Náttúruverndar- og minjastofnun

Umsögn í þingmáli 831 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 18.03.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 16 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 52 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Landsvirkjun Viðtakandi: Umhverfis- og samgöngunefnd Dagsetning: 16.04.2024 Gerð: Umsögn
1/2 Fullgild rafræn undirskrift Fullgild rafræn undirskrift KRISTÍN LINDA ÁRNADÓTTIR ÓLAFUR ARNAR JÓNSSON 2024-04-1516:26:07 GMT 2024-04-1516:49:22 GMT Ástæða: Undirskrift Ástæða: Undirskrift [ Landsvirkjun Umhverfis- og samgöngunefnd Nefndasvið Alþingis 101 Reykjavík umsagnir@althingi.is Reykjavík, 15. apríl 2024 E-2024-099/00.11 Efni: Umsögn um frumvarp til laga um Náttúruverndar- og minjastofnun Vísað er til umsagnarbeiðni sem barst frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis 25. mars 2024. Í frumvarpi er fjallað um nýja Náttúruverndar- og minjastofnun sem taka skuli við starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs, Þjóðgarðsins á Þingvöllum, Minjastofnunar Íslands og þess hluta Umhverfisstofnunar sem lýtur að náttúruvernd. Landsvirkjun þakkar tækifærið til umsagnar og vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri. Ríki heims leita nú leiða til að draga úr kolefnislosun sinni og leikur stóraukin hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa þar lykilhlutverk. Íslensk stjórnvöld hafa sett fram metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og eru innlend orkuskipti þar lykilþáttur. Ljóst er að auka þarf raforkuframboð umtalsvert eigi þau markmið að nást ásamt því að standa undir fyrirséðum vexti íslensks samfélags. Raforkuspár eru samhljóða um þessa aukningu í orkuþörf en við stöndum nú þegar frammi fyrir þeirri staðreynd að raforkukerfið á Íslandi er fullselt. Undirbúningur virkjana er langt ferli sem kallar á skýra og skilvirka stjórnsýslu og hafa tafir á undirbúningstíma áhrif á getu raforkumarkaðarins til að anna eftirspurn. Í því ljósi fagnar Landsvirkjun áformum um sameiningu fagstofnana Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Fjölmennari og sterkari fagstofnanir hafa tækifæri til að styrkja umsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála, byggja upp frekari þekkingu og auka skilning á samspili málaflokkanna. Eitt meginmarkmið fyrirhugaðrar stofnanasameiningar er einföldun stjórnkerfisins og áréttar Landsvirkjun að við stofnun Náttúruverndar- og minjastofnunar sé tækifærið nýtt til að straumlínulaga stjórnsýslu með samþættingu og einföldun ferla. Í því samhengi vísar Landsvirkjun til umsagnar sinnar við frumvarp um Umhverfis- og orkustofnun, dags. 12.02.2024, en þar kemur fram að við fyrirhugaða stofnanasameiningu muni umsagnir um umhverfisþætti í mati á umhverfisáhrifum framkvæmda og umsagnir um tillögur að aðal- og deiliskipulagi deilast á fleiri aðila en nú er. Landsvirkjun benti á í umsögn sinni að óbreytt væri að þessu leiti farið gegn áherslum um einföldun og straumlínulögun. Hvað varðar framlagt frumvarp vill Landsvirkjun koma eftirfarandi sértækum athugasemdum á framfæri. Samstarf og samskipti hluti af verkefnum nýrrar stofnunar Í 3. gr. frumvarps er fjallað um verkefni nýrrar stofnunar og vekur Landsvirkjun athygli á að í verkefnalista er ekki fjallað um samstarf og samskipti við nærsamfélög þjóðgarða og verndaðra svæða. Mikilvægt er að starf þjóðgarða og verndarsvæða (hvort sem svæði eru vernduð á grundvelli sérlaga, náttúruverndarlaga eða laga um menningarminjar) byggi á stoðum sjálfbærni: umhverfi, efnahags og samfélags. Landsvirkjun bendir jafnframt á að slík áhersla er í samræmi við áherslur stjórnvalda. Innan þessara svæða eru jafnan til staðar margbreytilegir hagsmunir og fjölmargir hagsmunaaðilar sem tengjast t.a.m. landbúnaði, veiðum, útivist, frístundabyggð, ferðamennsku, orkuvinnslu o.s.frv. Landsvirkjun telur þannig mikilvægt að skilgreina samstarf og samskipti við hagsmunaaðila í nærsamfélagi sem eitt af verkefnum nýrrar stofnunar. Með vísan í ofangreint leggur Landsvirkjun til eftirfarandi viðbót við 3. grein frumvarps. Breytingartillaga Landsvirkjunar er undirstrikuð og skáletruð. Breytingartillaga á 3.gr. lið 8 [nýr liður]: „Skipulagning og þátttaka í samstarfi við hagsmunaaðila í nærsamfélagi þjóðgarða og Katrínartún 2 105 Reykjavík landsvirkjun.is +354 515 90 00 mailto:umsagnir@althingi.is 2/2 verndaðra svæða“ Svæðisstjórnir taki mið af hagsmunaaðilum atvinnulífs á svæðinu Í 6. gr., lið 1.d og lið 4.c er fjallað um svæðisstjórnir og mögulega aðkomu hagsmunaaðila að þeim. Landsvirkjun bendir í því samhengi á að betur færi á því að lagatexti væri almennari svo ekki sé komið í veg fyrir aðkomu annarra atvinnugreina en tengjast ferðaþjónustu og útivist. Landsvirkjun bendir á að verndarsvæði útiloki ekki sjálfkrafa uppbyggingu atvinnulífs s.s. landbúnað, matvælaframleiðslu í tengslum við jarðhitanýtingu og önnur verkefni sem aðilar myndu mögulega vilja þróa og gengi ekki gegn verndarsjónarmiðum. Betur færi á því að ráðherra væri tryggt svigrúm til að meta aðstæður í hverju tilviki fyrir sig eftir því sem aðstæður kalli eftir. Með vísan í ofangreint leggur Landsvirkjun til eftirfarandi breytingar. Breytingartillögur Landsvirkjunar eru undirstrikaðar og skáletraðar. Breytingartillaga á 6.gr. lið 1.d, 2.málsgr: „Í stað 3. og 4. mgr. 82. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo: Ráðherra er heimilt að stofna svæðisstjórn með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórna, stofnana og eftir atvikum félagasamtaka á sviði náttúruverndar og aðilum atvinnulífsins s.s. útivistar og ferðaþjónustu. Svæðisstjórn hefur umsjón með náttúruvernd á því svæði sem friðlýst hefur verið sem þjóðgarður. Heimilt er að fela svæðisstjórn umsjón með öðrum friðlýstum svæðum í nágrenni þjóðgarðs.“ Breytingartillaga á 6. gr, lið 4.c, 4.málsgr.: „Þrír fulltrúar heildarsamtaka á sviði náttúruverndar og aðilum atvinnulífs s.s. útivistar og ferðaþjónustu skulu tilnefndir af hálfu viðkomandi samtaka og eiga áheyrnaraðild að fundum svæðisstjórnar.“ Starfsemi fagstofnana á undirbúningstíma verði óskert Landsvirkjun bendir á að í ákvæðum til bráðabirgða er kveðið á um að ráðherra sé heimilt að skipa forstjóra Náttúruverndar- og minjastofnunar við gildistöku laga en að ekki sé gert ráð fyrir að stofnunin sem slík verði starfhæf fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Landsvirkjun hvetur eindregið til þess að á meðan á undirbúningstíma standi verði þess gætt að starfsemi núverandi stofnana verði ekki röskuð og að ekki komi til tafa við ákvarðanatöku í mikilvægum málefnum. Landsvirkjun vill að lokum nefna að fyrirtækið hefur átt í löngu og farsælu samstarfi við þjóðgarða og umsjónaraðila á verndarsvæðum í nærsamfélagi sínu enda um margvísleg sameiginleg hagsmunamál að ræða. Vatnajökulsþjóðgarður er í nágrenni við tvö stór orkuvinnslusvæði, Þjórsársvæðið á Suðurlandi og Fljótsdalsstöð á Austurlandi. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er í nágrenni við þrjár aflstöðvar í Soginu. Samstarfsfletir Landsvirkjunar í nærsamfélagi eru fjölmargir og má í því samhengi nefna samstarfssamning við Vatnajökulsþjóðgarð, þátttöku í rekstri Þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal og Ormsstofu á Austurlandi. Landsvirkjun tekur einnig þátt í og kostar margvísleg verkefni sem stuðla að uppbyggingu og auknu aðdráttarafli verndarsvæða s.s. bílastæði við Hjálparfoss og viðhald í Vatnajökulsþjóðgarði. Einnig má nefna fjöldann allan af umhverfis- og auðlindarannsóknum sem eru mikilvægur þáttur í starfsemi Landsvirkjunar. Á grundvelli þessara rannsókna verður til þekking sem veitir skilning á breytingum á náttúru landsins. Virðingarfyllst, Kristín Linda Árnadóttir Aðstoðarforstjóri Ólafur Arnar Jónsson Forstöðumaður nærsamfélags og náttúru