Almannatryggingar

Umsögn í þingmáli 437 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 30.11.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 7 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 14 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Tryggingastofnun ríkisins Viðtakandi: Velferðar­nefnd Dagsetning: 13.01.2020 Gerð: Umsögn
Nefndasvið Alþingis nefndasvid@althingi.is 13. janúar 2020. Vísað er í tölvupóst dags. 9. desember 2019 þar sem Velferðarnefnd Alþingis óskar eftir umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (hálfur lífeyrir), 437. mál. Tryggingastofnun hefur ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið en hefur athugasemdir varðandi framkvæmdina verði lögin samþykkt. Tryggingastofnun bendir á eftirfarandi: Gera má ráð fyrir auknum fyrirspurnum varðandi hálfan ellilífeyri og að fleiri munu nýta sér úrræðið eftir lagabreytinguna. Það mun hafa þau áhrif hjá Tryggingastofnun að meiri mannafla þarf í svörun fyrirspurna, afgreiðslu umsókna og tekjueftirlit. Auk þess þarf að breyta tölvukerfum. Umsóknir um 50% ellilífeyri þarfnast meiri rannsóknarvinnu og leiðsagnar en almenn umsókn við 67 ára aldur. Því er nauðsynlegt að upplýsa umsækjendur um áhrif þess að taka 50% ellilífeyri. Jafnframt þarf að kalla eftir gögnum, t.a.m. launaseðlum eða staðfestingu frá launagreiðanda til þess að sannreyna að um 50% starf sé að ræða. Nauðsynlegt er að hafa sérstakt tekjueftirlit innan ársins þar sem sannreynt er hvort viðkomandi sé í hálfu starfi. Það kallar á aukna vinnu hjá sérfræðingum og keyrslur í tölvukerfum stofnunarinnar. Áætlaður kostnaður við lagabreytinguna hjá Tryggingastofnun: 1. Forritunarvinna í tölvukerfum, einskiptis aðgerð, 5 milljónir króna. Felst í breytingu á kerfum varðandi ný skilyrði við töku 50% ellilífeyris, t.a.m. takmörkun við 50% starfshlutfall og útfærslu á vélrænu tekjueftirliti. 2. Árlegur umsýslukostnaður, 18 milljónir króna. Sérfræðingar í réttindum ellilífeyris, tvö stöðugildi, sem er varanleg breyting vegna fleiri fyrirspurna, leiðsagnar, vinnu við umsóknir og reglulegt tekjueftirlit. Tryggingastofnun leggur einnig til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2020 en komi til framkvæmda 1. maí 2020 til að gefa stofnuninni svigrúm til að innleiða breytinguna í tölvukerfi sín og ferla. Tryggingastofnun Sólveig Hjaltadóttir framkvæmdastjóri Lífeyrissviðs mailto:nefndasvid@althingi.is