Undirritun og fullgilding þriðju valfrjálsu bókunarinnar við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Umsögn í þingmáli 73 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 12.09.2019 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 6 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 4 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Umboðsmaður barna Viðtakandi: Utanríkismála­nefnd Dagsetning: 14.01.2020 Gerð: Umsögn
UMBOÐSMAÐUR BARNA Utanríkismálanefnd Alþingis Reykjavík 14. janúar 2020 Umsögn um tillögu til þingsályktunar um undirritun og fullgildingu þriðju valfrjálsu bókunarinnar við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 73. mál. Vísað er til tölvupósts frá Utanríkismálanefnd Alþingis, dags. 9 desember 2019. Þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreinda tillögu til þingsályktunar. Umboðsmaður barna telur mikilvægt að Ísland styrki réttindi barna með því að fullgilda þriðju valfrjálsu bókunina við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Bókunin veitir börnum eða fulltrúum þeirra tækifæri til þess að kæra mál til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Kæruleiðir sem þessar skipta verulegu máli. Enda hafa börn mikla hagsmuni af því að geta leitað réttar síns og fengið úr því skorið hvort brotið hafi verið á réttindum þeirra. Fullgilding bókunarinnar mun jafnframt styrkja stöðu Barnasáttmálans og setja aukinn þrýsting á ríkið um að tryggja og standa vörð um þau réttindi sem þar er kveðið á um. Umboðsmaður barna hefur um langan tíma lagt áherslu á það að þriðja valfrjálsa bókunin við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verði fullgild hér á landi. Þann 28. október 2014 skrifuðu umboðsmenn barna á Norðurlöndunum undir sameiginlega yfirlýsingu um mikilvægi þess að Norðurlödin fullgildi bókunina. Umboðsmaður barna styður tillögu nefndarinnar en vill um leið árétta að nauðsynlegt er að skapa börnum raunverulegt tækifæri til þess að nýta þetta úrræði. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja að almenningur þ.m.t. börn, séu upplýst um inntak og áhrif bókunarinnar. Auk þess sem tryggja þarf þeim börnum sem vilja nýta þetta úrræði stuðning við að leita réttar síns fyrir Barnaréttarnefndinni. Virðingarfyllst, Salvör Nordal, Umboðsmaður barna