Óháð úttekt á Landeyjahöfn

Umsögn í þingmáli 84 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 12.09.2019 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 4 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 6 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Vestmannaeyjabær Viðtakandi: Umhverfis- og samgöngu­nefnd Dagsetning: 08.10.2019 Gerð: Umsögn
Viðtakandi: Nefndasvið Alþingis Sendandi: Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, f.h . bæjarráðs Vestmannaeyja Dags. 8. október 2019 Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um óháða úttekt í Landeyjahöfn, mál nr. 84. Bæjarráð fagnar því að tillaga um óháða úttekt á Landeyjahöfn hafi verið lögð fram aftur og að allir þingmenn kjördæmisins taki undir með tillögunni. Bæjarráð telur afar brýnt að ráðist verði í sérstaka úttekt á Landeyjahöfn til þess að meta til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að tryggja heilsárshöfn í Landeyjum. Varla þarf að árétta hvers konar samgöngubót Landeyjahöfn er fyrir einstaklinga og fyrirtæki í Vestmannaeyjum og landsmenn alla. Bæjarráð er sammála þeim spurningum sem úttektinni er ætlað að svara, en vill undirstrika mikilvægi þess að úttektin nái til sem flestra þátta sem nauðsynlegir eru til að halda úti heilsárshöfn í Landeyjum, þ.m .t; a) hvort lengja þurfi ytri og innri garðana eða bæta við hafnargörðum, b) setja brimbrjóta utanvið hafnargarðana, c) meta hvaða kostir eru í stöðunni varðandi rifið, d) kanna hvaða möguleikar eru á að bæta aðkomuna að höfninni og hafnarminninu, e) kanna hvernig samspil vinda og sjólags kunni að hafa áhrif á nýtingu hafnarinnar. Nauðsynlegt er að úttektinni fylgi tillögur til úrbóta um hvernig höfnin geti þjónað hlutverki heilsárshafnar. Mikilvægt er að úttektaraðilar ráðfæri sig við þá aðila sem hafa hvað mestu reynslu af því að sigla inn í höfnina. Mikilvægt er að hafa eftirfarandi í huga í vinnu við úttektina: 1. Að fá upplýsingar frá erlendum dýpkunaraðilum, sem miðlað geta af reynslu sinni og komið með hugmyndir um úrbætur. Er hér átt við aðila sem eru að vinna að sambærilegum verkefnum og eru í Landeyjahöfn, þ.e. fyrirtæki sem hafa þekkingu, reynslu og aðgang að besta hugsanlega tækjabúnaði sem til er. 2. Skoða þær hugmyndir sem fram hafa komið fram um bætta aðkomu að Landeyjahöfn. 3. Ráða reyndan og óháðan aðila til þess að vinna útektina. Bæjarráð gengur út frá því að hin óháða úttekt einskorðist ekki við dýpi Landeyjahafnar og telur að þeir þættir sem nefndir eru í umsöginni hér að ofan rúmist innan orðalags þingsályktunartillögunnar eins og hún er sett fram núna.