Húsnæðis- og mannvirkja­stofnun

Umsögn í þingmáli 319 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 01.11.2019 Tegund þingmáls: Úrvinnsla Fjöldi umsagna við þingmál: 30 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 94 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Verkfræðinga­félag Íslands Viðtakandi: Velferðar­nefnd Dagsetning: 04.12.2019 Gerð: Umsögn
Nefndasvið Alþingis Kirkjustræti 101 Reykjavík Efni: Umsögn Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ) um frumvarp til laga um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Með frumvarpinu er lagt til að Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun verði lagðar niður og nýrri stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði falið að annast framkvæmd húsnæðis- og mannvirkjamála. Við svo veigamiklar breytingar á mikilvægri starfsemi vill Verkfræðingafélag Íslands koma eftirfarandi á framfæri. Verkfræðingafélag Íslands telur mikilvægt og eðlilegt að staða forstjóra nýrrar stofnunar verði auglýst. Jafnframt að haft verði að leiðarljósi að viðkomandi hafi tæknilega og faglega þekkingu á sviði mannvirkjagerðar. Mikilvægt er að einstaklingur sem á meðal annars að leiða uppbyggingu, eftirlit og nýsköpun á húsnæðismarkaði hafi tæknimenntun, trausta fagþekkingu og reynslu. Starfsemi Mannvirkjastofnunar er fyrst og fremst á þremur meginsviðum: Rafmagnsöryggi, brunavarnir og byggingarmál. Einnig má nefna markaðseftirlit með ákveðnum vörum á þessum þremur sviðum. Mannvirkjastofnun hefur því staðið fyrir öflugu opinberu eftirliti með öryggismálum, en í frumarpinu sem hér er til umsagnar virðist lítil áhersla á þetta meginstarf stofnunarinnar, en aðaláherslan lögð á byggingarmál. Til dæmis er rafmagnsöryggi ekki nefnt í 1., 2. og 3. gr. frumvarpsins. VFÍ hvetur til þess að nýrri stofnun verði falið að móta skýra sýn hvað þessi mikilvægu öryggismál varðar. Mannvirkjastofnun og málaflokkar hennar fluttust til félagsmálaráðuneytis um síðustu áramót án þess að fjármagn eða þekking flyttist með. Ljóst er að félagsmálaráðuneytið þarf viðbótarfjármagn ef standa skal vel að stefnumálum er tengjast málaflokkum Mannvirkjastofnunar. Eins væri æskilegt að ný stofnun fengi aukið fjármagn til að standa á öflugan hátt að opinberu eftirliti á sviði öryggismála, byggingarmála og þróunar á rafrænni þjónustu sem nauðsynleg er í þessum málaflokkum. Í nafni málaflokkanna eru innheimt ýmis gjöld, þá helst byggingaröryggisgjald (í gegnum tryggingafélögin) og rafmagnsöryggisgjald (frá framleiðendum og seljendum rafmagns). Innheimt gjöld eru nærri einn milljarður króna á ári en einungis rúmlega helmingur þess skilar sér á fjárlögum til málaflokka Mannvirkjastofnunar. Ef tilgangur með nýrri stofnun er að efla málaflokkana, ætti viðunandi fjármagn að fylgja með, bæði til nýrrar stofnunar og til félagsmálaráðuneytis. Miðað við áherslur í kynningu á frumvarpinu telur VFÍ ákveðna hættu á að fagleg þekking og aðhald hvað varðar gæði innan byggingariðnaðarins muni verða sett í annað sæti í hinni nýju stofnun. Í því sambandi vill félagið benda á að í frumvarpinu er mjög lauslega tekið á framlögum ríkisins til byggingarrannsókna og mikilvægi þeirra. Virðist áherslan vera á markaðsrannsóknir en ekki rannsóknir á til dæmis byggingargöllum og öðrum þáttum sem stuðlað gætu að meiri gæðum og betri vinnubrögðum í íslenskum byggingariðnaði. Reykjavík, 4. desember 2019. Stjórn Verkfræðingafélags Íslands.