Húsnæðismál

Umsögn í þingmáli 926 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 10.06.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 18 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 34 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: VR Viðtakandi: Velferðar­nefnd Dagsetning: 19.06.2020 Gerð: Umsögn
Texti Velferðarnefnd Nefndarsvið skrifstofu Alþingis Austurstræti 8-10 101 Reykjavík 19. júní 2020 Efni: Umsögn VR um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 (hlutdeildarlán), þingskjal 1662 - 926. mál. VR hefur fengið til umsagnar drög að frumvarpi um breytingar á lögum um húsnæðismál nr. 44/1998 þar sem m.a. er veitt heimild til hlutdeildarlána til fyrstu kaupenda fasteigna. VR fagnar því að frumvarpið skuli nú hafa verið lagt fram í samræmi við loforð ríkisins við gerð Lífskjarasamninganna vorið 2019. Ein af megináherslum VR við gerð samninganna var að ungu fólki yrði auðvelduð fyrstu kaup húsnæðis og að hafin yrði uppbygging á hagkvæmu húsnæði fyrir þá sem lægstu launin hafa. VR gerir þó alvarlegar athugasemdir við þrjú grundvallaratriði í frumvarpinu sem alveg er ljóst að við getum ekki sætt okkur við og sem við teljum að vegi með grófum hætti að þeirri mikilvægu sátt sem fólgin er í Lífskjarasamningunum. Það eru eftirfarandi atriði: 1. Tekjuviðmið kaupenda 2. Vextir við endurgreiðslu lána 3. Lengd lánstíma Þessir annmarkar á frumvarpinu ganga þvert gegn hagsmunum þeirra sem því er ætlað að vernda. VR gerir þá kröfu að gerðar verði tafarlaust breytingar á frumvarpinu hvað þessi ákvæði varðar. VR telur önnur viðmið, sem sett eru í frumvarpinu fyrir hlutdeildarláni, nægjanleg án þess að til komi tekjuviðmið. Markmiðið með frumvarpinu er að brúa kröfu um eigið fé við fyrstu kaup og auðvelda tekjulágum fjölskyldum og einstaklingum að eignast eigið húsnæði. Með þeim tekjuviðmiðum sem tilgreind eru í frumvarpinu er verið að útiloka mjög marga innan þessa hóps, einkum fjölskyldur í viðkvæmri stöðu. Sé litið til félagsmanna VR á aldrinum 25 - 30 ára þýðir ákvæðið um tekjuviðmið að yfir 70%* þeirra geta ekki nýtt sér þetta úrræði til að eignast eigið húsnæði. Þær undanþágur sem tilgreindar eru í frumvarpinu eru ekki nægjanlegar til að koma til móts við þennan hóp. VR telur einsýnt að falla verði frá kröfu um tekjulágmark ella hækka það verulega. Þá telur VR að krafa um greiðslu vaxta af láninu, hækki tekjur kaupenda, ganga algerlega gegn velferðarmarkmiðum Lífskjarasamningsins sem ríkið átti svo stóran þátt í að móta. Slíkar vaxtagreiðslur jafngilda háum jaðarsköttum og koma í veg fyrir að kaupendur njóti kaupmáttaraukningar sem t.d. felst í kjarasamningsbundnum launahækkunum. Stóri hluti af launhækkun væri því í raun tekinn frá launafólki ef það ætti að greiða vexti við ákveðin tekjumörk. Reikna má með að kaupendur beri þegar háan kostnað vegna lánanna, fasteignaverð hefur hækkað að jafnaði um 4,4% á ári umfram verðlag síðastliðinn aldarfjórðung sem verður að teljast mjög góð og nægjanleg ávöxtun fyrir ríkissjóð sem lánveitanda hlutdeildarlána. Það telst til undantekninga ef verðbréfasjóðir eða lífeyrissjóðir hafa náð slíkri ávöxtun á 25 ára tímabili. Ef bæta ætti vaxtagreiðslum við þá ávöxtun sem 1 H ér e r g e rt ráð fy rir barn lausum , fu llv innandi einstaklingum , giftum /í sam búð sem og sam bæ rilegum launum m aka. VR | KRINGLUNNI7 | 103 REYKJAVÍK | S. 510 1700 | WWW.VR.IS http://WWW.VR.IS ríkið væri að fá á sína lánveitingu, í formi hækkunar á fasteignaverði, væri lántaki að greiða mjög háa vexti af slíku láni og að mati VR er slíkt algjörlega óásættanlegt og í fullkominni andstöðu við anda og hugsun þess er lagt var upp með. Þá telur VR óhjákvæmilegt að fallið verði frá takmörkunum á lengd lánsins en frumvarpið gerir ráð fyrir að það sé að hámarki 25 ár. Slíkar takmarkanir hækka greiðslubyrði kaupenda verulega og ganga þvert gegn markmiði frumvarpsins að koma til móts við þá tekjulægri. VR telur nauðsynlegt að frumvarpið sé skýrt og einfalt og hefur reynsla annarra þjóða sýnt að opið og sanngjarnt ferli skilar betri árangri. Það er hlutverk hins opinbera að tryggja landsmönnum öryggi í húsnæðismálum og það er því ríkisins að veita þeim sem þurfa viðeigandi aðstoð. Þau atriði sem VR gerir athugasemd við í þessu frumvarpi koma í veg fyrir að það sé gert og við krefjumst þess að þetta verði leiðrétt. Frumvarpið felur bæði í sér mikilvægar kjarabætur fyrir félagsmenn VR og hvata fyrir byggingaraðila að byggja húsnæði sem hentar tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum. VR lýsir ánægju með að til fyrstu kaupenda skuli teljast þeir sem ekki hafa átt fasteign síðustu fimm ár en með því er komið til móts við þann stóra hóp launamanna sem missti húsnæði sitt í hruninu. Þá er frumvarpið stórt skref í átt að afnámi verðtryggingar þar sem margir fyrstu kaupendur hafa ekki haft neitt annað val en að taka 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán sem hefur verið óhagstæðasta lánaformið. Með því að taka upp hlutdeildarlán er verið að auðvelda fyrstu kaup án þess að kaupendur þurfi að velja dýrasta lánaformið. Auk þess er gert ráð fyrir því að lánsfjármögnun verði 75% af kaupverði sem ætti að gefa töluvert betri vaxtakjör en 85% til 90% lánsfjármögnun sem er oft eina leiðin fyrir kaupendur til að fjármagna sín fyrstu fasteignakaup. En þrátt fyrir þessa jákvæðu þætti er gríðarlega mikilvægt að leiðrétt séu þau þrjú atriði sem við höfum hér bent á að gangi þvert á það sem hugsað var og rætt við mótun efnis þessa frumvarps og væri það sorglegt ef þessi atriði yrðu látin raska þeirri mikilvægu sátt sem náðst hefur á viðkvæmum vinnumarkaði með gerð Lífskjarasamninganna. F.h. VR Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR VR | KRINGLUNNI7 | 103REYKJAVIK | S. 510 1700 | WWW.VR.IS http://WWW.VR.IS