Uppbygging og rekstur fráveitna

Umsögn í þingmáli 776 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 07.05.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 9 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 142 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samtök sveitar­félaga á höfuðborgarsvæðinu Viðtakandi: Umhverfis- og samgöngu­nefnd Dagsetning: 20.05.2020 Gerð: Umsögn
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæ ðinu Nefndasvið Alþingis Umhverfis- og samgöngunefnd Kópavogi, 19. maí 2020 Efni: Umsögn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) við frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna, nr. 9/2009, sem síðari breytingu, 776. mál SSH fagna framkomnu frumvarpi og hvetja til samþykktar þess. Að því sögðu vilja samtökin þó koma eftirfarandi á framfæri: Í 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að ráðherra setji, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitafélaga, og Samorku, reglugerð um framkvæmd laganna, þar á meðal um tímafresti, forgangsröðun framkvæmda og nánar um gögn sem þurfi að fylgja umsóknum og uppgjöri. Tekið er undir ummæli í athugasemdum í greinargerð með umræddu ákvæði um mikilvægi þess að skapaður verði fyrirsjáanleiki við úthlutun fjármuna til þessa verkefnis. Er því mikilvægt að umrædd reglugerð verði sett sem fyrst, og miðað verði við að umsóknarferli og afgreiðsla verði eins fyrirsjáanleg og kostur er. Til að auðvelda fráveitum sveitarfélaga skipulagningu framkvæmda, en í mörgum tilvikum má telja að þær verði viðamiklar, tímafrekar og kostnaðarsamar, væri jafnframt æskilegt að umsóknir og styrkir á grundvelli þeirra væru afgreidd til nokkurra ára í senn. Þá þarf að vera að fullu ljóst hvers kyns framkvæmdir séu styrkhæfar. Þannig segir m.a. í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins að hefðbundið viðhald sé ekki styrkhæft né endurbætur á eldri kerfum nema markmið þeirra sé að uppfylla lög og reglugerðir. SSH telja mikilvægt að það komi skýrt fram hvers kyns endurbætur eru styrkhæfar og að tryggt sé að endurbætur sem rekja má til aukinna skyldna sem lagðar eru á sveitarfélög með hvers kyns stjórnvaldsfyrirmælum eða krafna sem leiða af Evrópureglum eða breytinga á hvers kyns stjórnvaldsfyrirmælum falli þarna undir, en fyrirséð er að kostnaður sem leiðir af auknum kröfum til fráveitukerfa verði verulegur. Enn fremur segir í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins að framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun örplasts, séu styrkhæfar. Mikilvægt er að skýrt sé hvers kyns framkvæmdir geti fallið þar undir, en t.a.m. má nefna að svokallaðar blágrænar ofanvatnslausnir, sem eru umhverfisvænar og sjálfbærar, og fela í sér nýtingu ofanvatns og gróðurs, með það að markmiði að líkja eftir náttúrulegum ferlum vatns, geta nýst vel við hreinsun ofanvatns. Þá vilja SSH vekja athygli á því að gert er ráð fyrir að heildarkostnaður framkvæmda sem fallið geta undir gildissvið frumvarpsins nemi um 15 milljörðum króna á næstu tíu árum. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpinu er tekið fram að fjárveiting til verkefnisins verði ákvörðuð af Alþingi og að almennt sé gengið út frá því að stuðningur ríkisins geti numið allt að 20% af heildarkostnaði framkvæmda sveitarfélaga. Með hliðsjón a f því hve kostnaðarsamar fyrirséðar framkvæmdir verða er því mikilvægt að þessu verkefni verði tryggt nægilegt fjármagn á næstu árum.