Húsnæðismál

Umsögn í þingmáli 926 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 10.06.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 18 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 34 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Félag fasteignasala Viðtakandi: Velferðar­nefnd Dagsetning: 19.06.2020 Gerð: Umsögn
Velferðanefnd Alþingis Reykjavík, 19. júní 2020 Efni: Umsögn Félags fasteignasala um breytingu á lögum um húsnæðismál (hlutdeildarlá n). Með erindi dags. 15. júní s.l. var Félagi fasteignasala sent til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál er varðar úrræði fyrir tekjulága fyrstu kaupendur og almennt tekjulágt fólk að uppfylltum vissum skilyrðum. Nýjar eignir. Það er fagnaðarefni að frumvarpið hafi verið lagt fram enda brýn þörf á aðgerðum hið fyrsta í húsnæðismálum fyrir þennan hóp. Félag fasteignasala hefur áhyggjur að allt of fáar íbúðir verði til að mæta þörfum markaðarins. Þá er eðlilegt að koma á meira frelsi þeirra sem vilja koma sér þaki yfir höfuðið þannig að fortakslaus krafa um nýbyggingar sé felld brott. Á söluskrá fasteignir.is eru eru ca 1500 eldri fasteignir með ásett verð undir 40 milljónum - óeðlilegt er að allar þær eignir ofl. séu útilokaðar frá þessu úrræði af því þær eru ekki nýjar. Þá þarf að gæta að viðmið hvað varðar hámarksverð verði ekki of lágt en reglugerð mun taka á því. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að „meðalfasteignaverð í hagkvæmum kaupum með hlutdeildarláni væri um 40 milljónir“ brýnt er að þarna verði vandað til verka og hámarksverð verði ekki ákvarðað of lágt enda þá hætt við að úrræðið verði að engu gagnvart mörgum. Þrátt fyrir að opnað sé á að eldri eignir geti líka verið innan úrræðisins mun það ekki breyta þeirri hvatningu sem gert er ráð fyrir með lögunum til uppbyggingar minni hagkvæmra íbúða enda draumur fjölmarga klárlega að komast í nýtt húsnæði. Óeðlilegt er á hinn bóginn að loka á valfrelsi fólks á hvaða landssvæðum eða t.d í hvaða hverfum innan höfuðborgarsvæðisins fólk leitast við að flytja einungis að því að eignin er ekki ný. Ekki er þó óeðlilegt að unnt sé að setja skorður á slík hlutdeildarlán þegar um eldri eignir er að ræða ef talið er að 20% lán ríkisins á öðrum veðrétti sé ekki tryggt - slíkt þyrfti að útfæra. Fjöldi eigna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lánað verði fyrir u.m.þ.b. 400 íbúðum á ári í 10 ár. Ljóst er að slík takmörkun er varhugaverð enda brýnt að tryggja jafnræði fólks sem uppfyllir skilyrði laganna fyrir hlutdeildarlánum og forðast að uppi verði sú staða „fyrstur kemur fyrstu fær“. Í framkvæmd munu eignir sem hafa verið viðurkenndar sem hagkvæmt húsnæði og njóta réttar til hlutdeildarlána koma inn á markaðinn til almennrar sölumeðferðar. Fái byggingaaðili hærra boð í eignina en kveðið er á um í reglugerð sem hámarksverð mun eignin væntanlega verð seld þeim aðila og hludeildarlánshafi ekki geta keypt eignina. Þar sem búast má við miklum skorti á eignum er hætt við að eignir sem viðurkenndar hafa verið sem hagkvæmt húsnæði leiði til að fjöldi fólks sem að vill nýta sér úrræðið býður í sömu eignina, þá getur oft orðið vandasamt og viðkvæmt hvern seljandinn velur sem kaupanda í þeim skorti sem við má búast að verði uppi - má sjá að erfið mál koma upp upp við slíkar aðstæður. Mikilvægt er að vandað verði til verka og um leið að þessu úrræði verði hraðað enda fjölmargir sem bíða þessara aðgerða. F.h. Félags fasteignasala Grétar Jónasson framkvæmdastjóri Félags fasteignasala