Fjáraukalög 2020

Umsögn í þingmáli 695 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 21.03.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 23 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 27 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samtök atvinnulífsins Viðtakandi: Fjár­laga­nefnd Dagsetning: 24.03.2020 Gerð: Umsögn
Nefndasvið Alþingis b.t. fjárlaganefndar Austurstræti 8-10 150 Reykjavík nefndasvid@althingi.is Mál: Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020 Samtök atvinnulífsins (SA) vísa til tölvupósts fjárlaganefndar Alþingis frá því í gær þar sem óskað var umsagnar SA um ofangreint lagafrumvarp. SA þakka nefndinni fyrir það tækifæri að fá að veita umsögn um ofangreint frumvarp. Fjáraukalagafrumvarpið er lagt fram við afar sérstakar og fordæmalausar aðstæður í efnahagslífinu. Í því eru lagðar til nokkrar afmarkaðar breytingar á gildandi fjárlögum sem lúta að tilteknum hluta mótvægisráðstafana stjórnvalda í tengslum við það áfall á efnahag landsins sem leiðir af heimsfaraldri COVID-19. Tilefni lagasetningarinnar má rekja til samþykktar ríkisstjórnarinnar 10. mars 2020 um aðgerðir í sjö liðum til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins. Frumvarpið er lagt fram samhliða öðrum ráðstöfunum í ríkisfjármálum, annars vegar á sviði skattamála og hins vegar vegna ráðstafana sem varða greiðsluerfiðleika fyrirtækja. SA fagna frumvarpinu og styðja það heilshugar en vilja þó vekja athygli á eftirfarandi: 1. Lánsfjárþörf ríkissjóðs (3. gr.) Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að breytingar verði gerðar á 1. tölul. 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2020 þannig að lánsfjárheimild ríkissjóðs verði hækkuð úr 45 ma.kr. í 140 ma.kr. vegna aukinnar fjárþarfar ríkissjóðs í tengslum við aðgerðirnar. Aukin lánsfjárþörf kemur til vegna fjármögnunar þeirra aðgerða sem lúta m.a. að auknum fjárfestingum, markaðsátaki til að kynna Ísland og laða ferðamenn aftur til landsins, tekjufalls ríkissjóðs vegna frestunar gjalddaga og hugsanlegs kostnaðar vegna veitingar ábyrgða á lán banka til fyrirtækja. Kostnaður ríkissjóðs vegna aðgerðanna að teknu tilliti til frestunar skattgreiðslna sem hann þarf að brúa yfir árið er 170 milljarðar króna. Þá á eftir að taka tillit til minni skatttekna og aukinna útgjalda ríkissjóðs vegna efnahagsástandsins. Í þessu samhengi má benda á að við gjaldþrot WOW Air hf. versnaði afkoma ríkissjóðs um 50 ma.kr samkvæmt endurskoðaðri fjármálastefnu stjórnvalda. SA telur að efnahagsleg áhrif vegna faraldursins muni hafa töluvert meiri áhrif á afkomu ríkissjóðs en fall WOW hafði. Í ljósi þessa telur SA að lánsfjárþörfin sé verulega vanmetin miðað við ofangreindar forsendur. 2. Ríkissjóður ábyrgist viðbótarlánin (4. gr.) Í 4. gr. frumvarpsins er m.a. lagt til að nýr liður (7.32) bætist við 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2020. Hann heimilar ríkissjóði að leita samninga við Seðlabanka Íslands um að bankinn veiti fyrirgreiðslu til að auðvelda viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja, sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Skulu lánastofnanir við lánveitingar uppfylla nánari skilyrði sem ráðherra muni setja í samningi við Seðlabanka. Í samningnum skuli tilgreind þau hlutlægu skilyrði sem lögð yrðu til grundvallar ákvörðunum um skiptingu ábyrgða milli lánastofnana, ásamt nánari skilyrðum við veitingu ábyrgða, hvernig tryggja mætti að ráðstöfun Seðlabankans byggi á skýrum, málefnalegum og gagnsæjum forsendum sem leiði til jafnræðis þeirra fyrirtækja sem leita eftir fyrirgreiðslu og hvernig eftirliti og reglubundinni skýrslugjöf skuli háttað. Kveðið skuli á um það í samningnum að ríkissjóður tryggi Seðlabankanum skaðleysi vegna þess kostnaðar sem hann kunni að verða SA SAMTOK ATVINNULÍFSINS o Reykjavík, 24. mars 2020 Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | 105 Reykjavík | Sími 591 0000 | Netfang sa@ sa.is | www.sa.is mailto:nefndasvid@althingi.is mailto:sa@sa.is http://www.sa.is 5 A * • • fyrir vegna slíkrar fyrirgreiðslu. Samningur ráðherra við Seðlabankann skuli eftir föngum tryggja endurgreiðslu slíkra viðbótarlánveitinga og miða við að heildaráhætta ríkissjóðs vegna þeirra geti að hámarki numið 35 ma.kr. SA taka undir það sem fram kemur í umsögn Seðlabanka Íslands um að eðlilegra sé að ríkissjóður sjálfur ábyrgist beint viðbótarlán lánastofnana, til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna faraldursins, í stað Seðlabanka Íslands. Í fyrsta lagi er vegið að sjálfstæði bankans sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 1. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 92/2019 með því fyrirkomulag sem lagt er til. Í öðru lagi er óeðlilegt að Seðlabankinn gangist í ábyrgð fyrir lán sem veitt eru af lánastofnunum sem honum er falið lögum skv. að hafa eftirlit með, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 4. mgr. 2. gr. laga um Seðlabanka Íslands. Í þriðja lagi yrði framkvæmdin mun einfaldari og skilvirkari með því beina ábyrgðum beint í gegnum ríkissjóð í stað Seðlabankann. 3. Hagræðingarkrafa á stofnanir Engin hagræðingarkrafa er sett á ríkisstofnanir í frumvarpinu. Við blasir að starfsemi margra stofnana mun dragast verulega saman eða jafnvel liggja niðri í einhverjar vikur eða mánuði vegna faraldursins. Eðlilegt væri að samið yrði við starfsmenn um að fara í hlutastörf í samræmi við lög um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall) sem samþykkt voru á Alþingi sl. föstudag. Íslenskt atvinnulíf glímir við efnahagsskell sem er án allra fordæma og það mun taka tíma að vinna upp framleiðslutapið. Ríkissjóður getur því ekki brugðist við versnandi efnahagshorfum, tekjufalli og auknum útgjöldum með hækkun skatta og gjalda á íslenskt atvinnulíf næstu árin. Aukin hagræðing í ríkisrekstri er því nauðsynleg og verður verkefni næstu missera þegar faraldurinn hefur gengið yfir. Það breytir þó ekki því að stöðugt þarf að horfa til þeirra fjármuna sem ríkissjóður hefur úr að spila hverju sinni. SA hvetja stjórnvöld til að horfa til þeirrar stöðu sem nú er uppi og finna allar mögulegar leiðir til að draga úr útgjöldum og hagræða í rekstri. 4. Hlutdeildarlán Þá taka SA undir það sem fram kom í umsögn Samtaka iðnaðarins um að koma þurfi á hlutdeildarlánum sem allra fyrst og auka fjárveitingu til stofnframlaga. Á þessum tímum þurfi að leita allra leiða til að viðhalda stöðugri uppbyggingu til að mæta grundvallarþörf samfélagsins til næstu ára. Í ljósi þess að mikill samdráttur verður á nýrri íbúðarfjárfestingu er nauðsynlegt að fara hratt af stað með nauðsynlega uppbyggingu, m.a. með því að koma á hlutdeildarlánum sem allra fyrst og auka fjárveitingar til svokallaðra stofnframlaga. Tryggja þurfi fjármagn til þessara verkefna á þessu ári að því gefnu að frumvarp um hlutdeildarlán verði samþykkt. 5. Tækniþróunarsjóður SA leggja til að hluti aukins fjármagns til fjárfestinga verði varið til að leggja aukið fjármagn í Tækniþróunarsjóð. Árangurshlutfall, þ.e.a.s. hlutfall úthlutunar af umsóknum, sjóðsins er orðið mjög lágt og hætta á að við séum að missa af vænlegum verkefnum sem skapað geta mikil umsvif til framtíðar. Virðingarfyllst, f.h. Samtaka atvinnulífsins Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri