Mótun efnahagslegra hvata til að efla ræktun orkujurta á Íslandi

Umsögn í þingmáli 44 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 12.09.2019 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 7 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 14 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi Viðtakandi: Umhverfis- og samgöngu­nefnd Dagsetning: 10.10.2019 Gerð: Umsögn
m Alþingi Nefndarsvið Alþingis, Þingskjal 44 - 44. mál. Reykjavík, 10. okt. 2019 Umsögn: Tillaga til þingsályktunar um mótun efnahagslegra hvata til að efla ræktun á orkujurtum á Íslandi. Meginmarkmið tillögunnar eru að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp til að móta og hrinda í framkvæmd aðgerðaráætlun um efnahagslega hvata sem styrkja forsendur fyrir ræktun orkujurtanna repju og nepju. Það yrði gert í þeim tilgangi að framleiða eldsneyti (bíódísil) til notkunar í skipum í stað jarðefnaeldsneytis. Aðgerðaáætlun með tillögum að framkvæmd liggi fyrir eigi síðar en 1. mars 2020 og verði þá kynnt alþingi. Í aðgerðaáætluninni skal m.a. tekin afstaða til beitingar eftirtalinna efnahagslegra hvata (styrkja) í sex liðum sem ná yfir alla þætti virðiskeðjunnar, s.s. ræktun, uppskera og þreskjun, geymslum, búnaði fyrir framleiðslu og markaðs- og dreifingu á framleiðsluvörunum. Fyrir liggur aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum frá september 2018 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum með það fyrir augum að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamningnum til ársins 2030. Samkvæmt væntanlegum skuldbindingum Íslands innan ramma Parísarsamningsins þarf losun í ákveðnum geirum að dragast saman um 30-40% til 2030, miðað við 2005. Stjórnvöld stefna að kolefnishlutleysi árið 2040 og áætlunin á að styðja við að því metnaðarfulla markmiði verði náð. Algjör útfösun jarðefnaeldsneytis er markmiðið en spurning er hvenær því verði náð. Reiknað er með að sjávarútvegur minnki losun vegna brennslu jarðefnaeldsneytis um 45% til 2030 miðað við notkunina 2005. Verulegur árangur hefur náðst í að minnka eldsneytisnotkun í sjávarútvegi síðan 1990. Eldsneytisbrennsla fiskiskipa minnkaði um 39% frá 1990 til 2017 og rúm 36% sé miðað við tímabilið 2005 til 2017. Spá Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í skýrslunni „Nýting auðlindar og umhverfisspor, des. 2017“ gerir ráð fyrir að olíunotkun íslenskra skipa verði 114.000 tonn árið 2030 miðað við aflasamsetningu árið 2016. Minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda frá fiskveiðum má einkum rekja til bættrar veiðistjórnunar og tækniframfara við fiskveiðar. Samdráttur í CO2 losun vegna fiskveiða hefur verið meiri en bein fækkun fiskiskipa myndi benda til. Frá 1999 til 2016 fækkaði skipum um 18% á meðan losun dróst saman um 50% (Hagstofa Íslands, 30. okt. 2018). Olíunotkun fiskiskipa Brims hf. (áður HB Grandi) minnkaði um tæplega 9,5% á milli áranna 2016 og 2017 (Samfélagsskýrsla HB Granda) og starfsmenn telja að enn séu möguleikar til að minnka eldsneytisnotkun fiskiskipa félagsins. www.sfs.is info@sfs.is http://www.sfs.is mailto:info@sfs.is Eins og þróun olíunotkunar fiskveiðiflotans hefur verði síðustu tvo áratugi er engin þörf á sérstökum opinberum aðgerðum til að minnka losun frá sjávarútvegi. Greinin er best til þess fallin að minnka losun gróðurhúsalofttegunda með bættri tækni og góðri stjórn fiskveiða. Loftslagsvæn tækni og orkuskipti við fiskveiðar eru skammt á veg komin á heimsvísu og alls er óljóst hvernig ESB og nágrannaþjóðir okkar munu bregðast við. Íslenskur sjávarútvegur er útflutningsgrein og í samkeppni þessar þjóðir. Eldsneytisframleiðsla á bíódísil er vel þekkt og verð á afurðinni (B99/B100) var um 13,6 % hærra í apríl s.l. en verð á dísilolíu í Bandaríkjunum (Clean Cities Alternative Fuel Price Report, April 2019). Orkuinnihald lífdísil er um 8,5% lægra en í jarðdísil. Afkoma reksturs lífdísilverksmiðju er mjög háð verðsveiflum á jarðolíueldsneyti sem hefur sveiflast verulega eins og alkunnugt er. Eins og fram hefur komið hefur þróun olíunotkunar í sjávarútvegi verið með þeim hætti að ekki er þörf á aðgerðaáætlun til minnka brennslu á dísilolíu til að ná markmiðum aðgerðaráætlunar ríkisstjórnarinnar. Líklegt er að spá SFS um notkun á jarðefnaeldsneyti gangi eftir og eins og staðan er í dag er óþarfi að grípa til sérstakra aðgerða vegna fiskveiða. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi leggjast gegn því að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt á Alþingi. Fyrir hönd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi Guðbergur Rúnarsson