Aðgerðir til að mæta efna­hagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru

Umsögn í þingmáli 683 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 21.03.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 43 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 29 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Almannaheill, samtök þriðja geir Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 25.03.2020 Gerð: Umsögn
Umsögn um 683. mál, frumvarp til laga um efnahagsleg áhrif í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru. Efnahags- og viðskiptanefnd nefndasvið@althingi.is Almannaheill, samtök þriðja geirans, hafa haft takmarkað ráðrúm til að rýna umrætt frumvarp ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldursins. Samtökin taka undir að verulegs átaks er þörf til að minnka áfallið fyrir fólk og félög í landinu. Efnahagslegu áhrifin verða eflaust mikil og margvísleg, eins og aðrar þjóðir hafa þegar upplifað. Nokkur ákvæði umrædds frumvarps snerta starfsemi margra almannaheillasamtaka. Á einum stað er þeirra sérstaklega getið; þau eiga að njóta endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað, hönnun og eftirlits, líkt að margir aðrir aðila eins og segir í frumvarpinu: "Endurgreiða skal mannúðar- og líknarfélögum, íþróttafélögum, björgunarsveitum, landssamtökum björgunarsveita og slysavarnadeildum og einstökum félagseiningum sem starfa undir merkjum samtakanna 100% þess virðisaukaskatts sem þessir aðilar hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra. Á sama hátt skal endurgreiða þeim aðilum sem falla undir 1. málsl. virðisaukaskatt sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíku mannvirki." Almannaheill telja að þessi endurgreiðsla til almannaheillasamtaka ætti að vera víðtækari en hér er gert ráð fyrir--almennt af aðföngum--eins og samtökin hafa oft áður lagt til, m.a. í bréfi til starfshóps fjármálaráðherra um skattamál félaga í þriðja geiranum fyrir nokkrum mánuðum síðan. Í frumvarpinu hefði ennfremur mátt taka upp einhverjar af þeim tillögum sem starfshópurinn hefur gert til að laga skattaumhverfi almannaheillasamtaka betra og sambærilegra við það sem gerist í helstu samanburðarlöndum okkar. Eins og fram kemur í skýrslu hópsins eru skattfríðindi íslenskra almannaheillasamtaka almennt mun minni en hliðstæðra samtaka í nágrannalöndunum. Ljóst er að yfirstandi faraldur mun hafa gríðarleg áhrif á starfsemi fjölmargra íslenskra almannaheillasamtaka. Almannaheill hafa fengið fjölmargar ábendingar um að fjáröflum margra þessara samtaka hafi hreinlega hrunið í faraldrinum. Venjulegar tekjuöflunarleiðir félaganna hafa margar hverjar lokast. Um leið hefur súrefni félaganna til nauðsynlegs starfs minnkað. Í ástandi eins og nú ríkir er starf margar almannaheillasamtaka mun mikilvægara en áður. Þeirra hlutverk er að styðja við ýmsa hópa sem greinilega verða fyrir barðinu á veirufárinu. Þau eru öll að vilja gerð--t.d. við að styðja við aldraða, sjúka, fatlaða og fátæka--en hafa takmarkaða möguleika til öflugra verka vegna breyttra aðstæðna. Reynsla almannaheillasamtaka í öðrum löndum eins og hér á landi hefur verið sú að fjármagn og framboð af sjálfboðaliðum hefur stórlega minnkað á undanförnum vikum. Ef félagasamtökin veikjast vegna minnkandi tekna, og geta t.d. ekki haldið starfsmönnum, munu þau ekki geta sinnt þeim hlutverkum sem mikil nauðsyn er á að þau sinni við þessar erfiðu aðstæður í samfélaginu. mailto:nefndasvi%c3%83%c2%b0@althingi.is Almannaheill beina því til efnahags- og viðskiptanefndar að nefndin skoði vandlega möguleika á að breyta fyrirliggjandi frumvarpi í því skyni að efla möguleika almannaheillasamtaka til að glíma við afleiðingar þess erfiða ástands sem ríkir í samfélaginu. Virðingarfyllst, F.h. Almannaheilla, samtaka þriðja geirans. Jónas Guðmundsson