Utanvegaakstur og verndun lands á hálendi Íslands

Umsögn í þingmáli 59 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 11.09.2019 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 8 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 22 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Vatnajökulsþjóðgarður Viðtakandi: Umhverfis- og samgöngu­nefnd Dagsetning: 11.02.2020 Gerð: Umsögn
Alþingi b.t. Kirkjustræti 101 Reykjavík Dags: 10. febrúar 2020 Málsnúmer: 2002003 Efni: Umsögn um 59. mál. Tillaga til þingsályktunar um utanvegaakstur og verndun lands á hálendi Íslands Vatnajökulsþjóðgarður fagnar því að aukin áhersla sé lögð á að stemma stigu við utanvegaakstur á hálendinu og tillögu um starfshóp sem hafi það að markmiði. Innan þjóðgarðsins er mikil áhersla lögð á fræðslu til gesta til að koma í veg fyrir slíka ferðahegðun, annars vegar með upplýsingum í formi skilta og dreifibréfa og hins vegar, í vaxandi mæli, með vegalandvörslu. Þar er reynt að taka sem allra flesta gesti þjóðgarðsins tali og ræða um bann við utanvegaakstri og mikilvægi þess fyrir náttúruvernd. Í greinargerðinni er talað um „stóru utanvegaakstursmálin" þar sem farartæki eru jafnvel föst langt utan vegar - og það eru vissulega grafalvarleg tilvik. Útbreiddustu vandamálin eru þó tilviljanakenndar slaufur og „kleinuhringjagerð" meðfram vegum vítt og breitt um hálendið, svo og breikkun vega og slóða, þar sem vegfarendur sveigja út af vegi t.d. til að snúa við, forðast polla eða skafla á veginum eða velja sér ný vöð og skilja gjarnan eftir mjög ljót sár í jarðvegi. Varðandi samsetningu starfshópsins skal taka undir nauðsyn víðtæks samráðs og skýrra reglna. Umsjónaraðilar þjóðgarða og friðlýstra svæða, s.s. Vatnajökulsþjóðgarður og Umhverfisstofnun hljóta einnig að teljast lykilaðilar í verndun hálendisins og ættu því að eiga fulltrúa í starfshópnum. Þar er til staðar umtalsverð reynsla og þekking, enda eru landverðir þeir sem mesta reynslu hafa af vinnu í tengslum við utanvegaakstur. Einnig má benda á að umræddar stofnanir hafa átt formlegt samstarf við lögreglu og Vegagerðina undanfarin ár, þar sem markmiðið hefur einkum verið að reyna að stýra umferð á hálendinu á viðkvæmasta tíma ársins, á vorin og snemmsumars. Ástand hálendisvega og merkingar eru eitt af lykilatriðum í baráttunni við utanvegaakstur og því mikilvægt að hafa fulltrúa Vegagerðarinnar einnig í hópnum. Í greinargerðinni er fjallað um mögulegar sértækar reglur um þætti eins og umferð, gjaldtöku og/eða tryggingar á hálendi. Rétt er að benda á að friðlýsing svæða og stjórnunar- og verndaráætlanir þeirra, eru væntanlega sá grunnur sem slíkar reglur þurfa að byggja á. Virðingarfyllst, Fanney Ásgeirsdóttir þjóðgarðsvörður Vatnajökulsþjóðgarðs Vatnajökulsþjóðgarður | Urriðaholtsstræti 6-8 | 210 Garðabæ | kt 441007-0940 | info@vjp.is mailto:info@vjp.is