Pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun og ríkisábyrgðir

Umsögn í þingmáli 944 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 24.06.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 3 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 0 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Neytenda­samtökin Viðtakandi: Dagsetning: 24.06.2020 Gerð: Umsögn
Atvinnuveganefnd Nefndasvið Alþingis Austurstræti 8-10, Reykjavík Reykjavík 24. júní 2020 Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og lögum um ríkisábyrgðir (Ferðaábyrgðasjóður), 944. mál. Með frumvarpinu er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður, Ferðaábyrgðasjóður, sem hafi það hlutverk að bregðast sérstaklega við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með því að endurgreiða neytendum þær greiðslur sem þeir hafa innt af hendi vegna pakkaferða sem orðið hefur að aflýsa eða afpanta vegna ófyrirsjáanlegra og óviðráðanlegra aðstæðna vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Jafnframt verður ferðaskrifstofum heimilt að krefja sjóðinn um endurgreiðslu þeirra krafna sem þegar hafa verið endurgreiddar og falla að öðru leyti undir gildissvið frumvarpsins. Frumvarpinu er ætlað að tryggja lögbundinn rétt neytenda til endurgreiðslu en einnig að aðstoða ferðaskrifstofur í því erfiða rekstrarumhverfi sem þær standa nú frammi fyrir. 1.-Velta má fyrir sér hvort tímabil ferðalaga (12. mars til 30. júní) sé nægilegt. Ljóst er að margar ferðir munu raskast eftir 30. júní og fyrirhugaðar ferðir falla undir 14., 15. eða 16.gr laganna, jafnvel þó opnað verði á ferðir til einhverra landa. Því er spurning hvort lengja þurfi tímabilið, a.m.k. vegna ferða til landa sem landlæknir varar við. 2.-Af frumvarpinu er ekki ljóst hvort þau sem þegar hafa þegið inneignarnótu frá ferðaskrifstofum hafi rétt á að fá inneignina sína út greidda. Einhverjir ferðalangar kunna þegar að hafa þegið inneignarnótur undir því yfirskyni að annað væri ekki í boði. Afstaða samtakanna er að öll sem hafa þegar þegið inneign eigi að vera undir sama hatt sett og fá endurgreiðslu skv. frumvarpinu. 3.-Þá er ekki tekið á rétti neytenda í tilvikum þegar ferðaskrifstofur ákveði einhliða verulegar breytingar á pakkaferðasamningum svo sem að færa ferð fram á næsta ár eða á annan áfangastað, en nokkuð hefur borið á slíku (t.d. margar útskriftarferðir). Sé það gert ber ferðaskrifstofu að tilkynna farþegum um fyrirhugaðar breytingar og veita þeim hæfilegan frest til að samþykkja eða hafna. Sé breytingin veruleg eins og í dæminu hér að framan getur ferðamaður afpantað ferðina á grundvelli 13. og 14. gr. laga um pakkaferðir. Ekki er minnst á greinarnar í frumvarpinu, heldur einungis 15. og 16.gr. Þetta þyrfti að laga. 4.-Þá er í frumvarpinu ekki getið um málsmeðferðartíma Ferðamálastofu, þ.e.a.s. hversu lengi ferðalangar kunni að þurfa að bíða eftir endurgreiðslunni. Að teknu tilliti til ofangreindra athugasemda styðja Neytendasamtökin frumvarpið og sem fyrr eru þau reiðubúin að koma á fund nefndarinnar, sé þess óskað. Virðingarfyllst, Breki Karlsson, formaður