Kría - sprota- og nýsköpunarsjóður

Umsögn í þingmáli 711 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 02.04.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 13 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 28 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Nasdaq Iceland Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 20.05.2020 Gerð: Umsögn
Microsoft Word - 2020.05.20_sprota_og_nýsköpunarfyrirtæki.docx fw Nasdaq Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis Reykjavík, 20. maí 2020 Efni: Umsögn um frumvarp til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, 711. mál. Vísað er til tölvupósts frá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þann 5. maí sl. þar sem óskað var umsagnar Nasdaq Iceland um frumvarp til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Nasdaq Iceland fagnar því að stjórnvöld ætli að leggja kapp á að efla fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki með stofnun Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs. Það er ekki síst á tímum sem þessum, þegar fjölmörg störf hafa glatast eða eru í hættu vegna COVID-19, sem reyna mun á getu sprota- og nýsköpunarumhverfisins til að skapa ný störf og finna leiðir til að bæta samfélagið okkar. Nasdaq Iceland telur að sú aðferðafræði sem stjórnvöld leggja upp með, að skilyrða framlag úr ríkissjóði við fjárfestingar einkafjárfesta, auki verulega líkurnar á því að framlagið skili tilætluðum árangri. Að sama skapi geti slík nálgun dregið úr hættunni á hagsmunaárekstrum, sem getur eðli málsins samkvæmt myndast þegar ráðstafa á fjármagni úr sameiginlegum sjóðum í rekstur einkaaðila. Markmiðið er að efla fjármögnunarumhverfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja og stuðningur við vísisjóði er mikilvæg leið til að ná því markmiði. Hún er, aftur á móti, ekki eina leiðin. Það hefur einnig sýnt sig að öflugur verðbréfamarkaður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, þar sem gagnsæi er í hávegum haft og fjölbreyttur hópur fjárfesta kemur að fjármögnun fyrirtækja, getur skapað enn öflugra umhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og aukið sýnileika þeirra á alþjóðavísu. Með þeim einföldu breytingum á lögunum sem Nasdaq Iceland leggur til mætti til að mynda útvíkka fjárfestingarheimildir Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóðs með þeim hætti að sjóðurinn gæti einnig komið inn sem kjölfestufjárfestir í almennu útboði, gegn sama skilyrði um aðkomu einkafjárfesta. Rannsóknir sýna að flest ný störf verða til í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og fjölgar jafnframt mikið eftir almenn útboð og skráningu á markað. Svíar hafa náð öfundsverðum árangri í nýsköpunarmálum, sem má meðal annars rekja til þess að efnileg fyrirtæki hafa haft kost á fjölbreyttum fjármögnunarleiðum. Er rétt að nefna þar sérstaklega fjármögnun í gegnum markaðinn, en Nasdaq First North markaðurinn hefur verið á miklu flugi í Svíþjóð sl. sjö ár og eru í dag 331 fyrirtæki skráð á First North í Svíþjóð. Nasdaq First North er markaður þar sem áhersla er lögð á vaxtar- og nýsköpunarfyrirtæki, sem kemur glögglega í ljós þegar skoðað er hvers konar fyrirtæki hafa verið að nýta sér þennan kost á Norðurlöndunum: Árið fyrir skráningu eru fæst þeirra eru farin að skila hagnaði, miðgildi árstekna ríflega 100 m. kr. og miðgildi stöðugilda um 20 starfsmenn.1 1 Úttekt Nasdaq Iceland á skráningum á árinu 2017, byggð á 82 skráningum. fw Nasdaq Velgengni Svía í þessum málaflokki má ekki síst þakka áherslu sænskra stjórnvalda á að styrkja tengslin milli almennings og atvinnulífs, en það hefur lengi verið rík hefð fyrir þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði í Svíþjóð. Það urðu ákveðin þáttaskil í þeim efnum árið 2012, þegar sænsk stjórnvöld innleiddu svokallaða sparnaðarreikninga (s. Investeringssparkonto), en þeir veita almenningi ákveðið skattalegt hagræði við kaup á hlutabréfum. Aukin þátttaka almennings í hlutabréfaviðskiptum hefur ekki síst áhrif á lítil og meðalstór fyrirtæki. Sem dæmi má nefna að þegar viðskipti á First North markaðnum eru greind má sjá að meirihluti viðskipta á markaðnum má rekja til almennings, ólíkt því sem gildir í viðskiptum á Aðalmarkaði með stórfyrirtæki - þar sem alþjóðlegir fagfjárfestar, lífeyrissjóðir og aðrir stórir fjárfestar ráða ríkjum. Án þátttöku almennings hefðu lítil og meðalstór fyrirtæki því haft talsvert minna að sækja með skráningu á markað. Aukin þátttaka almennings á sænska hlutabréfamarkaðnum skapaði þannig ný tækifæri fyrir vaxtarfyrirtæki, en því til stuðnings má nefna að fjöldi fyrirtækja á First North hafði verið nokkuð stöðugur í um 100 - 110 í Svíþjóð á árunum 2007 - 2013. Eftir innleiðingu sparnaðarreikninga tóku skráningar aftur á móti stökk og eru skráð fyrirtæki á First North í Svíþjóð eins og áður segir orðin 331 í dag. Síðan þá hafa dönsk, finnsk og norsk stjórnvöld öll tekið upp einhvers konar sparnaðarreikninga, að sænskri fyrirmynd. Að leita leiða til að efla þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði getur verið heillavænlegt af ýmsum ástæðum og ekki síst til þess að skapa ný tækifæri fyrir vaxtarfyrirtæki. Það getur aftur á móti tekið tíma að skapa sjálfbært umhverfi sem styður við fjármögnun vaxtarfyrirtækja á hlutabréfamarkaði. Sú staðreynd hefur ekki farið fram hjá finnskum stjórnvöldum, en þar hefur að auki verið tekin ákvörðun um að opinberi fjárfestingarsjóðurinn Tesi geti komið inn sem kjölfestufjárfestir í almennum útboðum vaxtarfyrirtækja. Í grein á vef Tesi um málið er vakin athygli á því að einungis eitt fyrirtæki hefði verið skráð á First North í Finnlandi fyrir hver tíu sem höfðu verið skráð í Svíþjóð.2 Var ástæða þessa mismunar og fremst rakin til þess að ekki væri jafn breiður hópur fjárfesta í Finnlandi og Svíþjóð. Að stórir fagfjárfestar, eins og lífeyrissjóðir, væru ríkjandi í Finnlandi. Framlag slíkra fjárfesta til vaxtarfyrirtækja væri mikilvægt, en að stærð þeirra og regluverk gerðu þeim illkleift að veita þann stuðning sem nauðsynlegur væri til að styðja við slík fyrirtæki. Því gætu finnsk fyrirtæki lent á vegg þegar þau reyndu að fjármagna sig með almennu útboði. Tesi hefur síðan þá verið kjölfestufjárfestir í þremur almennum útboðum og skráningum á First North. Lýsing Tesi á fjárfestingarumhverfinu í Finnlandi gæti allt eins átt við um Ísland. Eins og áður segir telur Nasdaq Iceland því afar mikilvægt að Kría geti ekki einungis fjárfest í sjóðum sem svo fjárfesta í íslenskum sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, eins og KRR fund-of-funds hluti Tesi gerir í dag, heldur að Kría fái einnig sams konar heimild og Tesi til þess að koma inn sem kjölfestufjárfestir í almennum útboðum í aðdraganda skráningar á First North eða síðari útboðum þegar skráðra vaxtarfyrirtækja. Nasdaq Iceland veit ekki til þess að hinn norræni opinberi fjárfestingarsjóður sem nefndur er í greinargerð með frumvarpinu, hinn danski Vækstfonden, hafi tileinkað sér sömu aðferðafræði - en veit þó að sá sjóður hefur a.m.k. einu sinni komið inn sem kjölfestufjárfestir í almennu útboði, hjá fyrirtækinu Orphazyme A/S, fyrir skráningu þess á First North í lok árs 2017. 2 https://vuosikertomus.tesi.fi/2018/en/partnership-for-companies-planning-for-an-ipo/ https://vuosikertomus.tesi.fi/2018/en/partnership-for-companies-planning-for-an-ipo/ p i Nasdaq Að mati Nasdaq Iceland er mikilvægt að huga að því að markmiðið með lögum um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum á fyrst og fremst að vera að hjálpa slíkum fyrirtækjum að fjármagna sig, vaxa, dafna og skapa ný störf. Það er því mikilvægt að festa sig ekki um of í ákveðinni aðferðafræði. Í greinargerð með frumvarpinu eru tekin góð og gild dæmi af opinberum fjárfestingarsjóðum í Danmörku og Finnlandi sem hafa fengið það hlutverk að fjárfesta með einkaaðilum í sjóðum, sem svo fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Það má aftur á móti færa sterk rök fyrir því að Svíar hafi náð mestum árangri Norðurlanda á þessu sviði. Eins og áður segir má rekja hluta þeirrar velgengni til þess að sænskum nýsköpunarfyrirtækjum standa fjölbreyttir fjármögnunarmöguleikar til boða, þar á meðal fjármögnun á hlutabréfamarkaði með virkri þátttöku almennings. Það væri því sterkur leikur hjá íslenskum stjórnvöldum að búa þannig um hnútana að íslensk sprota- og nýsköpunarfyrirtæki geti staðið jafnfætis þeim sænsku hvað þetta varðar, þegar fram líða stundir. Öflugir vísisjóðir og virkur hlutabréfamarkaður styðja hvort við annað og mynda hvort um sig mikilvægan hlekk í fjármögnunarvistkerfi sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Þegar kemur að fjármögnun spennandi vaxtarfyrirtækja er það aldrei svo að ein leið henti þeim öllum. Margir hafa auk þess bent á að það sé á seinni stigum þroskaferils nýsköpunarfyrirtækja sem þau eigi það helst til að lenda á vegg, þegar þau eru komin upp fyrir þau viðmið sem vísisjóðir gera en eru ekki nógu stór fyrir lífeyrissjóði og aðra stærri fagfjárfesta. Það er á því stigi sem sprota- og nýsköpunarfyrirtæki eru oft tilbúin til að taka stökkið, fara frá hugmynd og fyrstu framleiðslu í fjöldaframleiðslu og útrás. Verða að öflugum fyrirtækjum sem geta orðið burðarásinn í hagkerfi komandi ára, eins og Marel og Össur eru í dag. Ef ekki er til staðar öflugur hlutabréfamarkaður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki getur vísisjóðum auk þess reynst erfitt að losa um eign sína í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, sem gerir þeim svo erfiðara um vik að fjárfesta í næstu kynslóð fyrirtækja. Það blasa við mikil tækifæri í sprota- og nýsköpunargeiranum í dag, tækifæri sem hafa ekki farið fram hjá fjárfestum á Nasdaq First North markaðnum. Þegar staðan var tekin í lok dags 19. maí 2020 hafði heildarvísitala First North í Svíþjóð hækkað um 11%, samanborið við 12% lækkun á aðalmarkaði, heildarvísitala First North í Finnlandi lækkað um 1%, samanborið við 12% lækkun á aðalmarkaði og heildarvísitala First North í Danmörku lækkað um 1%, samanborið við 3% hækkun á aðalmarkaði. M.ö.o. hefur ávöxtunin á First North verið talsvert betri í Svíþjóð og Finnlandi en á aðalmarkaði og svipuð í Danmörku. Þetta er afar óvenjuleg, en jákvæð, þróun á óvissutímum, þar sem fjárfestar hafa yfirleitt verið nokkuð gjarnir á að losa sig úr áhættufjárfestingum í kreppum og flykkjast í ríkisskuldabréf og aðrar fjárfestingar sem hafa þótt traustar. Þessi þróun endurspeglar, að mati Nasdaq Iceland, þau miklu tækifæri sem felast í því að geta boðið sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum upp á sýnileika og langtímamiðað áhættufjármagn frá breiðum hópi fjárfesta. Það væri því synd ef íslenskt samfélag færi á mis við þessa þróun. Almennt um skráningu á markað Stjórnvöld og Alþingi hafa þegar undirbúið jarðveginn fyrir nýtingu hlutabréfamarkaðarins til þess að fjármagna vaxtarfyrirtæki, með því að samþykkja ný lög um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði, þar sem veittar eru undanþágur frá kröfum um gerð lýsinga vegna útboða þar sem heildarfjárhæð útboðs er lægri en jafnvirði 8 m. evra. Var þar um að ræða mikla búbót fyrir íslensk vaxtarfyrirtæki. p i Nasdaq Eitt lítið (e. small cap) nýsköpunarfyrirtæki er þegar skráð á First North markaðinn, Klappir grænar lausnir. Klappir grænar lausnir greindu nýverið frá fyrirætlunum sínum um að leita eftir nýju hlutafé til að fjármagna vöxt sinn. Nasdaq Iceland telur að auki forsendur fyrir því að mun fleiri fyrirtæki gætu nýtt sér markaðinn á þessum erfiðu tímum. Sem dæmi má nefna hafa 17 fyrirtæki farið í gegnum 8 mánaða námskeið, First North - næsta skref, sem Nasdaq Iceland hefur haldið í samstarfi við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, KPMG, Kviku banka (þar áður Íslandsbanka) og Logos, til þess að búa sig undir mögulega skráningu á markað. 13 til viðbótar hafa nú þegar farið í gegnum sex af átta vinnustofum námskeiðsins og munu klára síðar á þessu ári. Auk framangreindra fyrirtækja gætu vel rekin vaxtarfyrirtæki sem vildu nýta sér þetta úrræði undirbúið skráningu á markað og lokið almennu útboði á 2-3 mánuðum. Skráning á markað hefur ýmsa kosti, til viðbótar við það fjármagn sem fyrirtæki geta sótt í krafti gagnsæis og virkra viðskipta. Má þar meðal annars nefna aukinn sýnileika, aukið traust og meiri möguleika á því að afla viðskiptasambanda og fá eftirsótta erlenda sérfræðinga til starfa. Frekari upplýsingar um kosti skráningar á markað og reynslusögur spennandi vaxtarfyrirtækja má sjá á vef Nasdaq3. Tillaga Nasdaq Iceland Nasdaq Iceland leggur til eftirfarandi breytingu á 3. gr. frumvarpsins, sem miðar að því að rýmka fjárfestingarheimildir Kríu með þeim hætti að heimildir Kríu nái einnig til fjárfestinga í fyrirtækjum sem hafa sótt um að fá eða fengið hlutabréf sín tekin til viðskipta á markaðstorgi fjármálagerninga. Viðbætur þær sem Nasdaq Iceland leggur til eru hér eftir undirstrikaðar: 3. gr. Hlutverk Kríu - sprota- og nýsköpunarsjóði er heimilt að fjárfesta annars vegar í sérhæfðum sjóðum sem hafa þann tilgang að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og hins vegar í almennum útboðum sprota- og nýsköpunarfvrirtækja sem hafa sótt um að fá eða fengið hlutabréf sín tekin til viðskipta á markaðstorgi fjármálagerninga og uppfylla skilyrði laga þessara og reglna settra á grundvelli þeirra. Aðhámarki getur eignarhlutur sjóðsins numið 30% í viðkomandi sérhæfðum sjóði eða almennu útboði, eða 2 milljörðum kr. í tilviki sjóða eða 200 milljónum kr. í tilviki einstaka fvrirtækja. Að jafnaði skal stjórn taka ákvarðanir um fjárfestingu ísérhæfðum sjóðum einu sinni á ári og íalmennum útboðum eftir börfum. Auglýsa skal opinberlega eftir umsóknum. Aðrar athugasemdir við greinargerð með frumvarpinu Í greinargerð með frumvarpinu kemur m.a. fram að í samningi eða eftir atvikum hluthafasamkomulagi við stofnun sérhæfðra sjóða eða sambærilegum samningum verði gert ráð fyrir að öðrum fjárfestum í sérhæfða sjóðnum bjóðist að kaupa hlut Kríu á fyrir fram ákveðnum kjörum að ákveðnum tíma liðnum, þegar frumfjárfestingartímabili sjóðsins er lokið. Nasdaq Iceland veltir því fyrir sér hvort þörf sé á slíkum ákvæðum í umræddum samningum og hvort hætt sé við því að kaupréttur annarra fjárfesta að hlut Kríu, og þar með ríkissjóðs, geti opnað á óþarfa gagnrýni og skapað ákveðna hagsmunaárekstra. Svo sem ef eign Kríu í verðmætum vísisjóðum yrði seldur undir því sem gæti talist eðlilegt 3 Sjá t.a.m. hér: https://www.nasdaq.com/solutions/nasdaq-first-north-growth-market. https://www.nasdaq.com/solutions/nasdaq-first-north-growth-market p i Nasdaq markaðsverð. Slík ívilnandi ákvæði fyrir meðfjárfesta Kríu hafa auk þess þann ókost að þegar framlag Kríu og einkafjárfesta er á mismunandi forsendum er síður tryggt að fjárfestingarnar skili tilætluðum árangri. Hugmyndin með slíkum ákvæðum er góðra gjalda verð - að tryggja ákveðna hringrás, þar sem Kría getur selt eign sína í eldri vísisjóðum og komið í kjölfarið að fjármögnun nýrri sjóða. En aðkoma ríkissjóðs að fjármögnun einkafyrirtækja þarf að vera hafin yfir allan skynsamlegan vafa. Nasdaq Iceland veltir því fyrir sér hvort það megi ekki ná því markmiði með öðrum leiðum, svo sem með því að efla innlendan hlutabréfamarkað og stuðla þar með að því að sjóðir sem Kría hefur fjárfest í geti selt hlut sinn í almennu útboði, þar sem áhersla er lögð á gagnsæi og jafnræði, samhliða skráningu á markað. Nasdaq Iceland hefur ekki frekari athugasemdir við frumvarpið og er undirritaður fús til frekari umræðu og samstarfs um ofangreint mál. Virðingarfyllst, Baldur Thorlacius, Framkvæmdastjóri sölu- og viðskiptatengsla Nasdaq Iceland