Aðgerðir til að mæta efna­hagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru

Umsögn í þingmáli 683 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 21.03.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 43 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 29 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Fjármála- og efna­hags­ráðuneytið Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 25.03.2020 Gerð: Minnisblað
Fjármála- og efnahagsráðuneytið M i n n i s b l a ð Viðtakandi: Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og fjárlaganefnd Alþingis Sendandi: Fjármála- og efnahagsráðuneytið Dagsetning: 25.03.2020 Málsnúmer: Bréflykill: 3.7 Efni: Breytingartillögur við þingmál á þingskjölum 1157 og 1172 Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Seðlabankinn hafa átt samráð um fyrirhugaða framkvæmd ákvæða um ábyrgðarskuldbindingar ríkissjóðs vegna viðbótalána til fyrirtækja, sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Umrædd ákvæði eru í 12. og 13. gr. frumvarps til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2020. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur einnig haft samráð við forsætisráðuneytið um sama atriði. Í ljósi þess að við núverandi aðstæður er talið sérlega mikilvægt að fyrirkomulagið á þessum lánveitingum verði eins einfalt, gagnsætt og skýrt og kostur er, eru ráðuneytin og Seðlabankinn sammála um að heppilegt sé að eftirfarandi breytingar verði gerðar á framangreindum þingmálum. Þingskjal 1157 - mál nr. 683. Frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. 12. gr. frumvarpsins (Breyting á lögum um ríkisábyrgðir, 121/1997) orðist svo: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Ákvæði laga þessara gilda ekki um þær ábyrgðarskuldbindingar sem ríkissjóði er heimilt að undirgangast gagnvart lánastofnunum vegna viðbótarlána þeirra til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Afla skal heimilda í fjáraukalögum 2020 vegna þessara ábyrgðaskuldbindinga og er fjármála- og efnahagsráðherra heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um að annast framkvæmdina gagnvart lánastofnunum. Ráðherra skipar nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis. Nefndarmenn skulu hafa þekkingu á málefnum fjármálamarkaðar. Forsætisráðherra tilnefnir einn nefndarmann, Samstarfsnefnd háskólastigsins einn og skal einn skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Nefnd skv. 2. mgr. getur kallað eftir upplýsingum og gögnum um framkvæmd samnings skv. 1. mgr. bæði frá Seðlabankanum og hlutaðeigandi lánastofnunum. Nefndin skal skila ráðherra skýrslu um framkvæmdina á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn fyrir 1. nóvember 2020, en jafnframt skal hún upplýsa ráðherra án tafar ef hún verður vör við brotalamir í framkvæmdinni. Ráðherra skal leggja skýrslur nefndarinnar fyrir Alþingi. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga. 13. gr. frumvarpsins (Breyting á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019) falli brott. Þingskjal 1172 - mál nr. 695. Frumvarp til fjáraukalaga 2020. Liður 7.32 í 4. gr. frumvarpsins orðist svo: Að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs sem nemi allt að helmingi höfuðstóls viðbótarlána þeirra til fyrirtækja, sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Jafnframt er honum heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um framkvæmd á veitingu ábyrgða gagnvart lánastofnunum. Skulu lánastofnanir við lánveitingarnar uppfylla nánari skilyrði sem fram skulu koma í samningi við Seðlabankann. Í samningnum skulu tilgreind þau hlutlægu skilyrði sem lögð verða til grundvallar ákvörðunum um skiptingu ábyrgða milli lánastofnana, ásamt nánari skilyrðum um hvernig tryggja megi að fyrirgreiðsla lánastofnana byggi á skýrum, málefnalegum og gagnsæjum forsendum sem leiði til jafnræðis þeirra fyrirtækja sem leita eftir fyrirgreiðslu og hvernig reglubundinni skýrslugjöf skuli háttað. Heildarábyrgð ríkissjóðs vegna viðbótarlána getur að hámarki numið 35 ma.kr.