Nýsköpunar­sjóður atvinnulífsins

Umsögn í þingmáli 843 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 26.05.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 5 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 27 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytið Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 11.06.2020 Gerð: Minnisblað
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti M i n n i s b l a ð Viðtakandi: Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis Sendandi: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti Dagsetning: 11.6.2020. Málsnúmer: ANR20050538 Efni: Umsögn KPMG Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur óskað eftir viðbrögðum ráðuneytisins við umsögn KPMG um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997 (843. mál, þskj. 1490). Frumvarpið felur í sér lagagrundvöll fyrir samning ráðherra við Nýsköpunarsjóð um veitingu mótframlagslána til sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Í umsögn KPMG er bent á tvö atriði tengdum frumvarpinu sem gætu þarfnast nánari skoðunar. Annars vegar er bent á óvissu varðandi skattalega meðferð skuldabréfa með breytirétti og hins vegar á áhrif lánveitinganna á styrkhæfi fyrirtækja í samkeppnissjóðum og til skattfrádráttar á grundvelli laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009. Í minnisblaði þessu er gerð stuttlega grein fyrir sjónarmiðum ráðuneytisins hvað þessi atriði varðar. Skattaleg meðferð skuldabréfa með breytirétti. Í umsögn KPMG er fjallað um skattaleg áhrif við umbreytingu breytanlegra skuldabréfa í hlutabréf og í því samhengi vísað til 4. mgr. nýs bráðabirgðaákvæðis b. (LXV.) í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 37/2020. Samkvæmt umsögninni mun ákvæði þetta hafa nokkuð víðtækar afleiðingar, sem kunni að leiða til þess að breytanleg skuldabréf séu fráhrindandi fyrir fjárfesta. Hvort að áhrif þessa ákvæðis séu svo víðtæk sem þar greinir virðist, að athuguðu máli, vera háð þó nokkrum vafa. Annars vegar er óljóst, þegar umrætt bráðabirgðaákvæði er lesið í heild, hvort að 4. mgr. eigi við um önnur félög en þau sem eiga í greiðsluerfiðleikum á árunum 2020 til 2022. Hins vegar er óljóst, verði umrætt ákvæði talið hafa víðtækari þýðingu en að framan greinir, hvort að beiting þess myndi leiða til óhagstæðari niðurstöðu hvað varðar skattalega meðferð slíkra skuldabréfa. Það færi væntanlega eftir atvikum hverju sinni. Þá verður einnig að taka tillit til þess að á þetta álitaefni hefur ekki reynt í framkvæmd. Telja má að svo óljós og almenn óvissa um skattalega meðferð breytanlegra skuldabréfa sé ólíkleg til að hafa áhrif á fjárfesta. Því til stuðnings má nefna að breytanleg skuldabréf hafa hingað til verið mikið notuð við fjármögnun sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. A f þessu leiðir það mat ráðuneytisins að möguleg almenn óvissa um skattalega meðferð skuldabréfa með breytirétti hafi ekki áhrif á þá fyrirætlan að veita sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem það kjósa og að öðru leyti uppfylla öll skilyrði, lán í formi breytanlegra skuldabréfa. Styrkhæfi fyrirtækja í samkeppnissjóðum. Í umsögninni er einnig fjallað um áhrif breytanlegra skuldabréfa á mögulegt styrkhæfi fyrirtækja úr Tækniþróunarsjóði og til skattfrádráttar á grundvelli laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009. Þannig geti útgáfa breytanlegra skuldabréfa leitt til þess að fyrirtæki teljist vera með neikvætt eigið fé um næstu áramót sem hefðu áhrif á styrkhæfi þeirra. Styrkir úr Tækniþróunarsjóði og skattfrádráttur á grundvelli laga nr. 152/2009 eru hvort tveggja ríkisstyrkir og miðast reglur um styrkhæfi fyrirtækja við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins. Reglur laga nr. 152/2009 um styrkhæfi og hlutfall styrkja tekur mið af almennu hópundanþágureglugerðinni, reglugerð (ESB) nr. 651/2014. Samkvæmt henni, og reglugerð um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 758/2011, gildir skilyrði um neikvætt eigið fé aðeins fyrir fyrirtæki sem teljast vera stór í skilningi framangreindra reglna, þ.e. fyrirtæki sem hefur fleiri en 250 starfsmenn og með ársveltu yfir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning yfir 43 milljónum evra. Þau fyrirtæki sem teljast sprotafyrirtæki eru almennt lítil eða meðalstór fyrirtæki og hér á landi er almennt miðað við það að fyrirtæki hafi færri en 50 starfsmenn og ársveltu undir 500 m.kr. Skilyrði um eigið fé sé ekki neikvætt á því ekki við um þau fyrirtæki sem á að standa til boða að sækja um mótframlagslán. Í umsögn KPMG er einnig bent á tiltekna styrki úr Tækniþróunarsjóði, þ.e. Fræ, Sprota og Vöxt. Umræddir styrkir eru allir veittir á grundvelli ríkisstyrkjareglna EES-samningsins um „de minimis“ styrki, sbr. reglugerð framkvæmdastjómarinnar (ESB) nr. 1407/2013. Ekki er gerð nein krafa um hlutfall eigin fjár þegar veittir eru ríkisstyrkir á grundvelli „de minimis“ reglugerðarinnar og því mun neikvætt eigið fé ekki hafa áhrif á styrkhæfi fyrirtækja úr framangreindum þremur styrkflokkum Tækniþróunarsjóðs. Að lokum er því velt upp í umsögn KPMG hvort mótframlagslán eigi að vera í formi víkjandi lána. Það er að mati ráðuneytisins ekki vænlegur kostur enda hafa víkjandi lán að mestu leyti sams konar eiginleika og eigið fé. Ekki er ætlunin að ríkissjóður fjárfesti í sprotafyrirtækjum með þeim hætti heldur að þeim fyrirtækjum sem á þurfa að halda sé gefinn kostur á að sækja sér lán til fjármögnunar í erfiðum aðstæðum. Þá er vísað til umfjöllunar fyrr í umsögninni varðandi skattalega meðferð breytanlegra skuldabréfa. Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið ekki ástæðu til að gerðar verði breytingar á frumvarpinu vegna umsagnarinnar.