Dómstólar o.fl.

Umsögn í þingmáli 470 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 11.12.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 5 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 8 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Lögmanna­félag Íslands Viðtakandi: Alls­herjar- og mennta­mála­nefnd Dagsetning: 14.02.2020 Gerð: Umsögn
LAGANEFND LMFÍ Alþingi Nefndasvið Austurstræti 8-10 150 Reykjavík Reykjavík, 13. febrúar 2020 Sent með tölvupósti 150. löggjafarþing 2019-2020 Þingskjal 685- 470. mál Efni: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (Endurupptökudómur). Laganefnd LMFÍ vísar til umsagna sinna, dags. 29. maí 2017, dags. 14. maí 2018 og dags. 12. nóvember 2018 um fyrri útgáfur lagafrumvarpa um stofnun Endurupptökudómstóls. Laganefnd vill sérstaklega árétta þrennt um nýjustu útgáfu frumvarpsins. Í fyrsta lagi, virðist ekki hafa verið tekið tillit til fyrri umsagna nefndarinnar um að sambærileg skilyrði ættu að gilda um gjafsókn í endurupptökumálum og í öðrum tegundum mála. Um nauðsyn þess að hægt sé að sækja um gjafsókn í endurupptökumálum vísast til fyrri umsagna. Í öðru lagi, er æskilegt að fram komi berum orðum í greinargerð, að ákvæði 7. og 11. gr. frumvarpsins taki einnig til sáttagerða fyrir alþjóðlegum dómstólum. Ástæðan er m.a. sú að í 39. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu („MSE") er gert ráð fyrir því að aðildarríki geti lokið málum með sátt við kærendur (e. „friendly settlement"). Máli er þá lokið með formlegri ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu („MDE"), þar sem gerð er grein fyrir meginefni sáttar og að kærumálið sé fellt af málaskrá dómstólsins. Sáttagerð byggist á því að þau mannréttindi sem skilgreind eru í MSE og viðaukum sáttmálans verði tryggð, skv. 62. gr. starfsreglna MDE. Slíkar sáttagerðir eru t.d. æskilegar ef eitt mál hefur verið dæmt af MDE á undan öðrum samkynja málum gegn aðildarríki. Í slíkum tilfellum er lítill tilgangur í því að reka hvert og eitt mál til enda, með tilheyrandi kostnaði og tíma fyrir dómstólinn, íslenska ríkið og kæranda. Gera verður málsaðilum kleift að sætta mál sín, án þess þó að í því felist að þeir gefi frá sér réttinn til endurupptöku mála fyrir íslenskum dómstólum í kjölfarið, þar sem mál er ekki rekið til enda. 1 I LAGANEFND LMFÍ Í þriðja lagi, er komin upp réttaróvissa um það hvort íslensk lög veita íslenskum ríkisborgurum fullnægjandi heimildir til endurupptöku mála sinna í kjölfar áfellisdóma MDE. Í Hæstaréttardómi nr. 2/2018 var endurupptökubeiðni hafnað þar sem talið var að ófullnægjandi heimildir væru í íslenskum sakamálalögum nr. 88/2008 til endurupptöku mála sem vörðuðu brot íslenska ríkisins á öðrum reglum en s.k. „meginreglum sakamálaréttarfars“ skv. 6. gr. MSE (t.d. brotum gegn milliliðalausri sönnunarfærslu og reglum um hæfi dómara). Því var endurupptökubeiðni, sem byggðist á því að íslenska ríkið hefði brotið gegn reglum um bann við tvöfaldri saksókn (ne bis in idem), skv. áfellisdómi MDE, hafnað. Ætla má að möguleikar fjölda einstaklinga til að hljóta endurupptöku mála sinna, sem hafa þurft að sæta tvöfaldri saksókn í skattamálum hérlendis, séu í uppnámi eftir dóm Hæstaréttar. Þá verður að ætla að verulegur vafi sé um það hvort íslenska ríkið geti lengur fullnægt skyldum sínum skv. 46. gr. MSE til að fullnusta dóma MDE hérlendis. Brýnt er að tryggja að endurupptökuréttur sé fyrir hendi vegna brota íslenska ríksins á öðrum ákvæðum sáttmálans en 6. gr. MSE Að mati laganefndar er óþarfi að gera breytingu á orðalagi greina frumvarpsins vegna framangreinds. Þess í stað er gerð eftirfarandi tillaga um breytingu á orðalagi greinargerðar með 7. gr. frumvarpsins (sem 11. gr. frumvarpsins vísar í): „Með nýjum gögnum eða upplýsingum í þessum skilningi er átt við öll þau gögn eða upplýsingar sem leitt gætu til breyttrar niðurstöðu málsins í mikilvægum atriðum, þar á meðal geti verið úrlausnir alþjóðlegra dómstóla á borð við Mannréttindadómstól Evrópu og EFTA-dómstólinn. [Úrlausnir í þessum skilningi geta verið sáttagerðir ríkisins og málsaðila fyrir alþjóðlegum dómstólum. Þá getur verið um að ræða úrlausnir um hvers kyns brot gegn ákvæðum EES samningsins eða Mannréttindasáttmála Evrópu.]. Hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) lagt áherslu á að til staðar sé heimild í réttarfarslöggjöf til endurupptöku dómsmála er varða EES-löggjöf ef niðurstöður frá EFTA-dómstólnum benda til breyttrar niðurstöðu íslenskra dómstóla í máli er varða EES-löggjöf“. Loks er áréttað að brýnt er að mati Laganefndar að lögfesta frumvarpið sem fyrst í ljósi þeirrar réttaróvissu sem komin er upp hérlendis um réttindi til endurupptöku. Virðingarfyllst, f.h. laganefndar LMFÍ Geir Gestsson Almar Möller 2 I