Breyting á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar

Umsögn í þingmáli 332 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 01.11.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 8 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 26 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samtök ferða­þjónustunnar Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 03.12.2019 Gerð: Umsögn
SAF Nefndasvið Alþingis b.t. efnahags- og viðskiptanefndar Austurstræti 8-10 101 Reykjavík nefndasvid@althingi.is Efni: Umsögn SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar (einföldun regluverks). Hinn 1. nóvember sl. lagði ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fram á Alþingi frumvarp til laga til laga um breytingu á ýmsum lögum varðandi leyfisveitingar. Frumvarpinu var vísað til efnahags- og viðskiptanefndar hinn 6. nóvember sl. og með tölvupósti, dags. 11. nóvember sl., óskaði nefndin eftir umsögn SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarpið. Beðist er velvirðingar á að umsögnin berst nefndinni að loknum umsagnarfresti. Afstaða SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar er sú að þau áform sem endurspeglast í frumvarpinu séu í meginatriðum mjög jákvæð. Lýsa samtökin stuðningi við áform ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um einföldun regluverks. Að framangreindu sögðu komast SAF þó ekki hjá því að lýsa andstöðu við breytingar sem til stendur að leggja til á ákvæðum IV. kafla laga um verslunaratvinnu, nr. 28/1998. Í kaflanum er kveðið á um sölu notaðra ökutækja en í frumvarpinu er lagt til að löggilding bifreiðasala verði afnumin. Á vettvangi samtakanna hefur verið lýst verulegum áhyggjum af afnámi löggildingar bifreiðasala enda telja mörg aðildarfyrirtækja samtakanna nauðsynlegt að traust ríki um viðskipti með notuð ökutæki. Hafa verður í huga að veruleg verðmæti eru jafnan undir í slíkum viðskiptum og getur óvissa og óöryggi bæði aukið umstang og viðskiptakostnað. Að mati samtakanna er bæði kostum gildandi fyrirkomulags og helstu þáttum sem valdið geta óöryggi lýst nokkuð vel í umsögn Bílgreinasambandsins og Félags íslenskra bifreiðaeigenda um frumvarpið. Samandregið fagna samtökin frumvarpinu og framtaki ráðherra við einföldun regluverks en lýsa þó andstöðu við afnám löggildingar bifreiðasala. Reykjavík, 3. desember 2019 F.h. SAF - Samtaka ferðaþjónustunnar Benedikt S. Benediktsson mailto:nefndasvid@althingi.is