Utanríkisþjónusta Íslands

Umsögn í þingmáli 80 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 12.09.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 1 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 1 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Alda - félag um sjálfbærni og lýðræði Viðtakandi: Utanríkismála­nefnd Dagsetning: 14.01.2020 Gerð: Umsögn
FÉLAG UM SJÁLFBÆRNI OG LÝÐRÆÐI Umsögn um mál 80, 150. löggjafarþing, þingskjal 80 - skipun ráðuneytisstjóra og sendiherra Vestmannaeyjum, 28. desember 2019 Markmið þessa frumvarps er að ýta undir að stöður ráðuneytisstjóra og sendiherra í utanríkisþjónustunni séu auglýstar, eins og gildir nú þegar um mörg störf hjá hinu opinbera, en einnig að viss upplýsingaskylda gildi um þessar stöðuveitingar sem aðrar í tilfelli auglýsingar. Félagið tekur undir markmið þetta, enda er eðlilegt að almenningur geti haft aðgengi að upplýsingum um hæfniskröfur umsækjenda að starfi hjá hinu opinbera, fái að vita hver sækir um stöðu og það sé skilningur á því hvers vegna einn aðili er ráðinn til starfs fremur en annar. Meira gagnsæi um stöður þessar sé kostur fyrir íslenskt samfélag. Lýðræðisríki einkennast meðal annars að því að því að visst jafnræði gildir milli fólks um ýmislegt, meðal annars um aðgengi að margvíslegum störfum, en þó þannig að settar séu skýrar hæfniskröfur til umsækjenda, sem séu svo notaðar til að velja hæfasta umsækjandann hverju sinni. Skýr ferli þar sem umsækjendur þurfa að sækja um störf og jafnræðis er gætt í vali á umsækjendum, ýtir undir að hæfasti umsækjandinn sé valinn, sem svo ýtir undir faglegri vinnubrögð, en einnig draga slík ferli úr hættu á spillingu og frændhygli. Draga þarf úr tilhneigingunni á slíkri mismunun, og yrði það meðal annars ein afleiðing frumvarps þessa, yrði það að lögum. Að draga úr mismunun ýtir undir meira jafnræði borgaranna, sem svo aftur ýtir undir traust á stofnunum samfélagsins, sem er nauðsynlegt til að samfélagið geti leyst farsællega úr sínum úrlausnarefnum og geti starfað fumlaust. Alda, félag um sjálfbærni og lýðræði, lítur svo á að jafnræði og gagnsæi séu mikilvægir eiginleikar sem stefna beri að í okkar samfélagi, en þetta eru tvær meginstoðir félagsins. Frumvarpið vinnur að þessum markmiðum sbr. ofangreint, og styður félagið því frumvarpið. Félagið vekur einnig athygli á því í þessu samhengi að vantraust gagnvart opinberum stofnunum landsins er mikið, en einnig að mikið vantraust ríkir víða um heim gagnvart stjórnmálunum. Að vinna að því að auka traust gagnvart stofnum samfélagsins og stjórnmálunum er mikilvægt úrlausnarefni samtímans, til að tryggja efnahagslegan stöðugleika, betri úrvinnslu erfiðra álitamála og svo framvegis. Þegar skipað er í stöður á vegum hins opinbera, án þess að skýrt liggi fyrir að hæfasti umsækjandinn hafi verið valinn, ýtir það undir vantraust, sem ber að forðast. Slíkt hefur verið raunin í gegnum tíðina um þær stöður sem fjallað er um í umsögn þessari. 1 Að lokum telur félagið vert að fjalla lauslega um umsögn Utanríkisráðuneytisins (dbnr. 2143, dagsett 27.05.2015) um sambærilegt, eldra frumvarp (nr. 597/144). Í umsögninni er reifuð söguleg tölfræði um skipan sendiherra, en samkvæmt henni hefur minnihluti skipaðra sendiherra ekki starfað áður innan utanríkisþjónustunnar (að jafnaði um 20% sl. áratugi), sem bendir til að meirihluti þeirra hafi hlotið framgang í starfi, án þess þó að það sé tilgreint sérstaklega. Að flestir hafi hlotið framgang, en fæstir komið utan utanríkisþjónustunnar, bendir til að áhrif frumvarpsins verði í sjálfu sér lítil á stöðuveitingar, því flestir muni eftir sem áður hljóta framgang - frumvarpið útilokar ekki slíka framgöngu í starfi - , en sumar stöður kunni þó að vera auglýstar. Það ber þó að hafa í huga, að jafnvel þótt áhrifin á embættisveitingar yrðu litlar, getur sérhver stöðuveiting haft mikil áhrif á traust í samfélaginu gagnvart stjórnmálunum og stofnunum samfélagsins - stök stöðuveiting getur ýft upp vantraust sem varir lengi. Félagið hvetur til vandaðrar umfjöllunar um þessi atriði og að málið verði skoðað vel. Fyrir hönd stjórnar Öldu, Guðmundur D. Haraldsson, stjórnarmaður 2