Pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun og ríkisábyrgðir

Umsögn í þingmáli 944 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 16.06.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 4 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 0 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samtök ferðaþjónustunnar Viðtakandi: Dagsetning: 25.06.2020 Gerð: Umsögn
Nefndasvið Alþingis Atvinnuveganefnd Alþingi við Austurvöll 101 Reykjavík Reykjavík 25. júní 2020 Umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar - SAF um frumvarp til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og lögum um ríkisábyrgðir (Ferðaábyrgðasjóður). Frumvarpið mælir fyrir um að stofnaður verði svokallaður Ferðaábyrgðasjóður til að bregaðst við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á starfsemi skipuleggjanda eða smásala og tryggja hagsmuni neytenda. Sjóðurinn verður í vörslu Ferðamálastofu en ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. SAF telja að í frumvarpinu sé í megindráttum komið til móts við vanda ferðaskrifstofa og neytenda í þessu máli. Samþykkt frumvarpsins mun hjálpa ferðaskrifstofum sem eiga í miklum rekstrarvanda og koma í veg fyrir rekstrarstöðvanir og/eða gjaldþrot fyrirtækja sem ljóst er að raungerast verði frumvarpið ekki að lögum fyrir þinglok. SAF lýsa því ánægju með frumvarpið en benda jafnframt á eftirfarandi: 1. Tímabilið Frumvarpið á að gilda fyrir pakkaferð sem átti að koma til framkvæmdar á tímabilinu 12. mars til og með 30. júní 2020. Ljóst er að fjöldi ferða mun raskast eftir 30. júní nk. enda eru og verða ferðatakmarkanir áfram í mörgum löndum. Tímabilið þarf því að haldast í hendur við hvenær öllum ferðatakmörkunum verður aflétt hér á landi. Íslensk stjórnvöld hafa innleitt ferðatakmarkanir á ytri landamærum Schengan svæðisins í samræmi við tilmæli leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Núverandi ferðatakmörkun gildir til 1. júlí nk. og ef það tímabil verður framlengd þá væri eðlilegt að framlengja þetta tímabil. Nýlega kom t.d. í ljós að takmarkanir á ferðum til Íslands munu enn gilda gagnvart ferðamönnum frá Bandaríkjunum (og fleiri ríkjum) eftir 1. júlí nk. vegna tilmæla ESB varðandi sameiginleg ytri landamæri Schengen svæðisins. Þetta mun óhjákvæmilega leiða til þess að endurgreiðslukröfur verði til hjá fyrirtækjum gagnvart ferðamönnum frá Bandaríkjunum eftir að tímabilinu lýkur skv. frumvarpinu. Í loka málsl. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins kemur fram heimild fyrir ráðherra að framlengja tímabilið með reglugerð. SAF undirstrika mikilvægi þess að ráðherra nýti sér þá heimild ef um áframhaldandi raskanir eða ferðatakmarkanir verða fyrir hendi. 2. Endurgreiðslur Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ríkissjóður leggi Ferðaábyrgðarsjóði til stofnfé og að það sé mikilvægt að gæta hagsmuna sjóðsins og ríkissjóðs enda sé tilgangur frumvarpsins að veita skipuleggjendum og smásölum lán á hagstæðum kjörum til að standa við lögbundnar skyldur sínar gagnvart ferðamönnum. Samtök ferðaþjonustunnar ▼ Borgartuni 35,105 Reykjavík ▼ 511 8000 * saf@saf.is * www.saf.is mailto:saf@saf.is http://www.saf.is Í 7. mgr. 1. gr. frumvarpsins kemur fram að lánið stofnast á hendur viðkomandi skipuleggjanda eða smásala þegar sjóðurinn hefur greitt fjárhæðina sem um ræðir og að kröfuna, lánið, skuli endurgreiða til baka á allt að sex árum. Í framhaldinu kemur fram að komi til vanefnda megi gera fjárnám án undangengins dóms eða sáttar, ásamt vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði. SAF leggja til að endurgreiðslutíminn verði lengdur í átta ár enda er ljóst að mjög brött brekka er framundan við endurreisn margra fyrirtækja sem falla undir frumvarpið. Möguleiki á lengri endurgreiðslutíma getur verið mikilvægur í ljósi þess að sbr. eðli ferðaskrifstofureksturs eru beinar tekjur fyrirtækjanna iðulega lágt hlutfall a f heildarveltu þeirra. Í samhengi við ofangreinda tillögu um lengdan hámarks endurgreiðslutíma benda SAF á að skynsamlegt sé fyrir alla aðila að jákvæðir hvatar til hraðari uppgreiðslu lánanna verði til staðar fyrir ferðaskrifstofur, t.d. uppgreiðsluafsláttur sem lækkar eftir því sem lánstíminn líður. 3. Upphafsdagur endurgreiðslna Í frumvarpinu er ekki fjallað um tilhögun endurgreiðslna heldur er í 11. mgr. 1. gr. mælt fyrir um reglugerðarheimild ráðherra til að kveða nánar um framkvæmd frumvarpsins. SAF leggja áherslu á að við nánari útfærslu verði endurgreiðslur látnar hefjast í fyrsta lagi haustið 2021, enda er fyrirséð að lausafjárvandi ferðaþjónustufyrirtækja muni verða mikill næstu 12 mánuði hið minnsta. Með því að festa fyrsta endurgreiðsludag að hausti 2021 gefst fyrirtækjum tækifæri til að nýta sumarið 2021 til tekjuöflunar sem byggt geti undir endurgreiðslu lána. SAF ítreka ánægju með að fram sé komið frumvarp sem leiðir til lausna í kröfum neytenda gagnvart ferðaskrifstofum og komi í veg fyrir innlögn leyfa, rekstrarstöðvanir og gjaldþrot margra fyrirtækja. Fulltrúar SAF eru tilbúnir að koma á fund nefndarinnar til að fara yfir efnisatriði umsagnarinnar og eins ef frekari upplýsinga er óskað. Virðingarfyllst, f.h. SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri