Lax- og silungsveiði

Umsögn í þingmáli 251 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 16.10.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 13 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 10 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Víðir Smári Petersen Viðtakandi: Atvinnu­vega­nefnd Dagsetning: 07.11.2019 Gerð: Umsögn
Atvinnuveganefnd Alþingis Alþingi við Austurvöll 150 Reykjavík Reykjavík, 7. nóvember 2019 Sent rafrænt með tölvupósti á nefndasvid@althingi.is Efni: Athugasemdir við 251. mál - nýtt frumvarp um breytingu á lax- og silungsveiðilögum (minnihlutavernd) Hinn 24. október sl. mælti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir frumvarpi sínu til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði (þingskjal 272 - 251. mál). Einn megintilgangur frumvarpsins er að tryggja betur minnihlutavernd í veiðifélögum. Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er fyrirhugað að breyta fyrirkomulagi atkvæðisréttar í veiðifélögum á þann hátt að sama aðila eða tengdum aðila sé óheimilt að hafa til ráðstöfunar meira en 30% atkvæða í veiðifélagi þar sem sjö eða fleiri lögbýli njóta atkvæðisréttar. Skal atkvæðavægi eða vægi arðskráreininga annarra félagsmanna aukast við þessar aðstæður að réttri tiltölu. Að mínu mati er afar mikilvægt að tryggja minnihlutavernd í veiðifélögum og fagna ég frumkvæði ráðherra að þessu leyti. Ég geri þó eftirfarandi athugasemdir við efni frumvarpsins: II. Að mínu mati stuðlar frumvarpið að minnihlutaræðien ekki minnihlutavemd. Til þess að útskýra þetta nánar má taka dæmi af veiðifélagi þar sem eru tuttugu atkvæði. A fer með 17 atkvæði og B, C og D fara hver með sitt atkvæðið. Undir venjulegum kringumstæðum ætti atkvæðisréttur A að vera 85% (17/20) en hinir ættu að fara samtals með 15% (3/20). Verði frumvarpið að lögum mun A fara með 30% atkvæðisréttarins en B, C og D með samtals 70% (hver um sig færi með um 23% atkvæðisréttarins). Setja má fram enn öfgafyllri dæmi, en þau yrðu vart raunhæf. Þegar talað er um minnihlutavernd er ekki átt við að vikið sé frá þeirri reglu lýðræðisfyrirkomulags að meirihlutinn ráði, heldur að í tilteknum (og yfirleitt mikilvægum) atriðum þurfi einnig aðkomu minnihlutans, t.d. þannig að aukinn meirihluti þurfi að samþykkja ákveðnar ráðstafanir eða að minnihluti geti tekið ákvarðanir og bundið félagið. Í frumvarpi ráðherra er þessu aftur á móti snúið á hvolf, þar sem meirihlutinn ræður aldrei. Gildir þetta án tillits til þess hvort um er að ræða minniháttar eða meiriháttar ákvarðanir. Í dæminu að framan fer A því eingöngu með 30% atkvæðisréttar þegar teknar eru hvers kyns minniháttar og venjulegar ákvarðanir, t.d. um að kaupa ný rúmföt í veiðihúsið, fjölga seiðum um 500 eða stytta veiðitíma um hálftíma yfir daginn. III. Þessu til viðbótar tel ég að löggjafinn eigi að nýta tækifærið og endurskoða atkvæðisrétt í veiðifélögum frá grunni. Um er að ræða kerfi sem á rætur að rekja til ársins 1929 og er að 1 mailto:nefndasvid@althingi.is einhverju leyti barn síns tíma. Þannig fylgir aðeins eitt atkvæði hverri jörð sem var lögbýli árið 1976, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006. Þetta þýðir að landeigandi getur verið aðili að veiðifélagi án þess að eiga þar atkvæðisrétt, t.d. ef um er að ræða land sem ekki er lögbýli eða ef landið fékk lögbýlisrétt eftir árið 1976. Löggjafinn gerði sér fyllilega grein fyrir því þegar lögin frá 2006 voru sett að fyrirkomulag atkvæðisréttar í veiðifélögum væri umdeilanlegt. Sagði m.a. í athugasemdum með 40. gr. frumvarps þess er varð að lögunum [áhersla undirritaðs]: „Er ljóst að um þetta atriði [þ.e. atkvæðisrétt í veiðifélögum] hefur löngum verið deilt og verður án efa áfram. Við mótun þessarar reglu frumvarpsins er það fyrrnefnda markmið haft að leiðarljósi að tryggja áframhaldandi sjálfstæði og rekstrargrundvöll þeirra jarða sem byggja afkomu sína, að öllu leyti eða að hluta, á veiðinytjum. Ber meginregla 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar þess merki þar sem kveðið er á um þá óbreyttu tilhögun að eitt atkvæði fylgir hverri jörð sem veiðirétt á. Allt að einu er ljóst, og verður ekki fram hjá þeirri staðreynd litið, að mjög örar breytingar verða nú á eignarhaldi fasteigna utan þéttbýlis, sem og á atvinnu- og samfélagsháttum. Er á því skilningur að tryggja verði með einum eða öðrum hætti vernd þeirra aðila sem eiga veiðirétt í skilningi II. kafla laganna og teljast félagsmenn í veiðifélagi, sbr. fyrirmæli 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins, en fullnægja ekki því skilyrði að fara með atkvæðisrétt fyrir jörð í skilningi 1. mgr. frumvarpsgreinar þessarar.“ Veiðifélög geta tekið afar íþyngjandi ákvarðanir, t.d. um að friða veiðivatn fyrir veiði eða leigja vatnið út til margra ára. Félögin geta þannig í ákveðnum tilvikum ráðskast með eignarréttindi manna án þess að þeir hafi aðkomu að ákvarðanatöku um það efni. Ef á reyndi fyrir dómstólum tel ég líkur á því að fyrirkomulagið teldist vera í andstöðu við þau meðalhófssjónarmið sem verða að búa að baki öllum takmörkunum á eignarrétti manna. Verður í þessu sambandi sérstaklega að hafa í huga að skylduaðild er að veiðifélögum, en það felur í sér undantekningu frá 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um neikvætt félagafrelsi. Tel ég því að allir sem eru aðilar að veiðifélögum verði að hafa þar atkvæðisrétt. IV. Ef ákveðið verður að ráðast í heildarendurskoðun á fyrirkomulagi atkvæðisréttar mætti einnig endurskoða þá reglu að aðeins eitt atkvæði fylgi hverjum þeim sem fer með atkvæðisrétt. Mætti í því sambandi velta því upp hvort ekki væri eðlilegra að atkvæðisréttur færi að meginreglu eftir arðskrá. Af 41. gr. laga nr. 61/2006 og 7. gr. reglugerðar nr. 403/2012 um arðskrár veiðifélaga er ljóst að tilgangur arðskrár er að leggja með mælanlegum hætti mat á vægi hverrar jarðar við verðmætasköpun veiðivatnsins. Segir sérstaklega í athugasemdum með 41. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 61/2006 að arðskrá eigi að „endurspegla eignarhlutföll einstakra fasteigna/veiðiréttarhafa í þessari auðlind viðkomandi veiðivatns.“ Samkvæmt þessu má líkja arðskrá við hluthafaskrá í hlutafélagi eða hlutfallstölur í fjöleignarhúsum. Færa má rök fyrir því að eðlilegt væri að atkvæðisréttur færi eftir „eignarhlutföllum“ í arðskrá, enda getur verið rétt að þeir sem leggja mest til verðmætasköpunar veiðivatnsins njóti þess ekki aðeins í formi hærri arðgreiðslna heldur fái þeir einnig sömu hlutdeild í ákvarðanatöku og stefnumótun innan veiðifélagsins. V. Samkvæmt framansögðu er þetta mín tillaga að fyrirkomulagi atkvæðisréttar í veiðifélögum: 1. Allir sem eiga aðild að veiðifélagi eiga að njóta þar atkvæðisréttar. 2 2. Meirihluti á að ráða að meginreglu en lögfesta mætti fjölbreyttar undanþágur frá þeirri reglu til að tryggja minnihlutavernd. Fyrirmyndir að slíku eru t.d. í 41. og 42. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. 3. Jafnframt ætti löggjafinn að skoða hvort rétt væri að atkvæðisréttur færi að meginreglu eftir arðskrárhlutfalli. Lögfesta mætti undantekningar frá þeirri reglu. Virðingarfyllst, Víðir Smári Petersen, lögmaður (hrl.) 3