Fjáraukalög 2020

Umsögn í þingmáli 841 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 26.05.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 11 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 27 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda Viðtakandi: Fjár­laga­nefnd Dagsetning: 11.06.2020 Gerð: Minnisblað
M I N N I S B L A Ð Til: Fjárlaganefndar Frá: Samtökum iðnaðarins og Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda Dags: 11. júní 2020 Efni: Frumvarp til fjáraukalaga, 841. mál: Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar Fulltrúar Samtaka iðnaðarins (SI) og Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðanda (SÍK), hér eftir nefnd samtökin, komu á fund fjárlaganefndar þann 4. júní sl. til þess að ræða fjárframlög vegna ógreiddra vilyrða af endurgreiðslum á kostnaði vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Samtökin þakka áheyrnina á fundinum en hér að neðan er stiklað á stóru varðandi þau atriði sem samtökin leggja áherslu á í tengslum við endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Auknar fjárheimildir vegna endurgreiðslna Samtökin fagna því fyrir það fyrsta að til standi að leiðrétta þá skekkju sem myndaðist á milli forsenda fjárlaga fyrir árið 2020 og útgefinna endurgreiðsluvilyrða framleiðslukostnaðar vegna ársins 2019. Leiðréttingin er forsenda þess að geta lagt grunn að öflugri kvikmyndagerð á komandi árum enda eyðir hún óvissu og skiptir máli fyrir lausafjárstöðu og áætlanir kvikmyndaframleiðenda. Samtökin þakka fyrir að stjórnvöld og Alþingi hafi hlustað á ákall greinarinnar hvað þetta varðar. Endurgreiðslukerfi kvikmyndagerðar til framtíðar Til þess að erlendir kvikmyndaframleiðendur kjósi Ísland sem tökustað fyrir stór, arðbær kvikmyndaverkefni er nauðsynlegt að endurgreiðslukerfið hér á land njóti trausts og að fyrirsjáanleiki sé til staðar í kerfinu. Á sama tíma verður kerfið að vera sveigjanlegt upp að einhverju marki þar sem erfitt getur verið að spá fyrir um heildarfjárhæð verkefna á ári hverju. Samtökin leggja til að við fjárlagagerð hvers árs verði tekið mið af útgefnum endurgreiðsluvilyrðum liðins árs ásamt umsóknum til Kvikmyndamiðstöðvar, en þannig má áætla endurgreiðsluþörf hvers árs fyrir sig. Samtökin vilja leggja sérstaka áherslu á tvö atriði í tengslum við endurgreiðslukerfið. Í fyrsta lagi er kerfið sjálfbært þannig að fjárfesting og útgjöld kvikmyndaframleiðenda vegna verkefna fara í umferð í hagkerfinu áður en til endurgreiðslunnar kemur. Í öðru lagi eru fjármunir til kvikmyndagerðar í gegnum endurgreiðslukerfið fjárfesting sem skilar sér margfalt tilbaka til samfélagsins en orðræðan hefur á tíðum verið á þann veg að hér sé um styrki til greinarinnar að ræða. Hið rétta er að atvinnugreinin getur skipt sköpum þegar kemur að uppbyggingu efnahagskerfisins. Samkvæmt úttekt Hagstofunnar á kvikmyndagreininni er ársvelta greinarinnar að meðaltali 27,2 milljarður á ári og hún skilaði 15 milljörðum í útflutningstekjur á árunum 2014-2018 á sama tíma og opinber framlög til greinarinnar námu um 10 milljörðum. Þá er ekki hægt að líta framhjá mikilvægi kvikmyndagreinarinnar þegar kemur að uppbyggingu ferðaþjónustunnar að nýju en samkvæmt útreikningum framleiðenda í stjórn SÍK fara um 30 prósent af hverju kvikmyndaverkefni beint inn í ferðaþjónustuna í formi hótelkostnaðar, bílaleiga, tækjaleiga og svo framvegis. Þá gegnir greinin veigamiklu hlutverki þegar kemur að því að hvetja ferðamenn til að velja Ísland sem áfangastað en samkvæmt könnun Ferðamálastofu sögðust tæp 40% ferðamanna sem https://www.si.is/media/_eplica-uppsetning/Kvikmyndagreinin_2014-2019_v4.pdf komu til Íslands árið 2018 hafa valið Ísland sem áfangastað eftir að hafa séð íslenskt landslag í hreyfimynd. Greinin hefur einnig jákvæð áhrif á ímynd Íslands heilt yfir. Hækkun á endurgreiðsluhlutfalli Mikill áhugi er til staðar á Íslandi sem tökustað um þessar mundir og styður góður árangur Íslands í baráttunni við covid-19 við þennan áhuga. Hins vegar er ljóst að til þess að tryggja komu áhugasamra kvikmyndaframleiðenda til landsins þarf auka hvatningu. Góður árangur í baráttunni við kórónuveiruna einn og sér dugir ekki til þess að Ísland sé samkeppnishæft í baráttunni um kvikmyndaverkefni. Lönd í kringum okkur hafa gripið til þess ráðs að hækka tímabundið endurgreiðslur á kostnaði vegna kvikmyndagerðar í því skyni að efla efnahaginn sem alls staðar hefur beðið hnekki. Þannig hafa til dæmis stjórnvöld á Kanaríeyjum hækkað endurgreiðsluhlutföll vegna kvikmyndagerðar í 45-50%. Samtökin leggja því til tímabundna hækkun á endurgreiðsluhlutfalli í 35 prósent. Ef hægt væri að tilkynna um þessa hækkun samhliða opnun landsins má auka líkurnar verulega á því að stór verkefni komi til Íslands í lok sumars og næsta vetur. Virðingarfyllst, f.h. SI f.h. SÍK Kristinn Þórðarson, formaðurviðskiptastjóri á hugverkasviði