrópu. Í umsögn sinni áréttaði umboðsmaður að Ísland hafi undirritað, fullgilt og lögfest Barnasáttmálann og hafi því skuldbundið sig til þess að grípa til allra viðeigandi ráðstafana til að tryggja að réttindi þau sem þar er kveðið á um nái fram að ganga. Þá brýndi umboðsmaður fyrir ráðuneytinu að frumvarp til laga, þar sem verið er að leggja til verulega íþyngjandi aðgerðir sem varða börn, hagsmuni þeirra og réttindi, án þess að gerður sé nokkur greinarmunur á börnum og fullorðnum, brjóti í bága við Barnasáttmálann. Því benti umboðsmaður ráðuneytinu á nauðsyn þess að við gerð frumvarpsins verði fjallað um og hugað að meginreglum Barnasáttmálans sem og ákvæðum sáttmálans um rétt barna til upplýsinga, þátttöku og áhrifa, framkvæmd mats á áhrifum á börn og að ávallt skuli taka ákvarðanir sem varða börn út frá því sem þeim er fyrir bestu. Í frumvarpi þessu er vísað í umsögn umboðsmanns barna og tekið fram að um mikilvæga umsögn hafi verið að ræða og talið rétt að umboðsmaður barna gefi ítarlegri umsögn um þau atriði sem embættið hefur bent á. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki sé talið ráðlegt að sérákvæði gildi um börn að því er varðar opinberar sóttvarnaraðgerðir, en á grundvelli umsagnarinnar hafi þó verið talið rétt að gera breytingu á 16. gr. grein frumvarpsins og vísa þar sérstaklega til hagsmuna barna. Fagnar embættið því að í ákvæðinu sé tekið tillit til félagslegra og efnahagslegra hagsmuna barna og að horft sé til bestu hagsmuna barna áður en teknar eru ákvarðanir um opinberar sóttvarnaraðgerðir, svo sem að stöðva skipulagðar íþróttaæfingar og aðrar skipulagðar tómstundir barna. Umboðsmaður barna telur engu að síður skorta á að þessi sjónarmið séu einnig áréttuð sérstaklega í þeim ákvæðum sem mæla fyrir um heimildir til íþyngjandi ráðstafana, svo sem í 28. gr., þar sem ráðherra er veitt heimild til þess að setja reglugerð um opinberar sóttvarnarráðstafnir, svo sem um lokun skóla. Að mati umboðsmanns væri eðlilegt að slík reglugerðarheimild væri háð þeim skilyrðum sem að framan eru rakin og að við slíkar ráðstafanir sé ávallt framkvæmt mat á því sem börnum er fyrir bestu og hvort þörf er á mótvægisaðgerðum til þess að draga úr neikvæðum áhrifum á réttindi barna. Í umsögn umboðsmanns barna um fyrra frumvarp kom fram að það sé grundvallarsjónarmið Barnasáttmálans að taka eigi sérstakt tillit til barna sem viðkvæms hóps sem samningurinn tryggir ýmis grundvallarréttindi. Þá áréttaði umboðsmaður að tilkoma Barnasáttmálans hafi fyrst og fremst byggst á því sjónarmiði að aðrir mannréttindasamningar og sáttmálar hafi ekki gengið nógu langt í því að viðurkenna sérstöðu barna og tryggja þeim ýmis grundvallarréttindi með hliðsjón af viðkvæmri stöðu þeirra. Þá setti umboðsmaður fram það mat sitt að frumvarp til laga um sóttvarnir, sem veitir heimild til íþyngjandi ráðstafana, sem ljóst er að geta haft veigamikil áhrif á börn brjóti augljóslega í bága við ákvæði sáttmálans, þar sem ekki er gerður greinarmunur á börnum og fullorðnum og engin umfjöllun er um Barnasáttmálann, réttindi barna, þarfir þeirra og hagsmuni. Með hliðsjón af því benti umboðsmaður barna á að auk tilvísunar til hagsmuna barna, sé einnig nauðsynlegt að taka sérstaklega fram, að ákvarðanir og aðgerðir sem frumvarpið gerir ráð fyrir og sem varða börn, eigi að byggja á því sem þeim er fyrir bestu. Þá er að mati umboðsmanns barna einnig nauðsynlegt, að kveðið sé á um það í frumvarpinu, að áður en ráðist er í sóttvarnaaðgerðir sem fyrirsjáanlegt er að hafi áhrif á börn, eigi að framkvæma sérstakt mat á áhrifum þeirra á börn, en það á ekki síst við um takmarkanir á skóla- og frístundastarfí. Einnig áréttaði umboðsmaður barna að í kafla frumvarpsins þar sem fjallað er um samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar eru ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar sem og mannréttindasáttmála Evrópu talin upp. Í þeirri umfjöllun er hins vegar ekki minnst á Barnasáttmálann, en að mati umboðsmanns barna er brýnt að bætt sé úr því, með viðbót við þann kafla, með umfjöllun um þau ákvæði Barnasáttmálans sem fyrirsjáanlegt er að reyni á við opinberar sóttvarnaráðstafanir. Þá gerði umboðsmaður einnig athugasemdir við 18. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um upplýsingaskyldu stjórnvalda og ber sóttvarnayfirvöldum samkvæmt ákvæðinu að standa fyrir eða stuðla að eins greinargóðri upplýsingagjöf til almennings og unnt er. Tók umboðsmaður barna fram að barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafi lagt ríka áherslu á að heilsufarslegar upplýsingar og fræðsla um heilsutengd atriði séu aðgengilegar börnum og settar fram á barnvænu máli þannig að börn á mismunandi aldurs- og þroskaskeiði skilji inntak þeirra. Umboðsmaður áréttaði því nauðsyn þess að kveðið verði sérstaklega á um rétt barna til upplýsinga við hæfi, um sóttvarnaaðgerðir sem snerta þau, í 18. gr. frumvarpsins og nefndi sem dæmi um slíka upplýsingagjöf til barna samstarf sóttvarnalæknis og umboðsmanns barna um vinnslu og framsetningu upplýsinga til barna um bólusetningar gegn Covid-19. Með hliðsjón af öllu framangreindu vill umboðsmaður barna árétta, að tillögur umboðsmanns um viðbætur við frumvarpið, byggja á fenginni reynslu síðustu ára, þar sem umboðsmaður barna gerði athugasemdir við framkvæmd sóttvarnaaðgerða, sem ekki samrýmdust ákvæðum Barnasáttmálans. Á því tímabili voru fjölmargar ákvarðanir teknar sem varða börn og daglegt líf þeirra, án aðkomu þeirra, eða þeirra aðila sem hafa það hlutverk lögum samkvæmt, að gæta hagsmuna þeirra og réttinda. Þá var misbrestur á því að börn hafi fengið upplýsingar við hæfi. Að öllu þessu virtu hvetur umboðsmaður barna til þess að frumvarpið verði endurskoðað með framangreind sjónarmið um hagsmuni og réttindi barna í huga. Virðingarfyllst, Salvör Nordal, umboðsmaður barn