Hollustuhættir og mengunarvarnir

Umsögn í þingmáli 720 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 16.04.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 8 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 14 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samband íslenskra sveitarfélaga Viðtakandi: Umhverfis- og samgöngu­nefnd Dagsetning: 20.05.2020 Gerð: Umsögn
S A M B A N D Í S L E N S K R A S V E I T A R F É L A G A Skrifstofa Alþingis - nefndasvið b.t. umhverfis- og samgöngunefndar Austurstræti 8-10 Reykjavík 20. maí 2020 2005007SA KB/bg/em Málalykill: 00.63 150 Reykjavík Efni: Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarp til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir (EES-reglur, plastvörur), mál nr. 720. Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis dags. 6. maí sl. þar sem óskað var eftir umsögnum um ofangreint frumvarp. Með frumvarpinu er verið að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2019/904 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Með innleiðingunni er stefnt að því að draga úr áhrifum af notkun plasts á umhverfið og heilsu fólks ásamt því að vekja neytendur til umhugsunar um neyslu og umhverfisáhrif plasts, draga úr notkun einnota plastvara og styðja við notkun fjölnota vara. Sveitarfélög bera samkvæmt lögum megin ábyrgð á fyrirkomulagi söfnunar og meðhöndlunar úrgangs og eru úrgangsmál mikilvæg nærþjónusta sem skiptir íbúa og rekstraraðila miklu máli. Sveitarfélög hafa metnað til að gera betur í meðhöndlun úrgangs og hafa sett úrgangsforvarnir á oddinn og hafa mörg hver ráðist í kostnaðarsamar fjárfestingar til að bæta úrgangsstjórnun á sínu svæði. Það er afstaða sambandsins að ef varanlegur árangur á að nást þarf að leggja áherslu á að vanda til breytinga og að breytingar sem gerðar eru byggi á heildarsýn í málaflokknum. Afstaða sambandsins Sambandið tekur undir þau sjónarmið er stefnt er að í frumvarpinu, þ.e.a.s. að draga úr notkun og áhrifum plasts á umhverfið en þrátt fyrir það telur sambandið að annmarkar frumvarpsins séu slíkir að vísa ætti málinu aftur til umhverfisráðuneytisins til frekari vinnslu í samráði við hagaðila. Í fyrsta lagi er um að ræða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins sem ekki hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Að meginstefnu kemur hún til framkvæmda innan ESB 3. júlí 2021 og hluti kemur ekki til framkvæmda fyrr en árin 2023 og 2024. Er því nægur tími til stefnu til að vinna málið betur áður en til lagasetningar kemur. Sambandið hefur ítrekað komið fram ábendingum um hvað betur má fara án þess að fullnægjandi svör hafi borist við þeim ábendingum. Því til stuðnings má benda á að framkvæmdastjórn ESB ætlar að birta framkvæmdagerð um ýmis útfærsluatriði er varða einnota plastvörur fyrir 3. júlí n.k., þ.m.t. dæmi um hvað skuli teljast einnota plastvara að því er varðar tilskipunina en sá listi hefur ekki verið birtur. Einnig er vakin athygli á því að aðilar eins og Reloop, sem eru alþjóðleg Borgartúni 30, pósthólf 8100, 128 Reykjavík, sími 515 4900, fax 515 4903, samband@samband.is, www.samband.is mailto:samband@samband.is http://www.samband.is félagasamtök um bætta úrgangsstjórnun, hafa bent á að glufur séu í tilskipuninni1. Þessar glufur snúast um að opnað er á að vörur sem hingað til hafa verið úr plasti sé t.d. skipt út fyrir svokallaðar PHA fjölliður, sem er ekki talið hafa verulegan umhverfisávinning umfram hefðbundið plast, og að aðilar geti komi sér undan banninu með því að segja að vörur þeirra henti til endurnotkunar. Taka má undir þessi sjónarmið því í raun má endurnota hvað sem er, hvort sem er plastmál eða sogrör. Bíta þarf úr nálinni um þessi atriði áður en tilskipunin er innleidd í íslenskt regluverk og er því eðlilegt að bíða eftir að ofangreindar viðmiðunarreglur ESB liggja fyrir. Í öðru lagi hefur ekki verið greint nógu vel hvaða áhrif það hefur á úrgangsmál í heild sinni þegar tilskipunin er innleidd í mörgum hlutum. Úrgangsmál eru flókinn málaflokkur og má helst líkja við vistkerfi þar sem litlar breytingar á einu sviði geta haft mikil og ófyrirséð áhrif á öðrum sviðum innan kerfisins. Vakin er athygli á því að stefnt er að því að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs á haustþingi og er því eðlilegt að þetta frumvarp sé unnið samhliða því og þannig gengið ú skugga um að öll ákvæði vinni saman sem og dagsetningar gildistöku. Sambandið vill ítreka gagnrýni sína, sem kom fram á fyrri stigum málsins, um að regluverk úrgangsmála einkennist af miklum bútasaumi og að það frumvarp sem hér er til umsagnar auki enn á það flækjustig sem slíkur bútasaumur skapar. Einnig að vanda þurfi breytingar á regluverki úrgangsmála og að þær byggi á heildarsýn í málaflokknum. Sambandið fékk drög að stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum til umsagnar í júlí 2019 þar sem gerð var atlaga að því að draga upp stöðu úrgangsmála á landinu og skýra nokkur þeirra ágreiningsefna sem upp hafa komið á síðustu árum í málaflokknum. Vel myndi fara á því að frumvarp sem þetta kæmi í kjölfar staðfestingar stefnumörkunar ráðherra. Í þriðja lagi leggst sambandið eindregið gegn því að frumvarpið verði lagt fram í þeim búningi sem það er nú, þ.e. sem breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Líkt og komið hefur ítrekað fram í umsögnum sambandsins eru lögin orðin mjög mikil að vöxtum og á flestan hátt óaðgengileg fyrir almenning og þær stofnanir sem vinna að framkvæmd laganna. Í raun ætti að nýta tækifærið nú til að færa núverandi ákvæði um burðapoka úr umræddum lögum og útbúa sérstök lög um plastvörur enda ekkert því til fyrirstöðu að vinna málið frekar þar til tilskipunin hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Í fjórða og síðasta lagi er mikilvægt að benda á að í greinargerð kemur fram að nauðsynlegt sé að innleiða þennan hluta tilskipunarinnar sem fyrst til að almenningur og atvinnulíf geti undirbúið sig en á sama tíma hafa fulltrúar atvinnulífsins sem og sveitarfélög kallað eftir því að innleiðingu sé frestað og málið unnið frekar. Er því ljóst að rökin fyrir því að innleiða eingöngu þennan hluta tilskipunarinnar núna standast ekki. Meðfylgjandi er umsögn sambandsins, dags. 16. janúar, þar sem farið er ítarlegar í ofangreindar athugasemdir og rétt er að undirstrika sérstaklega ábendingar við einstaka greinar sem þar komu fram. 1 Reloop. (2020). Dispatches from Europe: Trying to define ‘single-use plastic’. Sótt af https://www.reloopplatform.org/wp-content/uploads/2020/03/Dispatches-from-Europe -Trving- to-define-single-use-plastic-Plastics-Recvcling-Update.pdf 2 https://www.reloopplatform.org/wp-content/uploads/2020/03/Dispatches-from-Europe_-Trying-to-define-single-use-plastic-Plastics-Recycling-Update.pdf https://www.reloopplatform.org/wp-content/uploads/2020/03/Dispatches-from-Europe_-Trying-to-define-single-use-plastic-Plastics-Recycling-Update.pdf Að lokum Sambandið ítrekar þá afstöðu sína að vísa ætti málinu til frekari vinnslu í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og óskar eftir því að fá að fylgja málinu eftir á fundi nefndarinnar. Virðingarfyllst SAMBAND ÍSLENSKRA SVEITARFÉLAGA 2 ^ Karl Björnsson framkvæmdastjóri 3