Húsnæðismál

Umsögn í þingmáli 926 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 10.06.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 34 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 50 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samband íslenskra sveitarfélaga Viðtakandi: Velferðar­nefnd Dagsetning: 18.06.2020 Gerð: Umsögn
S A M B A N D Í S L E N S K R A S V E I T A R F É L A G A Alþingi b.t. velferðarnefndar Austurstræti 8-10 Reykjavík 18. júní 2020 2006022SA TÞ Málalykill: 00.63 150 Reykjavík Efni: Frumvarp til laga um hlutdeildarlán - 926. mál 150. Iþ. Með tölvupósti dags. 15. júní sl. óskaði nefndasvið Alþingis eftir umsögnum um ofangreint þingmál. Hér á eftir fer umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Almennt um frumvarpið Frumvarpinu er ætlað að auðvelda fólki íbúðarkaup þannig að þeir sem uppfylla ákveðin skilyrði geti fengið hlutdeildarlán til þess að brúa kröfu um eigið fé við íbúðarkaup. Jafnframt er frumvarpinu ætlað að auka hvata fyrir framkvæmdaaðila til að byggja hagkvæmar íbúðir sem henta ungu fólki á húsnæðismarkaði. Framlagning frumvarpsins er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar við að framfylgja tillögum átakshópsins svonefnda frá því í janúar 2019. Sambandið átti aðild að átakshópnum og kom auk þess að gerð yfirlýsingar um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninga, dags. 3. apríl 2019. Fyrirliggjandi frumvarp er flutt til þess að koma til framkvæmda aðgerðum 7 og 8 í yfirlýsingunni. Um tilefni áformaðrar lagasetningar segir: Reynsla undanfarinna áratuga hefur leitt í ljós að mikilvægt sé að jafnvægi ríki á milli kaupenda, byggingaraðila og lánveitenda á húsnæðismarkaði svo unnt sé að tryggja stöðugleika. Verði brestur á einum þessara þátta myndast hringrás þar sem lánveitendur vilja ekki lána, kaupendur geta ekki keypt og byggingaraðilar ekki byggt sem aftur leiðir til þess að lánveitendur fjármagna ekki nýbyggingar o.s.frv. Á síðustu árum hafa verið brestir í öllum þessum þáttum að einhverju leyti. Þannig hafa sveiflur í framboði húsnæðis, bæði offramboð og samdráttur í byggingariðnaði, haft mikil áhrif á þróun fasteignaverðs og möguleika fólks til að eignast eigið húsnæði. Mikill hluti þess íbúðarhúsnæðis sem hefur verið byggt á undanförnum árum er ekki hagkvæmt fyrir fyrstu kaupendur og tekjulága heldur er það stórt og á dýrum svæðum. Þá hefur fasteignaverð hækkað hraðar en tekjur þessara hópa og er raunverð fasteigna nú hærra en nokkru sinni áður. Eftir innkomu lífeyrissjóðanna á fasteignamarkaðinn eru hagstæðustu lánin jafnan aðeins veitt að hámarki til 60-70% af kaupverði og almennt stendur ekki til boða að fá lán með hærra en 80% veðsetningu nema á háum vöxtum. Þetta gerir það að verkum að fólk sem er að taka sín fyrstu skref á fasteignamarkaði á erfitt með að útvega fjármagn til að greiða það sem upp á vantar. Sambandið er sammála þessari greiningu og telur að sveitarfélögin hafi ekki hvað síst hagsmuni af því að leysa þá bresti sem eru til staðar á húsnæðismarkaði. Þá liggur og fyrir að hlutdeildarlán munu vega á móti samdrætti í byggingariðnaði þar sem þau munu hvetja til nýbygginga. Áríðandi er við núverandi aðstæður í þjóðarbúskapnum að þessi hvati sé til staðar, en jafnframt þarf að rýna vel hvernig framboð og eftirspurn spila saman við þróun fasteignaverðs. Í frumvarpinu er farin Borgartúni 30, pósthólf 8100, 128 Reykjavík, sími 515 4900, fax 515 4903, samband@samband.is, www.samband.is mailto:samband@samband.is http://www.samband.is sú leið að einskorða úrræðið við nýtt íbúðarhúsnæði, og með að takmarka umfangið. Þannig er jafnframt dregið úr áhrifum þess á þróun fasteignaverðs almennt. Afstaða sambandsins Í stefnumörkun sambandsins 2018-2022 segir m.a. undir liðum 3.3.22 og 3.3.25: Sambandið vinni að því að skipulag á húsnæðismarkaði stuðli á öllum tímum að fjölbreytni og sveigjanleika sem tryggir öllum öruggt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Sérstaklega verði hugað að því hvernig tryggja megi framboð af ódýru og öruggu húsnæði til leigu eða kaups fyrir núverandi og næstu kynslóðir ungs fólks. Sambandið leggur áherslu á jafnt aðgengi landsmanna, óháð búsetu, að húsnæðislánum á viðráðanlegum kjörum. Íbúðalánasjóður [nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS] fái skilgreint hlutverk varðandi viðbrögð á svæðum þar sem brestur er á slíku aðgengi. Fyrirliggjandi frumvarp styður við þessi markmið og styður sambandið að frumvarpið hljóti afgreiðslu á yfirstandandi löggjafarþingi. Afstaða sambandsins mótast síðan almennt af þeirri forsendu að opinberum stuðningsaðgerðum eigi fyrst og fremst að beina að þeim hópum í samfélaginu sem eru í mestri þörf fyrir stuðning. Að teknu tilliti til þessa gerir sambandið athugasemd við þá ráðagerð að úrræðið verði einskorðað við tiltekinn fjölda eigna (400-500 íbúðir á ári). Verði ákveðið að samfélagslegur stuðningur standi einungis til boða skv. viðmiðinu „fyrstur kemur fyrstur fær“ er viðbúið að það hafi veruleg neikvæð áhrif á framkvæmd úrræðisins. Í samræmi við meginreglur laga ætti aðgerð af þessu tagi fyrst og fremst að helgast af áætlaðri þörf út frá tilteknum skilyrðum. Þeir sem uppfylla þau skilyrði verða að eiga jafnt tilkall til stuðnings. Ófært er að draga aðila í dilka og gera ráð fyrir að framkvæmdaaðilar eða íbúar fái synjun sem t.d. eru síðla árs að taka sínar ákvarðanir. Jafnframt telur sambandið ástæðu til þess að rýna betur þau tekjumörk sem sett voru í frumvarpið út frá ofangreindum sjónarmiðum um að stuðningsúrræði eigi að mæta metnum þörfum. Óæskilegt er að tekjumörkin séu nýtt sem stilliskrúfa gagnvart opinberum fjármálum, ef sýnt er fram á að veruleg uppsöfnuð þörf er fyrir úrræðið. Sambandið telur einnig ástæðu til þess að gera athugasemd við þá forsendu frumvarpsins að hlutdeildarlán verði einungis veitt fyrir nýjum íbúðum. Út frá fyrrnefndri greiningu og yfirlýstum vilja til þess að bæta úr brestum sem víða eru á húsnæðismarkaði, má rökstyðja að allbrýn ástæða sé til þess að hlutdeildarlán megi veita til þegar byggðra íbúða á „köldum markaðssvæðum“ eins og þau eru nefnd í greinargerð með frumvarpinu. Úrræðið geti þannig haft jákvæð áhrif í byggðakjörnum þar sem byggingarkostnaður er hærri en markaðsvirði íbúðarhúsnæðis. 2 Engin athugasemd er hins vegar gerð við að allar íbúðir sem hlutdeildarlán fást vegna hafi verið samþykktar af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sem hagkvæmar íbúðir á grundvelli samnings við stofnunina. Heimild þarf hins vegar að vera til staðar í reglum HMS um að hlutdeildarlán megi í undantekningartilvikum veita þegar um þegar byggða íbúð er að ræða, t.a.m. ef um nýlega íbúð er að ræða sem enn hefur ekki verið tekin til notkunar. Samantekt Sambandið styður hlutdeildarlán sem eitt af mikilvægum úrræðum við framkvæmd á opinberri húsnæðisstefnu og hvetur til þess að frumvarpið fái afgreiðslu á yfirstandandi löggjafarþingi. Þess er farið á leit að velferðarnefnd taki ofangreindar athugasemdir til skoðunar við meðferð sína á málinu og taki afstöðu til eftirfarandi þriggja þátta: 1. Að tryggja jafnt tilkall til stuðnings á formi þessa úrræðis. 2. Að tekjumörk verði hækkuð enda sé sýnt fram á uppsafnaða þörf með áætlun þar um. 3. Að úrræðið megi í undantekningartilvikum nýta fyrir þegar byggðar íbúðir (m.a. þær sem nýlega hafa verið kláraðar, þ.e. á síðustu þremur árum). Sérstaklega verði skoðað að nýta þessa heimild í byggðakjörnum þar sem byggingarkostnaður er hærri en markaðsvirði íbúðarhúsnæðis. Virðingarfyllst SAMBAND ÍSLENSKRA SVEITARFÉLAGA Karl Björnsson framkvæmdastjóri 3