Umferðarlög

Umsögn í þingmáli 400 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 23.10.2023 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 6 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 22 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Innviðaráðuneytið Viðtakandi: Umhverfis- og samgöngunefnd Dagsetning: 16.04.2024 Gerð: Umsögn
Minnisblað Viðtakandi Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis Sendandi Innviðaráðuneytið Dagsetning 16. apríl 2024 Málsnúmer IRN23111185 Tilgangur Til upplýsingar Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum (EES-reglur). Hér á eftir er að ósk nefndarinnar að finna stutta samantekt til frekari skýringar á gildandi lagaumhverfi hvað varðar viðurkenningu og innflutning skráningarskyldra ökutækja hér á landi. Inngangur. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. umferðarlaga skal ökutæki svo gert og við haldið að það megi nota án þess að af því leiði hætta eða óþægindi fyrir aðra, skemmdir á vegi eða óþarfa hávaði eða mengun. Þá er ráðherra sbr. 4. mgr. meðal annars falið að setja í reglugerð nánari kröfur á grundvelli heildargerðarviðurkenningar ökutækis varðandi gerð, búnað og íhluti til þess að tryggja að hér á landi séu einungis sett á markað ökutæki sem uppfylla kröfur um öryggi og verndun umhverfis. Nánari útfærslu framangreinds er að finna í reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja og er markmið hennar, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 377/2013, að tryggja umferðaröryggis- og umhverfissjónarmið. Í henni er kveðið á um tæknilegar kröfur þegar ökutæki er skráð á Íslandi, ásamt kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum ætluðum í ökutæki og eru með henni sett samræmd viðmið til þess að auðvelda skráningu, sölu og notkun ökutækja á Evrópska efnahagssvæðinu ásamt því sem kveðið er á um kröfur um tæknilegt ástand ökutækja í notkun. Samkvæmt 03.00 (1) lið 3. gr. reglugerðarinnar eins og henni var breytt með reglugerð nr. 377/2013 er gerðarviðurkenning aðferð EES-ríkis til þess að votta að gerð ökutækis, kerfi, íhlutur eða aðskilin tæknieining uppfylli kröfur. Gerðarviðurkenning ökutækis tekur til ökutækja í tilteknum flokki sem ekki eru frábrugðin hvað varðar nánar tilgreind grundvallaratriði. Með öðrum orðum er gerðarviðurkenning í þessu samhengi, viðurkenning þess að tilgreind gerð ökutækja samræmist gildandi kröfum. Heildargerðarviðurkenning ökutækis er viðurkenning á samræmi gerðar ökutækis við kröfur sem gilda innan EES og gildir hún til samræmis við það. Þjóðargerðarviðurkenning er aftur á móti aðeins viðurkenning einstaks ríkis á samræmi gerðar ökutækis við kröfur samkvæmt eigin landsrétti og gildir því aðeins innan þess ríkis sem veitt hefur viðurkenninguna. Samræmingarvottorð er svo vottorð útgefið af framleiðanda ökutækis sem staðfesting þess að ákveðið og tiltekið ökutæki úr ákveðinni framleiðsluröð af gerð sem hlotið hefur viðurkenningu sé í samræmi við þá ákveðnu og tilteknu gerðarviðurkenningu á þeim tíma sem það er framleitt, og með því í samræmi við gerðar kröfur. Framangreindar viðurkenningar eiga því við gerð raðsmíðaðra ökutækja sem ekki eru frábrugðin með tilliti til ákveðinna grundvallaratriða og samræmingarvottorð er yfirlýsing framleiðanda um að eitt tiltekið ökutæki úr þeirri framleiðsluröð samræmist gerðum kröfum. Skráningarviðurkenning er svo aftur á móti aðferð EES-ríkis við að viðurkenna að eitt einstakt ökutæki uppfylli gerðar kröfur til skráningar innan ríkisins. Um skráningarviðurkenningu nýrra ökutækja er fjallað í 03.04 lið 3. gr. reglugerðarinnar og skal viðkomandi ökutæki sbr. (3) lið fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt reglugerðinni. Þá eru í (4) lið tilgreind þau gögn sem fylgja skulu umsókn um skráningarviðurkenningu tiltekins nýs ökutækis. Samkvæmt a-d-liðum (4) liðar skal umsókn um Stjórnarráð Íslands Innviðaráðuneytið Sölvhólsgötu 7 101 Reykjavík stjornarradid.is 545 8200 skráningarviðurkenningu nýs ökutækis fylgja frumrit upprunavottorðs frá framleiðanda ökutækisins, eins og það á við. Einnig skulu umsókninni fylgja frekari upplýsingar um nánar tilgreind atriði, eftir því sem við á, staðfestar með vottorði frá framleiðanda eða viðurkenndri tækniþjónustu og skal á vottorðinu koma fram verksmiðjunúmer viðkomandi ökutækis. Við viðurkenningu til skráningar á torfærutæki gildir þó sbr. 03.70 (1) lið 3. gr. reglugerðarinnar að ekki verða gerðar kröfur um staðfestingu eða vottorð samkvæmt lið 03.04 (b). Skulu umsókn um skráningarviðurkenningu torfærutækis því aðeins fylgja frumrit upprunavottorðs, eftir því sem við á, vottorð um niðurstöðu skráningarskoðunar frá faggiltri skoðunarstofu eða fulltrúaskoðunar og frambréf. Sama gildir varðandi umsókn um skráningarviðurkenningu notaðs torfærutækis, sbr. 03.05 lið 3. gr. reglugerðarinnar, utan þess að umsókninni skal þá sbr. a-lið fylgja frumrit erlends skráningarskírteinis eða titilsbréfs í stað frumrits upprunavottorðs. Um gerðar kröfur til torfærutækja og kröfur til aksturs í almennri umferð. Samkvæmt skilgreiningu 35. tölul. 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga er torfærutæki vélknúið ökutæki sem telst ekki bifreið, bifhjól eða dráttarvél og er aðallega ætlað til fólks- eða farmflutninga utan vega og/eða til að draga annað ökutæki og er á hjólum eða er búið beltum eða eftir atvikum stýrimeiðum/stýrihjólum. Nánari flokkun ökutækja og skilgreiningar eru í 1. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja og er torfærutæki samkvæmt 01.70 (1) lið vélknúið ökutæki sem er aðallega ætlað til fólks- og vöruflutninga utan vega og er innan við 400 kg að eigin þyngd. Torfæruhjól eru þá skilgreind samkvæmt 01.72 (1) liðum reglugerðarinnar. Til skýringar er reglugerðin svo upp sett, sbr. það sem fram kemur í inngangsákvæði hennar að númerakerfi fyrir einstaka liði er með þeim hætti að hver liður sem varðar ökutækjaflokk er settur upp úr tveimur tölum með punkti á milli en tveggja og þriggja stafa tölum ef um ræðir notkunarflokk. Fremri talan segir þá til um númer viðkomandi greinar en síðari talan er kóði sem hefur ákveðna merkingu. Hvað varðar torfærutæki hefur sérstaka þýðingu hvort kóði varðar öll ökutæki sem reglugerðin tekur til og lýst er í viðkomandi grein (00), einstaka kerfi eða hluti í þeim búnaði sem greinin fjallar um (01-09) eða mismunandi flokka ökutækja samkvæmt skilgreiningu í 1. gr. (10-99) en standi kóðinn á heilum tug er um að ræða almenn ákvæði fyrir viðkomandi ökutækjaflokk. Til frekari skýringar koma kröfur um áletranir þannig fram í 4. gr. reglugerðarinnar að liður 04.00 og undirliðir (1) og (2) eiga við öll ökutæki sem reglugerðin tekur til, liður 04.20 og undirliðir eiga við um bifhjól og svo framvegis. Sama gildir þá um stýrisbúnað sem fjallað er um í 5. gr., um hemlabúnað samkvæmt 6. gr., ljósabúnað samkvæmt 7. gr. og áfram. Við skoðun reglugerðarinnar er þá ljóst að mun nánari kröfur eru gerðar til ökutækja sem ætluð eru til notkunar í almennri umferð heldur en torfærutækja, sem ætluð eru til notkunar utan almennrar umferðar. Algengast verður að telja að torfærutækjum svipi til ökutækja í flokki bifhjóla en sá flokkur ökutækja innifelur eins og fram hefur komið ökutæki á tveimur, þremur og fjórum hjólum. Þær kröfur sem fram koma í reglugerðinni leiða af gildandi Evrópureglum og UNECE-reglum, sbr. reglugerð 168/2013/ESB um viðurkenningu á og markaðseftirlit með vélknúnum ökutækjum á tveimur eða þremur hjólum og fjórhjólum, sem innleiddar hafa verið í reglugerð um gerð og búnað ökutækja með reglugerð nr. 846/2016. Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja, eins og henni var breytt með fyrrgreindri reglugerð nr. 846/2016, er þá vísað til framangreindra reglna og teljast nánari kröfur sem gerðar eru til útbúnaðar og gerðar bifhjóla uppfylltar þegar kröfum reglugerðarinnar og reglugerðar 168/2013/ESB er fullnægt. Ef tekið verður til skýringar dæmi um kröfur sem gerðar eru til hemlabúnaðar, þar sem nánar kröfur eru gerðar eftir flokkun og þar með ætlaðri notkun ökutækja, gildir samkvæmt almennu ákvæði 06.00 Stjórnarráð Íslands Innviðaráðuneytið 2 / 3 6. gr. um öll ökutæki sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar að sbr. (2) lið skal hemlakerfi þeirra þannig hannað og uppbyggt að það virki örugglega og á fullnægjandi hátt við eðlilega notkun, (3) að hemlaleiðslur skulu vera tæringar- og þreytuþolnar, þola titring og vera þannig fyrir komið að þær skaddist ekki í eðlilegum akstri og svo má áfram telja. Eru þá nánari kröfur til aksturshemils og neyðarhemils skilgreindar í liðum 06.01 og 06.02 og nánari kröfur til annarra hemla og hemlakerfa skilgreindar í þeim liðum sem á eftir fylgja, og eiga þær samkvæmt kóða aðeins við um þann búnað. Koma þá fram í 06.10 lið sérstakar kröfur til hemla bifreiðar og eru þær nánar útfærðar í undirliðum (1) til (17), svo sem varðandi samræmi við gildandi Evrópureglur og UNECE-reglur, hemlunargetu og virkni og svo framvegis. Eiga þær einnig við um bifhjól í nánar tilgreindum undirflokkum en nánari kröfur eru svo gerðar til hemla annarra bifhjóla í liðum 06.20 til 06.22. Gildandi framkvæmd. Þegar ökutæki sem hefur verið flutt hingað til lands, það fellt í viðeigandi ökutækjaflokk og sýnt fram á að það samræmist gerðum kröfum til ökutækja í viðkomandi flokki fæst það skráð, eftir atvikum til notkunar í almennri umferð. Eins og um hefur verið fjallað eru mun ríkari kröfur gerðar til ökutækja sem ætluð eru til notkunar í almennri umferð heldur en til ökutækja sem ætluð eru til notkunar utan vega. Þegar gögn skortir verður ekki sýnt, án náinnar skoðunar, að ökutækið samræmist gerðum kröfum. Þó svo að við það verði síðar bætt útbúnaði og útlit þess fært til samræmis við ökutæki sem viðurkennd hafa verið til notkunar í almennri umferð ríkir enn óvissa um það hvort önnur skilyrði til skráningar í viðkomandi ökutækjaflokk og aksturs í almennri umferð eru uppfyllt. Með öðrum orðum er þá enn óvíst hvort annar búnaður þess og grunngerð fullnægi gerðum kröfum svo að það megi nota án þess að af því leiði hætta eða óþægindi fyrir aðra eða skemmd á vegi og það valdi ekki óþarfa hávaða eða mengun. Í þeim tilvikum sem ekki verður sýnt fram á það með framvísun gagna að ökutæki samræmist kröfum í viðeigandi ökutækjaflokki eða þau gögn eru með öllu ófáanleg er framkvæmd fyrrgreindrar tæknilegrar skoðunar, með tilætluðum hætti, illa á færi annarra en viðurkenndra tækniþjónusta sem ekki er að finna hér á landi. Hefur sú leið þó verið farin, sbr. 03.05 (5) 3. gr. reglugerðarinnar, í algjörum undantekningartilvikum að fela Samgöngustofu mat þess hvort ökutæki sem ekki fylgja gögn fullnægi kröfum til skráningarviðurkenningar. Niðurlag. Allar undanþágur og frávik frá gerðum kröfum, sem settar eru fram í því skyni að auka umferðaröryggi og umhverfisvernd, þarfnast að mati ráðuneytisins náinnar skoðunar. Þó skal tekið fram, líkt og fram kemur í fyrri umsögn ráðuneytisins, að til álita hefur komið að veitt verði heimild í líkingu við þá sem nú er óskað. Þyki nefndinni ástæða til þess að auka frekar heimildir til aksturs torfærutækja í almennri umferð þarfnast það að mati ráðuneytisins frekari skoðunar í samráði við Samgöngustofu og í kjölfarið nánari útfærslu en lögð hefur verið til. Er það þó mat ráðuneytisins að slík breyting falli ekki að efni frumvarpsins. Stjórnarráð Íslands Innviðaráðuneytið