Aðgerðir til að mæta efna­hagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru

Umsögn í þingmáli 683 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 21.03.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 43 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 29 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Seðlabanki Íslands Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 25.03.2020 Gerð: Umsögn
Microsoft Word - Umsögn vegna frumvarps - bandormur - stytt 25. mars 2020 Tilv.: 2003136 Nefndasvið Alþingis nefndasvid@althingi. i s Austurstræti 8 - 10 150 Reykjavík Efni: Umsögn um breytingartillögur vegna 683. máls, frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Með tölvupósti, dags. 23. mars, óskaði efnahags- og viðskiptanefnd eftir umsögn Seðlabanka Íslands um frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru, sbr. 683. mál, lagt fram á 150. löggjafarþingi. Kórónuveiran og aðgerðir stjórnvalda til að hefta útbreiðslu farsóttarinnar hafa valdið miklum búsifjum um allan heim. Aðgerðir til að hemja farsóttina hafa dregið úr framleiðslu og aukin óvissa hefur valdið miklum usla á fjármálamörkuðum. Aðgerðir Seðlabanka Íslands hafa fyrst og fremst miðast að því að létta á fjármálalegum skilyrðum heimila og fyrirtækja og tryggja sem eðlilegasta virkni fjármálamarkaða. Bankinn hefur tvívegis lækkað meginvexti sína um 0,5 prósentur og eru vextir bankans nú í sögulegu lágmarki í 1,75%. Þá hefur bankinn lækkað bindiskyldu og breytt reglum um meðferð hennar í útreikningi á lausafjárreglum og aflétt 2% eiginfjárkröfu um sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki. Ætla má að breytingar á bindiskyldu og lækkun eiginfjárkrafna auki útlánagetu fjármálakerfisins um u.þ.b. 400 ma.kr. Þá tilkynnti bankinn nýlega að hann myndi hefja kaup á ríkisskuldabréfum á eftirmarkaði til að tryggja að lækkun vaxta bankans myndi miðlast sem eðlilegast út í lengri skuldabréfavexti þrátt fyrir horfur um stóraukna lánsfjárþörf ríkissjóðs. Seðlabankinn hefur jafnframt lýst því yfir að hann muni tryggja fjármálakerfinu það lausafé sem til þarf svo það geti starfað með eðlilegum hætti. Vandinn sem blasir við vegna heimsfaraldurs kórónuveiru felst í meginatriðum í miklum eftirspurnarsamdrætti sem veldur tímabundnu tekjutapi fyrirtækja í öllum geirum, sem mun jafnframt hafa þær afleiðingar að greiðslugeta heimila minnkar tímabundið. Aðgerðir stjórnvalda þurfa því að miðast að því að draga eins og unnt er úr neikvæðum áhrifum þessa á atvinnulífið svo hægt sé að styðja við lífsafkomu fólks í gegnum þær tímabundnu þrengingar sem eru afleiðingar veirunnar. Hér kemur fyrst til skoðunar að lánastofnanir tryggi að lífvænleg fyrirtæki sem verða fyrir verulegu tímabundnu tekjutapi haldi áfram rekstri með þeim hætti að gefa þeim möguleika á að fresta greiðslu lána og til viðbótar tryggja þeim nægt lausafé til áframhaldandi reksturs á tímabilinu og þá eftir atvikum veita viðbótarlán og aðra fyrirgreiðslu. Þannig sé fyrirtækjum veittur sveigjanleiki, með greiðslufrestum eða öðrum skilmálabreytingum, sem kemur í veg fyrir að skuldbindingar þeirra í heild sinni gjaldfalli vegna vangoldinna greiðslna með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahagslífið og fjármálakerfið. Efni frumvarpsins og þær aðgerðir sem þar koma fram eru ennfremur til þess fallnar að stemma stigu við þeim efnahagslegu áhrifum sem heim sfaral durinn hefur í för með sér. Lýsir Seðlabankinn því yfir stuðningi við efni frumvarpsins með þeim breytingatillögum sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hyggst senda nefndinni og sem samráð var haft við Seðlabankann vegna. Umsögn þessi er lögð fram samhliða umsögn um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020 í 695 máli, en frá framlagningu þingmálanna hefur Seðlabankinn átt í samskiptum við fjármála- og efnahagsráðuneytið hvað varðar skýrleika útfærslu á framkvæmd ábyrgða í tengslum við viðbótarlán lánastofnana til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldursins. Líkt og fram hefur komið er gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðuneytið muni upplýsa um niðurstöðu þeirrar vinnu. Virðingarfyllst, SEÐLABANKI ÍSLANDS Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri Rannveig Júníusdóttir framkvæmdastj óri