Náttúruverndar- og minjastofnun

Umsögn í þingmáli 831 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 18.03.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 16 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 52 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Vatnajökulsþjóðgarður Viðtakandi: Umhverfis- og samgöngunefnd Dagsetning: 19.04.2024 Gerð: Umsögn
Umsögn VJÞ Frv um Náttúruverndar og minjastofnun 170424.docx Vatnajökulsþjóðgarður Alþingi - umhverfis- og samgöngunefnd Austurstræti 8-10 150 Reykjavík Höfn í Hornafirði, 17. apríl 2024 Efni: Umsögn um 831. mál, 154. löggjafarþing: Náttúruverndar- og minjastofnun Vísað er til erindis dags. 25. mars 2024. Vatnajökulsþjóðgarður þakkar fyrir að vera boðið tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum í málinu og eru forsvarsmenn reiðubúnir að koma á fund nefndarinnar ef þess verður óskað. Skipan stjórnar Einn helsti styrkur Vatnajökulsþjóðgarðs í dag er stjórnkerfi hans og virk þátttaka stjórnar og svæðisráða í allri stefnumótun og ákvarðanatöku. Þannig næst samtal ólíkra sjónarmiða á breiðum grundvelli um málefni þjóðgarðsins, sem í dag nær til 15% landsins. Síðustu misseri hefur áhersla verið lögð á bætta starfshætti innan stjórnar og svæðisráða sem óhætt er að fullyrða að hafi bætt gæði ákvarðanatöku og stuðlað að meiri sátt og ánægju með þátttökumiðað stjórnfyrirkomulag. Almennt hefur núverandi samsetning stjórnar og svæðisráða virkað vel og tryggt gott jafnvægi milli sjónarmiða og faglegrar þekkingar á viðfangsefnum og markmiðum þjóðgarðsins. Í frumvarpinu er lögð til breyting á samsetningu svæðisstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs sem gæti raskað ofangreindu jafnvægi. • Í fyrsta lagi er lögð til breyting á fjölda fulltrúa í stjórn úr sjö í fimm, þ.e. að einungis einn fulltrúi sé skipaður af ráðherra án tilnefningar í stað tveggja áður, en aðrir fulltrúar komi úr röðum sveitarstjórna. Fulltrúar sveitarfélaganna færu þannig úr því að vera fjórir af sjö í það að vera fjórir af fimm stjórnarmönnum. Miðað við verkefni svæðisstjórnar og mikilvægi ólíkra sjónarhorna í umræðunni, getur svo hátt hlutfall sveitarfélaga innan ríkisstofnunar verið óheppilegt. • Í núgildandi lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er í öðru lagi gert ráð fyrir að annar af fulltrúum sem ráðherra skipar án tilnefningar hafi fagþekkingu á verksviði þjóðgarða. Slíkur áskilnaður er ekki í 6. gr. frumvarpsins, sbr. c. lið 4. tölul. Æskilegt er að þessi áskilnaður verði áfram í lögum til að tryggja fagþekkingu innan stjórnar. • Í þriðja lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að fulltrúi umhverfisverndarsamtaka verði áheyrnarfulltrúi í stjórn í stað þess að vera fullgildur stjórnarmaður. Þar sem vernd náttúru (og minja) er sá grundvöllur sem öll önnur markmið þjóðgarðsins byggja á, sbr. 2. gr. laga um Vatnajökulsþjóðgarð, þarf sá þáttur að hafa fullnægjandi rödd innan stjórnar þjóðgarðsins, með atkvæðisrétti. Svipaðan tilgang hefur áskilnaður um fagþekkingu sem áður hefur verið nefndur. Núverandi fyrirkomulag hefur virkað vel og tryggt gott jafnvægi sjónarmiða og fagþekkingu í umræðu og ákvarðanatöku. Óþarfi er að hætta þeirri sátt sem nú ríkir um samsetningu stjórnar með breytingum hvað þetta varðar og leggur undirrituð því til að svæðistjórn Vatnajökulsþjóðgarðs verði Í frumvarpinu skipuð með sama hætti og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs samkvæmt gildandi lögum. Svigrúm til sameiningar Tryggja þarf að ný stofnun hafi fullnægjandi fjármagn til að takast á við lögbundin verkefni. Vatnajökulsþjóðgarður vekur athygli á að ekki hefur farið fram nein greining á nauðsynlegu umfangi nýrrar Náttúruverndar- og minjastofnunar miðað við lögbundin verkefni hennar. Þá hefur ekki farið fram samræming löggjafar sem stofnuninni er ætlað að vinna eftir. Ekki er því hægt að gefa sér að sameining leiði til aukinnar hagræðingar eða bættrar skilvirkni án viðbótarfjármagns. Hafi hingað til skort fjármagn til viðfangsefna þessara fjögurra stofnana má allt eins gera ráð fyrir að ný stofnun verði í sömu stöðu. Fari svo að frumvarpið nái ekki fram að ganga á vorþingi leggur Vatnajökulsþjóðgarður til að gildistöku laganna verði frestað miðað við það sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Miðað við reynslu annarra ríkisstofnana sem hafa gengið í gegnum sameiningu, er æskilegt að gera ráð fyrir að lágmarki einu ári til undirbúnings nýrrar stofnunar og gildistöku laganna frá samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Vatnajökulsþjóðgarður leggur áherslu á að áform um sameiningu stofnana og undirbúningur nýrrar stofnunar fela í sér margskonar áskoranir í starfi þeirra stofnana sem málið varðar. Mjög mikilvægt er að halda óvissu gagnvart starfsfólki í lágmarki og gefa góðan tíma til undirbúnings breytinga. Almennt um ávinning af sameiningu Vatnajökulsþjóðgarður telur margvíslegan ávinning geta leitt af sameiningu þeirra þriggja opinberu stofnana sem fara með málefni náttúruverndar hér á landi, þ.e. hluta Umhverfisstofnunar, Vatnajökulsþjóðgarðs og þjóðgarðsins á Þingvöllum. Nú þegar eiga þessar stofnanir í miklu samstarfi og Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður deila víða húsnæði, aðstöðu og starfskröftum. Jákvætt er að færa umsjón allra náttúruverndarsvæða undir eina stofnun enda fylgir margvíslegt óhagræði núverandi fyrirkomulagi. Vatnajökulsþjóðgarður bendir hins vegar á að óvissa er um það hvaða ávinningur getur orðið af sameiningum á sviði stoðþjónustu þar sem ekki virðist gert ráð fyrir auknu fjármagni til þess þáttar hjá nýrri stofnun þó allar líkur séu á að slíkt þurfi miðað við núverandi stöðu þeirra mála hjá stofnununum fjórum. Tækifæri felast einnig í sameiningu framangreindra stofnana sem fara með málefni náttúruverndar og Minjastofnunar, þó að þær tengist ólíkum fagsviðum. Á það sérstaklega við um þann hluta starfseminnar sem snýr að verndun menningarminja á friðlýstum svæðum, miðlun og fræðslu og á sviði stoðþjónustu, rekstrar og stjórnsýslu. Vernd menningarminja er eitt af markmiðum Vatnajökulsþjóðgarðs, sbr. 2. gr. laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð, og er sá þáttur fyrirferðarmikill á mörgum svæðum, bæði hvað varðar verndun en einnig í fræðslustarfi. Nú þegar er gott samstarf milli Vatnajökulsþjóðgarðs og Minjastofnunar sem vonir standa til að unnt verði að auka enn frekar. Til að vel takist til við sameiningu stofnana þarf hins vegar að ríkja nokkuð góð sátt um verkefnið og gagnsemi þess. Þó að ávinningur geti verið af sameiningu stofnana á sviði náttúruverndar annars vegar og minjaverndar hins vegar má ná ýmsum árangri fram með annars konar samstarfi. Vatnajökulsþjóðgarður mælir með að farið verði vandlega yfir þau sjónarmið sem fram hafa komið varðandi kosti og galla þessa hluta sameiningaráformanna og að tekin verði ákvörðun í sem mestri sátt við þá sem best þekkja til málefna minjaverndar. Umsögn þessi er rituð af framkvæmdastjóra fyrir hönd þjóðgarðsins. Hún endurspeglar ekki sjónarmið einstakra fulltrúa sem eiga sæti í stjórn og svæðisráðum. Ingibjörg Halldórsdóttir framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs