Hafnalög

Umsögn í þingmáli 830 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 18.03.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 10 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 25 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samband íslenskra sveitarfélaga Viðtakandi: Umhverfis- og samgöngunefnd Dagsetning: 19.04.2024 Gerð: Umsögn
SAMBAND ÍSLENSKRA SVEITARFÉLAGA Skrifstofa Alþingis - nefndasvið Austurstræti 8-10 150 Reykjavík Reykjavík 19. apríl 2024 2404014SA VRB Málalykill: 00.63 Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, 830. mál. Vísað er til tölvupósts frá nefndarsviði Alþingis, dags. 25. mars sl. þar sem óskað er eftir umsögn um frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003. Í frumvarpinu er lagt til að hafnalög mæli fyrir um rafræna vöktun í höfnum, nýtt ákvæði um eldisgjald sem tekið er fyrir eldisfisk í sjókvíum, þ.m.t. eldisseiði, sem umskipað er, lestaður er eða losaður í höfnum og ákvæði um afmörkun tiltekinna hafnarsvæða. Einnig er um að ræða fleiri minniháttar breytingar. Meðfylgjandi er afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hafnarsambands Íslands til frumvarpsins. Afstaða sambandsins og hafnarsambandsins Afmörkun hafnarsvæða Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins er lagt til að í hafnarreglugerð skuli, þegar kveðið er á um stærð og takmörk hafnarsvæðis á sjó og landi, afmarka sérstaklega fjögur svæði en ekki eitt hafnarsvæði á sjó líkt og nú tíðkast. Eigendur hafna skulu samkvæmt ákvæðinu afmarka hvert og eitt svæði þegar þeir gera tillögu til ráðuneytis um hafnarreglugerð. Hefur þetta ákvæði tekið breytingum frá fyrri drögum þannig að betur er tryggt að ekki sé gengið á skipulagsvald sveitarfélaga að netlögum. Í fyrri umsögn sambandsins sem og ábendingum fleiri aðila var hvatt til þess að orðið þjónustusvæði væri skilgreint betur en í greinargerð kemur fram að erfitt sé að setja viðmið í ljósi mismunandi aðstæðna í hverri höfn fyrir sig. Skilgreiningin er því að þjónustusvæði sé svæði hafnar þar sem höfn veitir þjónustu og gjald tekið fyrir. Segir síðan í greinargerð með 1. gr. þar sem orðið þjónustusvæði er skilgreint að það séu eigendur hafna sem afmarka svæði þar sem þjónusta hafna verður veitt og að hafntengd þjónusta hafna geti náð lengra út á sjó en hafnargrunnvirki afmarka. Það kemur þó ekki nógu skýrt fram í frumvarpinu að umrædd fjögur svæði geti skarast, þ.e.a.s. að þjónustusvæði hafna geti náð inn á hafnarsvæðifarþegaskipa og hafnsögusvæði svo dæmi séu nefnd. Því leggur sambandið til að skýrt komi fram í ákvæðinu að svæðin geti skarast, þ.e. tilgreind svæði geti verið skilgreint sem fleiri en ein tegund svæðis samkvæmt 2. gr. Í greingargerð segir jafnframt að afmörkun hafnarsvæða og farsviða sé mikilvæg við breytingu reglnanna en að hún hafi ekki áhrif á hvar hafnir veita þjónustu. Að því er varðar gjaldtöku gildi afmörkun þjónustusvæðis. Í þessu samhengi telur sambandið að taka þurfi af allan vafa með það að gjaldtökuheimildir hafna nái til allra svæðanna enda geta þau verið að veita þjónustu á þeim öllum. Borgartúni 30, pósthólf 8100, 128 Reykjavík, sími 515 4900, fax 515 4903, samband@samband.is, www.samband.is mailto:samband@samband.is http://www.samband.is Samkvæmt 11. gr. frumvarpsins er kveðið á um að eigendur hafna skuli endurskoða ákvæði um hafnarsvæði á sjó í hafnarreglugerðum og skila ráðuneyti endurskoðuðum ákvæðum þar sem svæðin eru talin upp í samræmi við ný ákvæði um afmörkun hafnasvæða fyrir 1. janúar 2025. Sambandið telur mjög óraunhæft að þeirri vinnu verði lokið hjá öllum hafnarsvæðum enda skammur tími til stefnu. Einnig er mikilvægt að hafnastjórnir fái skýrari leiðbeiningar um hvernig fjórskipt hafnarsvæði líti út. Er því lagt til að í nefndaráliti verði því beint til Vegagerðarinnar að útbúa leiðbeiningar um hvernig fjórskipt hafnarsvæði lítur út t.d. með því að útbúa dæmi um tvær til þrjár mismunandi hafnir og að að bráðabirgðaákvæðinu verði breytt svo frestur til að uppfæra hafnarreglugerðir verði til 1. janúar 2026. Ákvæði um eldisgjald vegna eldisfisks í sjókvíum sem lestaðar eru og umskipað í höfnum. Sambandið leggur til, líkt og gert hefur verið ítrekað í fyrri umsögnum um eldisgjald, að greininni verði breytt og aflagjald verði lagt á eldisfisk og eldisseiði en ekki umrætt eldisgjald. Samkvæmt e. lið 17. gr. hafnalaga skal greiða aflagjald af sjávarafurðum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfnum. Er í raun mun einfaldara og eðlilegra í framkvæmd að aflagjald sé lagt á allar sjávarafurðir hvort sem um er að ræða sjávarafla beint úr sjó eða eldisfisk í sjókvíum og eldisseiði enda ljóst að um sjávarafurðir er að ræða og að mörgu leyti sambærilega þjónustu hafna. Einnig er það betra út frá samkeppnissjónarmiðum að sjávarafurðir greiði sambærileg gjöld. Hvergi í frumvarpinu má finna rökstuðning fyrir því hvers vegna það þurfi að taka upp sérstakt eldisgjald í stað þess að nýta aflagjöld líkt og á við um aðrar sjávarafurðir. Mikilvægt er að hafa í huga að þegar aflagjald var tekið upp á sínum tíma þóttiþað mikill kostur að greiðslur atvinnulífsins til hafna væru beintengdar heildaraflaverðmæti afla því það myndi búa til betri rekstraraðstæður þar sem aðstæður á markaði lækka aflagjald eða hækka eftir því markaðsverði. Engin rök hafa komið fram er styðja við að annars konar gjald eigi að vera til staðar fyrir eldisfisk og eldisseiði. Einnig vekur það furðu að meðan skilgreindur er sá rammi er hafnir hafa við i nnheimtu aflagjalda þá er engin slíkur rammi settur varðandi eldisgjald og hefur það ekki verið sérstaklega rökstutt hvers vegna eldisgjald eigi að fara eftir öðrum lögmálum en aflagjald. Leggur sambandið því til að ákvæði um eldisgjald verði orðað með eftirfarandi hætti: Aflagjald af eldisfiski, þ.m.t. eldisseiðum, sem alinn hefur verið í sjókvíum eða ætlaður er til slíks eldis, sem umskipað er, lestaður eða losaður í höfnum: „Sé gjaldið innheimt skal það vera minnst 0,7% og mest 3,0% af heildaraflaverðmæti miðað við meðaltal alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi fyrir þann mánuð sem slátrun fer fram. Stofn til álagningar gjalds samkvæmt tölulið þessum skal miða við þyngd afurða eftir slátrun, slægðan fisk.“ 2 Rafræn vöktun Lögð er áhersla á að umrædd heimild um rafræna vöktun verði lögfest sem og miðlun þeirra gagna til notenda hafna, í rauntíma, á opnu vefsvæði enda eru notendur hafna óskilgreindur hópur líkt og vegfarendur. Um mikilvægt öryggisatriði er að ræða svo notendur hafna geti fylgst með bæði sínum skipum og aðstæðum í höfnum hverju sinni. Hafnsaga skipa Í 7. gr. er lagt til að ákvæði úr III. kafla laga um vaktstöð siglinga um hafnsögu og leiðsögu verði færð yfir í hafnalög. Ákvæðin eru að mestu efnislega samhljóða en gerðar hafa verið breytingar varðandi ráðningu hafnsögumanna ásamt því sem ákvæði um leiðsögumenn eru felld út. Þrátt fyrir að ákvæði um leiðsögumenn hafi fallið út er enn vísað til leiðsögumanna í 2. mgr. 7. gr. b (21. gr. b). Líklega á þarna að vísa til hafnsögumanna en ekki leiðsögumanna og eðlilegt er að það sé leiðrétt. Sé hins vegar ætlunin að hafa áfram leiðsögumenn er nauðsynlegt að heimfæra þau ákvæði einnig úr lögum um vaktstöð siglinga. Önnur atriði Að lokum vill sambandið ítreka fyrri ábendingar um að tilefni er til þess að fara í heildarendurskoðun hafnalaga til þess að koma þeim í nútímalegra horf. Sambandið hvetur nefndina til að beina þeim tilmælum til ráðuneytisins að farið verði í heildarendurskoðun á lögunum í samráði við helstu hagsmunaaðila. Niðurlag Samband íslenskra sveitarfélaga og Hafnasamband Íslands ítrekar mikilvægi þess að gjaldtaka af eldisfiskigangist undir sömu lögmál og gjaldtaka af öðrum sjávarafurðum enda hafa hvergi komið fram rök fyrir því að aðrar reglur eigi við um eldisfisk en aðrar sjávarafurðir er greiða aflagjald. Þá ítreka umsagnaraðilar álit sitt á því að brýn þörf sé til þess að ganga til heildarendurskoðunar á hafnalögum í stað bútasaums við núverandi lög. Sambandið og hafnarsambandið óska eftir því að fá að fylgja umsögn þessari eftir á fundi með nefndinni. Virðingarfyllst SAMBAND ÍSLENSKRA SVEITARFÉLAGA Valgerður Rún Benediktsdóttir yfirlögfræðingur 3 4