Leiga skráningarskyldra ökutækja

Umsögn í þingmáli 386 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 18.11.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 8 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 7 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Félag íslenskra bifreiðaeigenda Viðtakandi: Atvinnu­vega­nefnd Dagsetning: 16.01.2020 Gerð: Umsögn
Félag íslenskra bifreiðaeigenda Frumvarp til laga um breytingu á lögum um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015 (stjórnvaldssektir) Fulltrúar FÍB þakka fyrir góðan fund með atvinnuveganefnd Alþingis þriðjudaginn 14. janúar 2020. Hér undir eru nokkrir punktar og ábendingar frá FÍB sem farið var yfir á fundinum. Reykjavík, 16. janúar 2020 • FÍB fagnar allri viðleitni löggjafar- og framkvæmdavaldsins til að bregðast við svindli og svikum í tengslum við kílómetrastöðu ökutækja. Það er jákvætt að setja inn í lög nr. 65/2015 að óheimilt sé að breyta kílómetrastöðu akstursmælis skráningarskylds ökutækis. • Verði þetta frumvarp að lögum er eðlilegt að upplýsingar um álagningu stjórnvaldssekta séu aðgengilegar almenningi. Varðandi mögulega innheimtu stjórnvaldssekta þá þarf að tryggja að sektin aukist í samræmi við umfang svika. Það getur ekki verið sama sekt fyrir það að færa niður akstursmæli í einum bíl eða tugum bíla. Það væri lítill fælingarmáttur í því að leggja aðeins 2.000.000 kr. stjórnvaldssekt á fyrirtæki sem yrðu uppvís að því að fremja sambærileg brot og Procar. Ávinningurinn af brotinu væri margfaldur umfram stjórnvldssektina. • FÍB furðar sig á því að bílaleigan Procar hafi ekki verið svipt leyfi til bílaleigureksturs eftir að hafa gengist við því í febrúar 2019 að hafa fært niður akstursmæla á annað hundrað ökutækja (skv. yfirlýsingu frá Procar en fram hafa komið fleiri ökutæki síðan með svikna km-stöðu) . Þetta gerðist í kjölfar uppljóstrunar í fréttakýringaþættinum Kveik á RÚV. • Undir liðnum meginefni frumvarpsins (breyting á lögum nr. 65/2005) á bls. 3 er sérstaklega fjallað um að niðurfelling leyfis sé afar íþyngjandi aðgerð enda sé leyfið undirstaða atvinnureksturs og varði atvinnufrelsi og eignarétt fólks. Þessi texti er settur í samhengi við heimildir til að leggja stjórnvaldssektir á leyfishafa sem hefur orðið uppvís að því að breyta kílómetrastöðu bílaleigubíls. Þessi nálgun ráðuneytisins og tengingin við að leyfissvipting hjá bílaleigunni Procar væri sérlega íþyngjandi er í besta falli neyðarleg í ljósi þess skaða sem neytendur og samkeppnisaðilar hafa orðið fyrir vegna lögbrota forvígismanna Procar. • Procar svindlið hefur dregið úr trausti neytenda í viðskiptum með notuð ökutæki og skaðað neytendur og fyrirtæki fjárhagslega. Á markaðnum eru ökutæki með skráninguna ,,bílaleiga" í eigenda- eða umráðaferli mun lakari og verðminni vara en áður. Fjármögnunarfyrirtæki lána ekki í bílum sem hafa verið í eigu Procar og bílaumboðin hafna þeim í uppítöku. • Fram hefur komið að bílaleigubílar eru óvenju hátt hlutfall af bílaflota landsmanna. Það eru um að 77 bílaleigubílar á hverja 1.000 íbúa hér á landi á móti 4 -6 bílaleigubílum á hverja 1.000 íbúa á hinum Norðurlöndunum. Hátt hlutfall bílaleigubíla í endursölu notaðra ökutækja á Íslandi eykur á mikilvægi aðgerða og aðhalds opinberra aðila. Það er nauðsynlegt að halda opinbera skrá um ökutæki sem sannanlega hafa niðurfærða kílómetramæla. Rannsaka þarf hvort slík vinnubrögð hafi verið stunduð víðar en hjá Procar. Það þarf að ná sem best utan um umfang svikanna og aðstoða fólk við að leita réttar síns. • Niðurfærsla akstursmælis eða niðurskrúfun km-stöðu ökutækis hefur í flestum tilvikum þann tilgang að auka söluandvirði bílsins með sviksamlegu inngripi. Blekkingin er einnig söluhvati þar Félag íslenskra bifreiðaeigenda sem akstursnotkun (kílómetrastaða á akstursmæli) vegur mjög þungt varðandi val neytenda á bíl. Niðurfærsla akstursmælis eykur verðmæti og eftirspurn eftir ökutæki á markaði. Blekkingin fjölgar mögulegum kaupendum. Um er að ræða skjalafals og fjárdrátt. • Niðurskrúfun getur haft alvarleg áhrif á öryggi í akstri þar sem ökutækið er meira slitið en kaupandi ætlaði. Eigandi getur ekki framfylgt reglubundnu viðhaldi öryggisbúnaðar í samræmi við leiðbeiningar framleiðenda. Þetta eykur hættu á tjóni og slysum í umferðinni. • Kaupandi niðurskrúfaðs ökutækis getur orðið fyrir óvæntum skaða og útgjöldum vegna viðhaldsútgjalda sem samræmast ekki uppgefinni akstursstöðu þar sem átt hefur verið við km- stöðu akstursmælis. Í eigendahandbók bíls má finna upplýsingar um viðhald og eftirlit ökutækis miðað við akstursnotkun. Niðurfærsla akstursnotkunar blekkir og takmarkar vitneskju neytanda um raunverulegt ástand bíls þar með talið öryggisbúnaðar. • Ísland er aðili að Evróputilskipun nr. 2014/45/ESB og innleiddi tilskipunina með reglugerð nr. 1087/2018. Í reglugerðinni er m.a. ákvæði um mun víðtækara eftirliti skoðunarstöðva með kílómetrastöðu ökutækja sem Samgöngustofa á að hafa umsjón með. Í tilskipuninni segir m.a. að röng kílómetrastaða teljist meiri háttar annmarki við mat á aksturshæfni ökutækis. Einnig er ákvæði um að þeir sem eigi við kílómetramæla ökutækja sæti refsingu. Þetta þarf að innleiða í íslenskan rétt. Það þarf að tryggja að frávik í akstursstöðu sé fært inn í ökutækjaskrá. • Vandamálið varðandi niðurfærslu akstursmæla snertir ekki bara bílaleigubíla heldur alla bíla. Skerpa þarf á reglum varðandi niðurfærslu km-mæla bíla. Setja í lög ákvæði sem taka á mögulegum inngripum í akstursstöðu ökutækja og niðurskrúfun ökumæla. Sjá m.a.: http://www.europarl.europa.eu/news/en/press-room/20180524IPR04221/car-clocking-meps- call-for-new-legislation-to-combat-odometer-fraud • Bílaleigubíla ætti að skoða oftar en hefðbundna fjölskyldubíla. Það er öryggis- og neytendamál. Bílaleigubílar fara fyrst í aðalskoðun á fjórða ári eftir að þeir eru skráðir, að skráningarárinu frátöldu. Síðan skal skoða bílaleigubíla líkt og aðrar einkabifreiðir annað hvert ár í tvö næstu skiptin og árlega eftir það. • Æskilegt væri að koma á samstarfi á markaði með aðkomu samtaka bíleigenda sem neytenda, bílgreinarinnar, opinberra aðila, skoðunarstöðva o.fl. varðandi skráningu á km-stöðu m.m. inn í miðlægan gagnagrunn. Belgísk fyrirmynd: https://www.car-pass.be/en Virðingarfyllst Félaga íslenskra bifreiðaeigenda Runólfur Ólafsson Framkvæmdastjóri http://www.europarl.europa.eu/news/en/press-room/20180524IPR04221/car-clocking-meps-call-for-new-legislation-to-combat-odometer-fraud http://www.europarl.europa.eu/news/en/press-room/20180524IPR04221/car-clocking-meps-call-for-new-legislation-to-combat-odometer-fraud https://www.car-pass.be/en