Fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfsins

Umsögn í þingmáli 120 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 18.09.2023 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 8 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 50 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samband íslenskra sjóminjasafna Viðtakandi: Allsherjar- og menntamálanefnd Dagsetning: 16.04.2024 Gerð: Umsögn
Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfsins árið 20024 Samband íslenskra sjóminja styður heils hugar fyrirliggjandi tillögu. Undirritaður er formaður sambandsins og hér fylgja nýlegar vangaveltur mínar um stöðu bátavarðveislunnar í landinu, hvað samband okkar hefur gert og hvað vantar. Aðilar að Sambandi íslenskra sjóminjasafna, eru aðallega söfn en einnig setur og sýningar. Þeir hafa verið mjög virkir á sviði sjóminjavörslu undanfarna áratugi. Sambandið sjálft hefur síðan verið umræðuvettvangur milli þeirra og haft forgöngu um skráningu fornbáta á Íslandi. Hún er meðal þess sem skiptir mestu máli. Með skráningu kemur fram hver staðan er, hvaða bátar eru eftir til að varðveita eða farga. Á grundvelli þess getum við metið bátana hvern fyrir sig, hverja þeirra er bráðnauðsynlegt að varðveita o.s.frv. En skráningin ein er lítils virði ef henni er ekki fylgt eftir. Við þurfum einnig aðila sem stunda handverkið við smíði, gera við og viðhalda bátunum. Og menn sem kunna að róa þeim og sigla. Einnig þarf stjórnsýslulegt utanumhald um fornbáta á borð við það sem tíðkast í öðrum löndum og sem Minjastofnun Íslands annast fyrir hús og fornleifar. Því til viðbótar þarf stétt fræðinga sem sérhæfir sig í fornbátavernd hliðstæða fornleifafræðingum sem sinna jarðfundnum minjum. Að lokum vantar fé til fornbátavarðveislu. Á Íslandi er ekki til bátafriðunarsjóður. Nú er hægt að sækja um styrki í fornminjasjóð. Framlög í hann eru hins vegar allt of lág til að sinna þeim verkefnum sem fyrir liggja. 1 Húsafriðun Fróðlegt er að bera bátavarðveisluna við húsafriðunina. Eins og flestir vita er húsafriðun komin mun lengra á veg heldur en bátafriðunin hérlendis. Til húsa er veitt gjarnan hundrað sinnum hærri fjárhæð en til báta og skipa. En húsafriðunin komst ekki á sjálfkrafa eða á stuttum tíma. Stofnuð voru félög í þágu málefnisins, farnar kröfugöngur, gefin út blöð og bækur o.s.frv. Málstaðnum kom líka mjög að gagni í upphafi að skráning gamalla húsa hófst. Fyrsta skráningin á gömlum húsum í Reykjavík fór fram í tenglslum við aðalskipulag fyrir borgina á sjöunda áratugnum og var hún gerð á árunum 1967-1970. Í hinu nýja aðalskipulagi var meðal annars gert ráð fyrir að öll timburhús í miðbæ Reykjavíkur og norðan Grettisgötu væru rifin. Rökin fyrir því voru þau m.a. að steinsteypuöld væri jú löngu gengin í garð og einkabílisminn sömuleiðis. Tveimur mönnum var falið að skrá timburhúsin, sem til stóð að rífa eða fjarlægja, svo að sæmilegar heimildir mundu varðveitast um þau. Einnig skyldu skrásetjararnir leggja mat á ástand húsanna og sögulegt gildi. Fjöldi þessara húsa var 269 og var talið að flest þeirra eða öll væru í svo lélegu ástandi að ekki væri um annað að ræða en rífa þau. Niðurstaða tvímenninganna var hins vegar að rúmlega helming húsanna, 150 talsins, bæri að varðveita á staðnum, 17 mætti setja á safn. Um 100 hús mætti rífa, þó skyldu þau áður mæld upp og ljósmynduð. Um þetta leyti, í byrjun áttunda áratugarins, fór stuðningur við húsafriðun mjög vaxandi. Það hafði í för með sér að tillögur tvímenninganna voru samþykktar að miklu leyti, þótt það hefði mátt vera í enn meiri mæli. Fornbátaskráin Samband íslenskra sjóminjasafna ákvað árið 2016 að láta semja fornbátaskrána fyrir allt landið sem út kom 2019 á netinu, 830 blaðsíður. Fyrir þann tíma tíma höfðu verið gerðar bátaskrár fyrir nokkur söfn og einnig höfðu Þjóðminjasafnið og Stofnun Vilhjálms Einarssonar sinnt skráningu báta. Þessum skrám var steypt saman og aukið verulega við þær. Hin nýja fornbátaskrá var fjölfölduð í tuttugu eintökum og er ennfremur hýst á netinu hjá Þjóðminjasafninu. Hún er öllum opin og til að finna hana dugir að slá inn orðið „fornbátaskrá“ í leitarvél. 2 Höfundar að skránni voru aðallega tveir, ég, sem var safnvörður á Borgarsögusafni, og Ágúst Georgsson, sem þá starfaði hjá Þjóðminjasafninu. Áður en verkið hófst kynntum við okkur vel sambærilegar skrár í Noregi og Danmörku. Niðurstaðan var að skrá 27 atriði um hvern bát og voru þau skilgreind nokkuð ítarlega. Einnig skyldu bátarnir Ijósmyndaðir og mældir upp ef ekki væru til mál á þeim fyrir. Í skránni eru 190 bátar, flestir í eigu safna og annarra opinberra aðila. Nær allir eru frá því fyrir 1950, sem merkir að þeir eru skilgreindir sem fornbátar samkvæmt lögum frá árinu 2012. Skráningu er ekki að fullu lokið, verið er að gera betri skil bátum í einkaeigu sem eru eldri en 1950 og er vonast til að vinna við það Ijúki næsta ári, 2025. Einnig þarf í raun að gera bátaskrá fyrir árin 1950-1970 því að lífaldur báta er sjaldan meira en 50 ár. Fornbátaskránni var ekki síst ætlað að gefa yfirlit yfir stöðu bátaverndar í landinu eins og fyrr greinir. Lögð er áhersla á gildi einstakra báta en einnig að fá yfirsýn yfir hvað til er í landinu og draga fram sérstöðu bátanna sem hluta af heild. Með þessu er skránni ætlað að stuðla að bættri bátavernd og auðvelda alla vinnu við ákvarðatökur um hvaða báta æskilegt sé að varðveita og hverja ekki. Það getur átt við um nýfengna báta á söfnum, báta sem ekki hafa hlotið formlega viðurkenningu sem safngripir og báta sem til stendur að farga. Ennfremur er skránni ætlað er að gera bátaarfinn sýnilegri en nú er í þeirri von að auka skilning stjórnvalda og almennings á gildi hans. Skráin komi þannig að gagni t.a.m. við styrkumsóknir. Ennfremur muni aðgengi almennings að upplýsingum um þennan hluta menningararfsins aukast og frekari rannsóknarvinna verði auðveldari. Þrátt fyrir að skráningunni sé ekki lokið er ljóst að hún hefur nú þegar haft talsverð áhrif til góðs. Eigendur bátanna hafa til að mynda gjarnan gert átak við varðveislu og viðhald þeirra. 3 Bátavarðveisla með hægan meðbyr Bátavarðveisla á Íslandi er áratugum á eftir húsafriðuninni og í rauninni er hún enn í uppnámi og ekki fyrirsjáanlegt hvenær hún verður viðunandi. Það hefur ekki síst komið fram í lágum fjárstyrkjum til báta og að lengst af voru einungis árabátar varðveittir. Þeir voru vissulega elsti hluti flotans en einnig minnstir og auðveldast var að varðveita þá. Almennt er staðan varðandi árabátana, þ.e. opinna súðbyrðinga, nokkuð góð. Þó er ljóst að orðið hefur tjón sem ekki verður bætt. Til að mynda eiga Vestmannaeyingar, stærsta verstöð landsins um aldir, engan vertíðarbát frá árabátatímanum. Sömu sögu er að segja af heilum landsfjórðungi, Austfjörðum. Ennfremur er mjög lítið eða ekkert til af sumun gerðum árabáta, til að mynda bátum með færeysku lagi og svonefndum Lofotenbátum. Auk þess er vitað um árabáta sem hafa ótvírætt varðveislugildi en liggja undir skemmdum. Þegar kemur að stærri bátum, sér í lagi þilskipum, er staðan allt önnur og verri. Til að mynda voru fallegu timburhúsin, sem búið er að friða í Reykjavík, byggð upphaflega fyrir hagnað af skútuútgerð sem stóð yfir á árunum 1870-1910. En engin skúta hefur varðveist nema Sigurfari á Akranesi sem er í afleitu ástandi. Plankabyggðum vélbátum 20. aldar, sem voru fjölmargir og færðu meirihluta bolfiskaflans að landi, fækkar nú hratt. Til skamms tíma stefndi í að þeir hyrfu alveg eða þar til hvalaskoðunarfyrirtækin tóku að nota þá. Þá er vel þekkt að enginn síðutogari er til lengur en þeir skiptu tugum hverju sinni. Erlend fyrirmynd Á Íslandi hafa opinber minjasöfn fengið það hlutverk að varðveita fornbáta og flestir bátarnir í fornbátaskránni eru í eigu þeirra. En í nágrannalöndunum er algengt að einstaklingar og félagasamtök eigi fornbáta og leggi til sjálfboðaliðsvinnu og jafnvel fjármuni í því skyni halda fleytum sínum á sjó og í góðu standi. Til þess eru þeir hvattir af opinberum aðilum sem greiða fyrir efniskostnað og fleira. Afar gagnlegt væri ef fyrirkomulag af því tagi kæmist á hérlendis í auknum mæli. 4