Samkeppnislög

Umsögn í þingmáli 610 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 02.03.2020 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 12 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 12 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 16.06.2020 Gerð: Minnisblað
VIÐSKIPTARÁÐ ÍSLANDS SAMTÖK ATVINNULÍFSINS Nefndasvið Alþingis Efnahags- og viðskiptanefnd B.t. nefndarritara Austurstræti 8-10 101 Reykjavík Efni: Athugasemdir vegna minnisblaðs Samkeppniseftirlitsins 10. júní 2020 Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins (samtökin) vilja koma á framfæri athugasemdum í tilefni af minnisblaði Samkeppniseftirlitins til efnahags- og viðskiptanefndar dagsett 10. júní 2020. Í minnisblaðinu er fjallað um fréttatilkynningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 2. júní sl. og látið í veðri vaka að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætli sér að innleiða íhlutunarheimild sambærilega þeirri sem íslensku samkeppnislögin geyma. Í fyrirliggjandi frumvarpi um breytingar á íslenskum samkeppnislögum er lagt til að heimildin verði afnumin. Sé tilkynning Evrópusambandsins skoðuð nánar er þó ljóst að framkvæmdastjórnin hefur ekkert ákveðið í þessum efnum, heldur einungis kynnt hugmynd um hugsanlega nýja heimild. Á þessu stigi vill framkvæmdastjórnin „kanna þörfina á hugsanlegri nýrri heimild'' (e. exploring the need for a possible new competition tool), líkt og það er orðað í fréttatilkynningunni og óskar eftir athugasemdum almennings og helstu hagsmunaaðila vegna þeirra hugmynda sem uppi eru. Hugmyndirnar eiga því eftir að fara í gegnum langt, víðtækt og mikilvægt samráðsferli og ekki er hægt að gera ráð fyrir því að íhlutunarheimild, sambærileg þeirri og til staðar er í breskum rétti, verði innleidd í samkeppnisregluverk Evrópusambandsins. Fjarri lagi er að ganga út frá því að slíkar hugmyndir verði samþykktar og í raun má búast við því að þær mæti mikilli mótstöðu, ekki síst í ljósi þess um hve víðtækt inngrip í starfsemi fyrirtækja er að ræða. Íhlutunarheimildin í íslenskum samkeppnislögum er almennt orðuð og ákvæðið er mjög matskennt á sama tíma og það felur í sér víðtæk inngrip sem líkur eru á að fari gegn eignarréttarákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Þá er sú íhlutunarheimild er Samkeppniseftirlitið vísar ítrekað til, sem samkeppniseftirlit Bretlands býr yfir, settar mun ítarlegri skorður. Samtökin telja mikilvægt að íhlutunarheimild c-liðar 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga falli brott. Ekkert samkeppniseftirlita annarra Norðurlanda býr yfir slíkri heimild, hún gengur gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti skv. sérfræðingum á réttarsviðinu og þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið staðhæfi að til standi að innleiða slíka heimild í evrópskan samkeppnisrétt er um að ræða hugmyndir á frumstigi en ekki fastmótaðar áætlanir um mótaða íhlutunarheimild. Virðingarfyllst, Reykjavík, 16. júní 2020 f.h. Viðskiptaráðs f.h. Samtaka atvinnulífsins https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/ip_20_977