Heilbrigðisþjónusta

Umsögn í þingmáli 728 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 21.02.2024 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 7 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 0 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Heilbrigðisráðuneytið Viðtakandi: Velferðarnefnd Dagsetning: 26.04.2024 Gerð: Minnisblað
Minnisblað Viðtakandi Velferðarnefnd Alþingis Sendandi Heilbrigðisráðuneytið Dagsetning 24. apríl 2024 Málsnúmer HRN23110104 Umsagnir um 728. mál Með tölvupósti, dags. 15. apríl sl., óskaði velferðarnefnd eftir minnisblaði heilbrigðisráðuneytisins, þar sem fram komi afstaða þess til þeirra umsagna sem nefndinni hafa borist um 728. mál, frumvarp til laga um breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 (íjarheilbrigðisþjónusta). Í umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarpið kemur fram að ekki geti allir nýtt sér þá þjónustu sem frumvarpið leggur til að verði skilgreind sem íjarheilbrigðisþjónusta. Í umsögn ÖBI réttindasamtaka kemur fram að fatlað fólk geti átt erfitt með að nýta sér fjarheilbrigðisþjónustu af ýmsum ástæðum. Hvað framangreindar athugasemdir varðar, vísar ráðuneytið til þess, að þann 28. mars 2023 skrifuðu félags- og vinnumarkaðsráðherra, fjármála- og efaahagsráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og heilbrigðisráðherra undir viljayfirlýsingu um þróun á lausnum á rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk. Í kjölfarið var starfshópur settur á laggirnar skipaður helstu hagaðilum en meðal þeirra voru Landsamtökin Þroskahjálp og ÖBI réttindasamtök. Hópurinn hefur þegar skilað tillögum að aðgerðum um aukið aðgengi fatlaðs fólks að rafrænni heilbrigðis- og fjármálaþjónustu. Í umsögn Halldórs Sigurðar Guðmundssonar er því haldið fram að með frumvarpinu vakni óvissa um gildissvið og skörun við aðra löggjöf á sviði velferðarmála um félagsþjónustu sveitarfélaga, barnavernd, málefni aldraðra og málefni fatlaðs fólks. Ráðuneytið áréttar að með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu sem skilgreind er sem hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, sjúkrahúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga. Þannig er ljóst að þjónusta sem veitt er á grundvelli annarra laga svo sem laga um félagsþjónustu sveitarfélaga eða barnaverndarlaga, fellur ekki undir skilgreiningu laganna og er því ekki um að ræða óvissu um gildissvið frumvarpsins eða skörun þess við aðra löggjöf. Í umsögn Halldórs Sigurðar kemur einnig fram að möguleg afmörkun á hugtakinu velferðartækni í lögum um heilbrigðisþjónustu sérstaklega sé ekki vænleg þar sem það sé til þess fallið að skapa óskýrleika um reglur, leyfi og eftirlit. Í frumvarpinu er ekki gerð tilraun til að skilgreina velferðartækni, sem er yfirhugtak yfir ýmis stuðningsúrræði, heldur er eingöngu verið að tryggja, að við beitingu velferðartækni, sem felst í stafrænna tæknilausna heilbrigðisþjónustu sem styðja við búsetu einstaklinga í heimahúsi, verði gert skylt að tryggja öryggi sjúklinga og viðkvæmra heilbrigðisupplýsinga. Í umsögn Félagsráðgjafafélags Íslands segir að mikilvægt sé að það komi fram í lögunum eða reglugerð að ekki sé leyfilegt að nota almennan tölvupóst til að senda viðkvæmar, persónugreinanlegar upplýsingar eða til að veita fjarheilbrigðisþjónustu. Með hliðsjón af því áréttar ráðuneytið að frumvarpið gerir ráð fyrir að við skipulagningu og veitingu fjarheilbrigðisþjónustu beri veitendum þjónustunnar að uppfylla fyrirmæli landlæknis um upplýsingaöryggi. Í þeim fyrirmælum er m.a. fjallað um öryggisráðstafanir og meðferð viðkvæmra gagna. Í umsögn félagsins er jafnframt á það bent að ákjósanlegt geti verið að horfa til fleiri lausna við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu en innskráningu með rafrænum skilríkjum, en tekið skal fram að framangreindur starfshópur um rafrænt aðgengi fatlaðs fólks, hefur verið með þá framkvæmd til sérstakrar skoðunar, og hefur sett fram tillögur til úrbóta. Stjórnarráð Íslands Heilbrigðisráðuneytið 1 Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands er því fagnað að verið sé að veita fjarheilbrigðisþjónustu lagastoð en um leið er gerð athugasemd við það að verið sé að greina á milli heilbrigðisþjónustu eftir því hvort hún er veitt á staðnum eða með tæknilausnum. Ráðuneytið áréttar að með frumvarpinu er eingöngu verið að bæta orðskýringum um fjarheilbrigðisþjónustu við lög um heilbrigðisþjónustu, þannig að lögin taki einnig til þeirrar þjónustu, en að öðru leyti gera lög um heilbrigðisþjónustu sömu kröfur til allrar heilbrigðisþjónustu, óháð því hvort hún er veitt á heilbrigðisstofnun eða starfsstofu heilbrigðisstarfsmanns eða með notkun stafrænnar tækni Í umsögn sinni ítrekar Viðskiptaráð Íslands fyrri athugasemdir úr umsögn ráðsins um frumvarpsdrögin í Samráðsgátt stjórnvalda, en þar kom fram að ráðið legðist gegn því að skipulag og veiting fjarheilbrigðisþjónustu verði bundin fyrirmælum landlæknis. Ráðuneytið taldi á þeim tíma ekki tilefni til að bregðast við þeirri athugasemd en áréttaði að stafræn þróun í heilbrigðisþjónustu sé hröð og að unnið sé að frekari stefnumótun á því sviði. Þau sjónarmið eiga enn við. Í umsögn Persónuverndar kemur fram að betur hefði farið á því að vísa til 1. mgr. 5. gr. í stað 1. mgr. 6.gr. í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins og tekur ráðuneytið undir þau sjónarmið. Stjórnarráð Íslands Heilbrigðisráðuneytið 2