Breyting á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga

Umsögn í þingmáli 864 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 19.03.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 17 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 28 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Stígamót,samtök kvenna Viðtakandi: Velferðarnefnd Dagsetning: 16.04.2024 Gerð: Umsögn
Microsoft Word - Umsögn um örorkulífeyrisfrumvarpið 864 mál Alþingi við Austurvöll Velferðarnefnd Reykjavík, 16. apríl 2024 Efni: Umsögn til velferðarnefndar um frumvarp félags- og vinnumarkaðsráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga (mál 864) Stigamót áskilja sér rétt til að senda inn umsögn um tiltekið atriði (sjúkra- og endurhæfingargreiðslur 3. gr.) í frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga án þess að taka allt frumvarpið fyrir til umsagnar. Í frumvarpinu eru lögð til næstu skref í endurskoðun örorkulífeyriskerfis almannatrygginga og á fyrirkomulagi stuðningskerfis vegna heilsubrests og endurhæfmgar. Lagður er til nýr greiðsluflokkur, sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, og endurhæfingarlífeyrir fellur brott. Lagt er til að örorkulífeyrir verði framvegis í breyttri mynd með því að sameina tvo greiðsluflokka almannatrygginga og einn greiðsluflokk samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Sérstök uppbót á lífeyri til framfærslu samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og tekjutrygging samkvæmt lögum um almannatryggingar falla brott. Lagður er til nýr greiðsluflokkur, hlutaörorkulífeyrir, fyrir einstaklinga sem ekki hafa fulla getu til virkni á vinnumarkaði. Þá verði tekið upp samþætt sérfræðimat í stað gildandi örorkumats. Virknistyrkur verði greiddur hlutaörorkulífeyrisþegum meðan á atvinnuleit stendur. Breytingar eru lagðar til á fjárhæðum greiðslna og á frítekjumörkum og komið verði á fót sameiginlegri þjónustugátt og teymum þeirra tilgreindu fagaðila sem koma að málum einstaklinga. Nýmæli sem snýr að okkar málaflokki eru þau að fólk gæti átt rétt til sjúkra- og endurhæfingargreiðslna sem afleiðingu af skertri starfsgetu vegna meðal annars áfalla. Þarna er því miður ekki sagt berum orðum í frumvarpi eða greinargerð að um geti verið að ræða ofbeldi en það má túlka það sem svo. Betra væri að segja það skýrum orðum því það er engum blöðum um það að fletta að brottfall af vinnumarkaði í kjölfar þess að vera fyrir ofbeldi er staðreynd. Í áfallasögu kvenna kemur fram að 40% kvenna hafa orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðisofbeldi á lífsleiðinni, 32% hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað á lífsleiðinni. Af þátttakendum í rannsókninni lýsa 14% einkenni áfallastreituröskunar. Stígamót hafa verið starfandi síðan 1990 og allar götur síðan safnað upplýsingum um afleiðingar kynferðisbrota á brotaþola. Á þessum 34 árum hafa um 11.000 einstaklingar sótt ráðgjöf og stuðning til Stígamóta, í kringum 90% voru konur. 1 Afleiðingar ofbeldis eru sömu ár eftir ár; kvíði, skömm, léleg sjálfmynd, depurð, sektarkennd og fleira en einnig sjálfskaðandi hegðun svo sem átröskun, fíknivandi, einangrun og svo mætti áfram telja. Störf Stígamóta síðastliðna áratugi hafa snúist um að vinda ofanaf þessum alvarlegu afleiðingum ofbeldis, berjast fyrir réttlæti til handa brotaþolum og sinna forvarnarstarfi aðallega meðal ungs fólks til að reyna að koma í veg fyrir kynbundið og kynferðislegt ofbeldi. Þau sem leita aðstoðar hjá Stígamótum lýsa ánægju með stuðninginn svo vægt sé til orða tekið og sumt fólk talar hreinlega um lífgjöf. Afleiðingar kynferðisofbeldis Tafla: Úr óbirtri ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2023 2 Til viðbótar við þessar „almennu“ afleiðingar af kynferðisbrotum ber að greina frá því að samkvæmt rannsókn Stígamóta frá árinu 2022 meðal þeirra sem leituðu til Stígamóta og hafa verið í vændi eru afleiðingarnar alvarlegri, sjálfsskaðinn meiri og erfiðara að vinda ofanaf afleiðingunum. En það að aðstoða fólk útúr vændi með skilgreindri endurhæfingaráætlun með fjárhagslegum stuðningi hefur lengi verið Stígamótum hugleikið. Það sem við vitum er sem sagt að gríðarlegur fjöldi kvenna á Íslandi verða fyrir ofbeldi, afleiðingar þess eru svo alvarlegar að þær geta haft veruleg áhrif á starfsgetu á vinnumarkaði. Að auki er vinnumarkaðurinn stundum sjálfur vettvangur ofbeldis og skorts á öryggi. Tafla: Úr rannsókn Önnu Þóru Kristinsdóttur, sálfræðingi og ráðgjafa á Stígamótum úr tölfræðigögnum Stígamóta 2022: Hefur vændi áhrif á líðan brotaþola þess? Það er kominn tími til að viðurkenna þessar staðreyndir í endurskoðun á almannatryggingakerfinu okkar og með þessu frumvarpi er stigið skref í þá átt þó almennt sé talað um áföll en ekki ofbeldi. Að sama skapi er nauðsynlegt að skilgreina aðstoð sem ber árangur sem viðurkenndan hluta af meðferð einstaklinga en sú hugmyndafræði sem Stígamót vinna samkvæmt hefur reynst vel um heim allan til að vinna úr afleiðingum ofbeldis. Sú nálgun felur í sér að valdefla brotaþola, líta ekki á fólk sem varnarlaus fórnarlömb eða sjúklinga, heldur einstaklinga sem hafa lifað af ógnandi ofbeldi og búa þess vegna yfir miklum styrk. Jafnframt er litið svo á að viðbrögð einstaklinga við kynferðisofbeldi og afleiðingar þess á líf þeirra séu eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Áherslan í þjónustunni við brotaþola er að gera einstaklinga meðvitaða um eigin styrk, aðstoða þá við að nota hann til að breyta eigin lífi og að sjá ofbeldið í félagslegu samhengi en ekki sem persónulega vankanta. Það er ósk Stígamóta og tillaga að við endurskoðun á lífeyristryggingakerfinu verði tekið mið af þeirri þekkingu sem við búum yfir samfélagslega; að helsta ógn við heilsu og starfsþrek kvenna er kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, afleiðingar þess og öryggisógnin sem felst í hótun um slíkt. Brotaþolar vændis eru sérstaklega útsettir og þurfa sérstök endurhæfingarúrræði. Tryggja þarf að fólk sem er að vinna sig útúr afleiðingum ofbeldis fái til þess fjárhagslegan stuðning í formi sjúkra- og 3 endurhæfingargreiðslna og viðurkenndur sé stuðningur Stígamóta og annarra samtaka fyrir brotaþola sem hluti af endurhæfingaráætlun viðkomandi. Kynbundið ofbeldi er samfélagslegt vandamál og okkar samfélagslegu úrræði þurfa að taka mið af því. Að lokum taka Stígamót undir áhyggjur Mannréttindaskrifstofu Íslands en í umsögn við frumvarpið frá skrifstofunni segir: Loks hvetur MRSÍ til að litið verði til stöðu fatlaðra kvenna en í frumvarpinu er ekki gerð breyting á því fyrirkomulagi að fjármagnstekjum skuli skipta til helminga á milli hjóna við útreikning greiðslna, óháð því hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða. ÖBÍ bendir réttilega á að framangreint er frávik frá því að ekki skuli horfa til tekna maka við ákvörðun réttinda greiðsluþega og að þetta valdi verulegu valdaójafnvægi á milli greiðsluþega og maka hans sem hafi fjárhagstekjurnar og dragi úr sjálfstæði hans. Í sinni verstu mynd leiði þetta til þess að einstaklingi í ofbeldissambandi sé ókleift að yfirgefa það vegna fjárhagslegs ójafnvægis. Framangreint fyrirkomulag samræmist ekki Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), sér í lagi meginreglunni um virðingu fyrir sjálfstæði einstaklinga, sbr. 3. gr. hans og þeim jafnréttisgildum sem hann hvílir á enda ljóst að reglan komi mun verr niður á konum en körlum. SRFF viðurkennir þann veruleika að fatlaðar konur eiga í mun meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi innan heimilisins og skyldar aðildarríkin til þess að grípa til aðgerða til að vernda fatlað fólk gegn ofbeldi innan heimilis, sbr. 1. mgr. 16. gr. samningsins. Virðingarfyllst fyrir hönd Stígamóta, Drífa Snædal, talskona 4