Fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfsins

Umsögn í þingmáli 120 á 154. þingi


Þingmál lagt fram: 18.09.2023 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 8 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 50 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samband íslenskra sjóminjasafna Viðtakandi: Allsherjar- og menntamálanefnd Dagsetning: 16.04.2024 Gerð: Umsögn
Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfsins árið 20024 Samband íslenskra sjóminja styður heils hugar fyrirliggjandi tillögu. Bátavarðveisla á Íslandi er áratugum á eftir nágrannalöndum okkar, hún er í miklu uppnámi og þarfnast umtalsverðra umbóta. Það kemur meðal annars fram í því að fyrst og fremst árabátar eru teknir til varðveislu. Árabátarnir voru vissulega elsti hluti flotans en einnig minnstir og auðveldast var að varðveita þá. Almennt er staðan varðandi árabátana, þ.e. opna súðbyrðinga, nokkuð góð að ýmsu leyti. Þó er Ijóst að orðið hefur tjón varðandi þá sem ekki verður bætt. Til að mynda eiga Vestmannaeyingar, stærsta verstöð landsins um aldir, engan vertíðarbát frá árabátatímanum. Sömu sögu er að segja af heilum landsfjórðungi, Austfjörðum. Ennfremur er mjög lítið eða ekkert til af sumum gerðum árabáta, til að mynda bátum með færeysku lagi og norskum bátum, svonefndum Lofotenbátum. Auk þess er vitað um fjölda árabáta sem hafa ótvírætt varðveislugildi en liggja undir skemmdum. Þegar kemur að stærri bátum, sér í lagi þilskipum, er staðan samt sem áður mun verri. Til að mynda voru fallegu timburhúsin, sem nú er búið að friða í Reykjavík, byggð upphaflega fyrir hagnað af skútuútgerð sem stóð yfir á árunum 1870—1920. En engin skúta hefur varðveist nema Sigurfari á Akranesi sem er í afleitu ástandi. Plankabyggðum vélbátum 20. aldar, sem voru fjölmargir og færðu meirihluta bolfiskaflans að landi, fækkar nú hratt. Til skamms tíma stefndi í að þeir hyrfu 1 alveg eða þar til hvalaskoðunarfyrirtækin tóku að nota nokkra þeirra. Þá er vel þekkt að enginn síðutogari er til lengur en þeir skiptu tugum hverju sinni. Að taka bát til varðveislu er síðan lítils virði ef ekki er staðið að henni á viðunandi hátt. Til þess þarf húsakynni ef á að varðveita hann innandyra. Ef báturinn á að vera á floti eða standa utandyra uppi á landi þarf stöðugt viðhald handverksmanna. Einnig þarf stjórnsýslulegt utanumhald um fornbáta á borð við það sem tíðkast í öðrum löndum og sem Minjastofnun Íslands annast fyrir hús og fornleifar. Það þarf að sjá um að á viðunandi hátt sé staðið að verki. Að lokum vantar fjármuni til bátavarðveislu. Beinast liggur við að stofna bátafriðunarsjóð sem er á föstum fjárlögum eða fær öruggar tekjur. Nú er hægt að sækja um styrki í fornminjasjóð en framlög í hann eru allt of lág til að sinna þeim verkefnum sem fyrir liggja. 2