Dánaraðstoð

Umsögn í þingmáli 91 á 148. þingi


Þingmál lagt fram: 23.01.2018 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 18 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 58 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Landlæknisembættið Viðtakandi: Velferðar­nefnd Dagsetning: 21.02.2018 Gerð: Umsögn
Umsögn um tillögu til þingsályktunartillögu um dánaraðstoð, 91. mál. Frá Embætti landlæknis 7. febrúar 2018 Tillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að afla upplýsinga frá umheiminum um reynslu af dánaraðstoð og þróun laga í nágrannalöndunum varðandi dánaraðstoð. Enn fremur að gera könnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar. Þann 15. september sl. var haldin einsdags ráðstefna í Reykjavík á vegum norrænu lífsiðfræðinefndarinnar í samstarfi við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands um líknardráp og ákvarðanir við lífslok. Norræna lífsiðfræðinefndin er hluti af NordForsk og starfar á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Á þessari ráðstefnu greindu fulltrúar frá Kanada, Hollandi, Belgíu og Oregon frá reynslu sinni af dánaraðstoð. Kom berlega í ljós að verulegur munur er á framkvæmd dánaraðstoðar í þessum löndum og reynsla Hollendinga og Belga minnst sagt umhugsunarverð. Enn fremur komu fram fulltrúar Norðurlandanna og greindu þeir frá þeirri umræðu sem fer fram í þessum löndum. Umræðan kemur upp af og til á Norðurlöndunum en það var samdóma álit þeirra sem tóku til máls bæði í fyrirlestrum og í pallborðsumræðum að Norðurlöndin ættu langt í land áður en þau væru komin á það stig að gera breytingar á lögum í átt að dánaraðstoð. Sama lífsiðfræðinefnd stóð fyrir einsdags ráðstefnu í Stokkhólmi þ. 16. nóvember sl. og var þar fjallað um "Hard choices in health care" þar sem meðal annars var komið inn á meðferð í lok lífs. Þar kom skýrt fram að Norðurlönd væru ekki reiðubúin til þess að taka upp dánaraðstoð og raunar væri hún óþörf þar sem næg úrræði eru fyrir hendi til að tryggja góða meðferð í lok lífs innan ramma núgildandi laga. Með öðrum orðum, umræðan um dánaraðstoð fer fram nú þegar og Íslendingar eiga auðvitað að taka þátt í henni. Á hinum Norðurlöndunum fer þessi umræða fram á samnorrænum vettfangi utan þings og án þrýsings frá stjórnmálum. Það væri misráðið að Íslendingar færðu þessa umræðu inn á Alþingi og enn verra að fela heilbrigðisráðherra og ráðuneyti að takast á við þetta verkefni þegar mörg önnur mikilvægari verkefni bíða úrlausnar í heilbrigðiskerfinu. Í þessu sem svo mörgu öðru gera Íslendingar réttast í að fylgjast með þeirri umræðu og þróun sem á sér stað í nágrannalöndunum. Til þess eru nægir vetvangar í dag án þess að umræðan sé færð inn á alþingi Íslendinga. Landlæknir mælir því eindregið gegn þessari tillögu til þingsályktunartillögu.