Fimm ára samgönguáætlun 2020–2024

Umsögn í þingmáli 434 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 30.11.2019 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 71 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 138 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Kristján L. Möller Viðtakandi: Umhverfis- og samgöngu­nefnd Dagsetning: 25.03.2020 Gerð: Umsögn
Umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis við tillögu til samgönguáætlunar áranna 2020-2024. Þingskjal 598 - 434. mál. Og tillögu til samgönguáætlunar 2020-2034. Þingskjal 599 - 435. mál Jarðgöng Siglufjörður - Fljót ❖ Siglufjarðarvegur frá Ketilási í Fljótum til Siglufjarðar hefur verið lokaður í 45 daga frá 10. des 2019 til 24. mars 2020 vegna snjóa og snjóflóðahættu. ❖ Ný jarðgöng frá Siglufirði yfir í Fljót leggja af þennan snjóþunga og erfiða vegkafla sem er um 25 km langur. ❖ Þessi jarðgöng stytta leiðina til Siglufjarðar um 15 km. Héðinsfjarðargöng - algjör bylting Héðinsfjarðargöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, sem opnuð voru fyrir umferð 2010, hafa svo sannarlega sannað gildi sitt og gjörbreytt lífsskilyrðum íbúa á svæðinu. Ein megin röksemdin fyrir framkvæmdunum á sínum tíma var sú að með göngunum tengdist Siglufjörður byggðum við Eyjafjörð á þann hátt að Eyjafjarðarsvæðið í heild yrði öflugra mótvægi við höfuðborgarsvæðið og byggð á miðju Norðurlandi myndi styrkjast verulega. Það hefur ótvírætt gengið eftir. Á sama tíma var nefnt á undirbúningstíma verksins fyrir 20 árum, að ávinningurinn af hringtengingu með ströndinni um Tröllaskaga yrði einnig verulegur fyrir sveitarfélög í Skagafirði, Siglufirði og Eyjafirði, ekki síst í ferðaþjónustu. Í umræðum kom skýrt fram að til framtíðar litið yrði vegur um jarðgöng áfram frá Siglufirði til Fljóta eini raunhæfi kosturinn fyrir slíka hringtengingu, ekki síst vegna ástands vegarins um Almenninga vestan Strákaganga. Siglufjarðarvegur frá Ketilási Siglufjarðarvegur frá Ketilási að bæjarmörkum Siglufjarðar er um 25 km langur og liggur um svokallaða Almenninga. Vegurinn var lagður í tengslum við opnun Strákaganga árið 1967 og er barn síns tíma, hlykkjóttur og bugðóttur. Alvarlegast er þó að vegurinn liggur á 7 km kafla um stóra landspildu sem er á hreyfingu og því fylgir mikið og stöðugt jarðsig á veginum sem oft kemur fram sem brot með skörpum brúnum þvert á yfirborð vegarins og skapar mikla hættu fyrir vegfarendur. Þetta ástand kallar á tíðar og dýrar viðgerðir. Þótt ekki séu miklar líkur á að vegurinn rofni varanlega með því að heilar spildur falli í sjó fram er þetta ástand viðvarandi og engar líkur á að því linni í framtíðinni. Sérfræðingar eru sammála um að allar hugsanlegar aðgerðir til úrbóta yrðu einungis bráðabirgðalausnir. Auk þessa er leiðin frá Fljótum að Strákagöngum mjög snjóþung, snjóflóðahætta á kafla, veðrasamt og vegurinn ekki góður miðað við nútíma kröfur. Þessi vegkafli er jafnframt mesti farartálminn á leiðinni til og frá Siglufirði og mjög oft ófær vegna snjóa. Eins og að framan greinir lokaðist leiðin 45 sinnum milli 10. desember 2019 og 24. mars 2020. Vegurinn út með ströndinni í Siglufirði og að Strákagöngum verður einnig mjög oft ófær vegna aur- og snjóflóða og er því mikill farartálmi eins og vegurinn um Almenninga. Loks má geta að þegar til Siglufjarðar er komið liggur innkeyrslan um þröngar og fjölmennar íbúagötur, þar sem hin mikla umferð skapar oft á tíðum mikla slysahættu. Við þessa götu er m.a. aðalinngangur fyrir Sundhöll og íþróttahús bæjarins og því oft þröng á þingi á götunni. Með nýjum jarðgöngum í vesturátt þarf því ekki lengur að huga að nýrri innkeyrslu til Siglufjarðar og við það sparast miklir fjármunir vegna þeirrar framkvæmdar. Með tilkomu Strákaganga árið 1967 bötnuðu vegasamgöngur til og frá Siglufirði til mikilla muna. Göngin eru hins vegar barn síns tíma og ljóst að með tilliti til öryggis vegfarenda og aukningar umferðar munu þau ekki uppfylla kröfur á næstu áratugum. Ný jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta Varanleg lausn á vegasamgöngum frá Siglufirði til vesturs verður ekki nema með tilkomu jarðganga. Það hefur m.a. komið fram í umræðum á Alþingi og einnig verið mat Vegagerðarinnar að það sé sá kostur sem stefna beri að. Slík göng myndu auk þess leysa framangreindan vanda við núverandi vegsamband og vafalítið styrkja og efla byggð í Fljótum og stytta vegalengdina milli Siglufjarðar og Ketiláss um 15 km. Rétt er að minna á ört vaxandi ferðaþjónustu á Deplum í Fljótum, og myndu þau göng sem hér er rætt um vafalaust styrkja og efla þá þjónustu. Varaleið fyrir Öxnadalsheiði Með tilkomu Héðinsfjarðarganga skapaðist ný og mikið notuð varaleið fyrir þjóðveg 1 þegar Öxnadalsheiði lokast og ný Siglufjarðar- göng, eins og hér er rætt um, myndu auka enn frekar notagildi þeirrar varaleiðar og auka umferðaröryggi fyrir vegfarendur. Vegagerðin hefur einkum hugað að tveimur jarðgangaleiðum. Annars vegar frá Hrauni í Fljótum til Skarðsdals, beint undir Siglufjarðarskarð, og hins vegar frá fjallinu Skælingi við norðanvert mynni Nautadals í Fljótum til Hólsdals innan við Siglufjörð. Síðari leiðin virðist í fljótu bragði vera ákjósanlegri, göng styttri (5,2 km) og ódýrari, styttri vegalengd til Siglufjarðar og aðstæður fyrir munna í Hólsdal betri en í Skarðsdal. Bréfritarar telja skynsamlegt að skoða báða þessa kosti og treysta Vegagerðinni mjög vel til þess að velja þann sem er betri og ódýrari. Þess má geta að jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta eru á aðalskipulagi beggja sveitarfélaganna, þ.e. sveitarfélagsins Skagafjarðar og Fjallabyggðar. Undirrituðum er kunnugt um að á næstunni mun Vegagerðin skila af sér skýrslu varðandi fyrstu úttekt á þessum jarðgöngum og hvetja því til áframhaldandi vinnu við greiningu á byggðalegum, samfélagslegum og umferðaröryggislegum þáttum þessa verkefnis. Við undirbúning næstu jarðgangaáætlunar er óhjákvæmilegt annað en að líta til mikilvægis framangreindra jarðganga og raða þeim framarlega í framkvæmdaröð jarðganga á Íslandi. Með umsögn þessari vilja undirritaðir óska eftir því og hvetja háttvirta umhverfis- og samgöngunefnd sem og Alþingi til þess að setja jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta á stefnumarkandi og endurskoðaða samgönguáætlun áranna 2020-2034 og fjárveitingu til að hefja allar nauðsynlegar undirbúningsrannsóknir sem allra fyrst á aðgerðaáætlun 2020-2024. Siglufirði 25. mars 2020. Kristján L. Möller fyrrverandi bæjarfulltrúi , alþingismaður og ráðherra. Ólafur H. Kárason fyrrverandi bæjarfulltrúi og byggingam. Siglufirði Íbúa og átthagafélag Fljóta. Kristín Sigurrós Einarsdóttir, Stefanía Hjördís Leifsdóttir, Sjöfn Guðmundsdóttir, Örn Þórarinsson og Sigtryggur Kristjánsson Magnús Kristjánsson forstjóri Orkusölunnar v. Skeiðsfossvirkjunar Fljótum. Róbert Guðfinnsson fjárfestir og athafnamaður Siglufirði. Lára Stefánsdóttir skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga Ólafsfirði. Ólafur Helgi Marteinsson framkvæmdastjóri Ramma hf. Sigríður Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri Primex ehf Siglufirði. Haukur Sigmarsson framkvæmdastjóri Deplar farm Fljótum. Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Selvíkur og Hótelstjóri Sigló Hótels. Hilmar Janusson framkvæmdastjóri Genis Siglufirði. Ragnar Kristjánsson framkvæmdastjóri FMS ( Fiskmarkaður ) á Siglufirði, Hafnarfirði. Ólöf Ýrr Atladóttir framkvæmdastjóri og eigandi Sóta Lodge Sólgörðum Fljótum. Freyr Steinar Gunnlaugsson og Arndís Erla Jónsdóttir útgerðaaðilar BG nes ehf. Steingrímur Óli Hákonarson stöðvastjóri FMS Siglufirði. Jón Valgeir Baldursson JVB pípulagnir ehf Ólafsfirði. Hálfdán Sveinsson eigandi Hótel Sigluness. Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri SR vélaverkstæðis og SR byggingavörur Siglufirði. Ásgeir Logi Ásgeirsson framkvæmdastjóri Norlandia Ólafsfirði. Jakob Örn Kárason bakarameistari -Aðalbakarríið Siglufirði. Halldór Gunnar Hálfdánsson bóndi og skólabílstjóri Fljótum. Ida Semey framkvæmdastjóri Kaffi Klöru Ólafsfirði. Árni Helgason verktaki Ólafsfirði. Arnþrúður Heimisdóttir og Þorlákur Sigurbjörnsdóttir ferðaþjónustubændur Langhúsum í Fljótum. Kristján Hauksson rekstrarstjóri starfsstöðvar Ísfells Ólafsfirði. Aldís Ólöf Júlíusdóttir verslunarstjóri Kjörbúðarinnar Siglufirði. Ásta Júlía Kristjánsdóttir apotekari Siglufjarðarar Apóteki. Brynjar Harðarson byggingameistari L7 verktakar Siglufirði. Þorsteinn Jóhannsson framkvæmdastjóri Byggingafélagsins Berg ehf. Hildur Gyða Ríkharðsdóttir rekstraraðili Hallarinnar Ólafsfirði. Aðalsteinn Þór Arnarsson rafmagnsiðnfræðingur og rafvirkjameistari Raffó ehf. Siglufirði. Ólafur Baldursson mælaumsjónarmaður Rarik Siglufirði. Ómar Óskarsson pípulagnameistari -Sigló lagnir ehf. Aðalheiður S. Eysteinsdóttir listamaður og eigandi Alþýðuhússins á Siglufirði. Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður Torgið restaurant Siglufirði. Sigursteinn Magnússon framkvæmdastjóri Múlatinds Ólafsfirði. Sigmar Bech eigandi og framkvæmdastjóri Bech Hospitality ehf Sigluf. Albert Gunnlaugsson Tunnan útgáfufélag ehf. Ásgrímur Pálmason framkvæmdastjóri og Gauti Már Rúnarsson vélsmíðameistari Vélsmiðju Ólafsfjarðar. Guðjón Ólafsson HV3 leigufélag Siglufirði Sólrún Júlíusdóttir bóndi Helgustöðum í Fljótum og útibússtjóri KS á Ketilási í Fljótum. Mark Duffield og Þorgeir Bjarnason Málningarverkstæðið ehf Siglufirði Jón Helgi Ingimarsson vörubílstjóri og umboðsmaður Samskipa á Siglufirði Andrés Stefánsson rafverktaki Siglufirði. Þórir Þórisson Gistihúsaeigandi og fyrrv bæjarstjóri Fjallabyggðar. Rut Hilmarsdóttir verslunareigandi Sigló sport. Guðni Sigtryggsson framkvæmdastjóri JE vélaverkstæðis Siglufirði. Jón Andrjes Hinriksson umboðsmaður Olís Siglufirði. Björn Arason Smári ehf Ólafsfirði. Hulda Jakobína Friðgeirsdóttir og Gestur Hansson Top Mountaineering ehf - ferðaþjónustuskipuleggjendur Siglufirði. Egill Rögnvaldsson rekstraraðili skíðasvæðis og golfvallar Siglufirði. Fríða Björk Gylfadóttir framkvæmdastjóri Fríða súkkulaði kaffihús. Valþór Stefánsson og Andrés Magnúson heilsugæslulæknar HSN í Fjallabyggð Sveinn Zóphaníasson Bás ehf. Siglufirði. Anita Elefsen safnstjóri Síldarminjasafns Íslands. Ingvi Óskarsson verktaki Ólafsfirði. Gunnsteinn Ólafsson formaður Félags um Þjóðlagasetur Sr Bjarna Þorsteinssonar og listrænn stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði. Þórarinn Hannesson forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands Siglufirði. Gunnar Smári Helgason og Kristín Sigurjónsdóttir Trölli.is Siglufirði. María Þórunn Númadóttir bókhaldsþjónustan Vex viðskipti Siglufirði. Jón Hrólfur Baldursson Hrímnir Hár og skegg og Kveldúlfur Bjór & Blus Árni Heiðar Bjarnason Siglóvélar Siglufirði. Reynir Karlsson útgerðamaður Siglufirði. Jón Garðar Steingrímsson framkvæmdastjóri framleiðslu hjá Genís og formaður Skíðafélags Siglufjarðar - Skíðaborgar. Jóhann Már Sigurbjörnsson innkaupa og birgðastjóri hjá Genís og form Golfklúbbs Siglufjarðar. Jónas Skúlason form Siglfirðingafélagsins á Höfuðborgarsvæðinu. Valgeir Tómas Sigurðsson ferðaþjónustuaðili og athafnamaður á eftirlaunum Siglufirði Fylgiskjöl: Kort af Tröllaskaga með hugsanlegum jarðgangaleiðum svo og skýringakort um staðhætti Strákagöng 1967 _ g r - iw ' w A ' y \ Ketilás ■ V H f l i \ ^anf* n M J V W . J t S L l Afrit sent forsætis, fjármála og samgönguráðherra svo og öllum alþingismönnum Norðausturkjördæmis. Ath: Vegna Covid 19 faraldurs hefur ekki verið gengið á milli manna til að afla undirskrifta, en allir ofantaldir aðilar hafa samþykkt veru sína á listanum á rafrænan hátt til umsjónarmanns þessarar umsagnar- Kristjáns L Möller.