Lax- og silungsveiði

Umsögn í þingmáli 251 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 16.10.2019 Tegund þingmáls: Lax- Fjöldi umsagna við þingmál: 6 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 10 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Haf­rann­sókna­stofnun - rann­sókna- og ­ráðgjafar­stofnun hafs og vatna Viðtakandi: Atvinnu­vega­nefnd Dagsetning: 07.11.2019 Gerð: Umsögn
HAFRANNSÓKNASTOFNUN Rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna Nefndarsvið Alþingis Hildur Edwald, skjalaritari Skrifstofa Alþingis, nefndarsvið Austurstræti 8-10 150 Reykjavík Reykjavík 06.11.2019 Efni: Umsögn Hafrannsóknastofnunar um frumvarp um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði nr. 61/2006, með síðari breytingum (minnihlutavernd, gerð arðskráa o.fl.), 251. mál. Frumvarp til laga 1. gr. Hafrannsóknastofnun gerir ekki athugasemdir við breytingu á vægi atkvæða í veiðifélögum í framkomnu frumvarpi. Um er að ræða breytingar sem fela í sér vægi atkvæða í veiðifélögum með það að markmiði að tryggja vægi minnihluta gegn meirihluta atkvæða sem safnað er á eina hendi með kaupum á fjölda jarða. Hafrannsóknastofnun vill undirstrika markmið laga um um lax- og silungsveiði silungsveiði (lög nr. 61/2008 með síðari breytingum): „markmið laga þessara er að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra". Það á ekki síst við um sjálfbæra nýtingu þar sem allir veiðiréttarhafar eiga fiskstofn sameiginlega og bera þar með sameiginlega ábyrgð á að nýtingin hans sé sjálfbær. Það er m.a. undirstaða undir ákvæðum um skylduaðild að veiðifélögum þar sem sameiginleg nýtingar- og verndarstefna er nauðsynleg. Mikilvægi sjálfbærni er ekki síst mikilvæg í ljósi þess að laxastofnar við N-Atlantshafa hafa átt undir högg að sækja og dánartala þeirra á beitarsvæðum í sjó hefur hækkað. Almennt má telja að lagasetningar um lax- og silungsveiði hér á landi hafi verið framsæknar og orðið til þess að gera veiðiauðlindina afar verðmæta. Veiðinýting er gjaldeyrisskapandi með tilkomu erlendra veiðimanna og veitir fé frá þéttbýli til dreifbýlis og er ein af undurstöðum byggðar á mörgum landsvæðum. Frumvarp til laga 2. gr. Greinin snýr að tilnefningum til skipunar matsnefndar. Matsnefnd metur hlutdeild hvers lögbýlis í sameiginlegri auðlind. Við það mat ber að taka tillit til (skv. 41. gr.) a) aðstöðu til netaveiði og stangveiði. b) landlengdar að veiðivatni, vatnsmagns og stærðar vatnsbotns. c) hrygningar- og uppeldisskilyrða fisks. Stjórn eða félagsmaður í veiðifélagi getur óskað eftir endurskoðun arðskrár á átta ára fresti. Taka verður fram að veiðifélög geta sjálf gert/látið gera arðskrá fyrir viðkomandi veiðifélag án aðkomu matsnefndar og fer samþykkt hennar eftir lögum. Arðskrá hefur verið gerð fyrir flest veiðifélög landsins og verið endurskoðuð margsinnis hjá mörgum þeirra. Þekking á þeim þáttum arðskrár sem mest vægi hafa við arðskrárgerð hefur verið að aukast. Leitað hefur verið í auknum mæli til Hafrannsóknastofnunar vegna mats á hrygningar- og uppeldisskilyrðum og skiptingu veiði á einstakar veiðijarðir. Aðstaða til veiða byggist á veiðiskráningu sem er hér á landi með því besta sem gerist hjá laxveiðiþjóðum. Þar er um að ræða skráningar í veiðibækur þar sem í flestum tilfellum er um einstaklingsskráningar fiska að ræða en veiði er til skráð í rafrænan gagnagrunn frá árinu 1974, sem er í umsjón Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu. Landlengd er aðgengileg hnitsett út frá landamerkjum og stafrænum kortagrunnum og mælingar eru nú bæði auðveldari og nákvæmari en áður fyrr. Hrygningar og uppeldisskilyrði hafa á síðari árum byggst á því hversu heppileg botngerð er fyrir hvert lífsskeið fiska. Þar skiptir samsetning botnefna (kornastærð) og straumlag megin máli. Botngerðarmöt/búsvæðamöt hafa verið unninn eftir fyrirfram ákveðnu verklagi (Þórólfur Antonsson, 2000). Það verklag er óháð landamerkjum einstakra jarða. Augljóst er að ef breytingar eru gerðar á vægi einstakra þátta í arðskrármati getur hlutdeild breyst og flust til á milli jarða. Í einhverjum tilfellum er um eðlilegar breytingar á vægi að ræða. Um umtalsverðar upphæðir getur verið að ræða hvort sem um er að ræða arð af veiði eða hlutdeild í kostnaði veiðifélaga. Ef breytingar eru gerðar á vægi þátta skiptir miklu máli að þær séu rökstuddar og byggðar á bestu fáanlegri þekkingu hvers tíma. Þar skiptir máli að fyrir liggi þekking á líffræði þeirra tegunda sem um ræðir og þær kröfur sem þær gera til umhverfisins. Ljóst er að engin seiði verða til án hrygningar- og uppeldisskilyrða og engin veiði án veiðistaða. Þekking á búsvæðum laxfiska og framleiðslugetu þeirra er nauðsynleg til meta uppeldisskilyrði í veiðiám og hefur Hafrannsóknastofnun þróað matskerfi sem almennt hefur verið notað við slíka vinnu undanfarin 20 ár. Hæð yfir sjó hefur áhrif á hitastig og framleiðslu svæða. Hliðarár geta verið mis frjósamar eftir uppruna þeirra, næringarefnainnihaldi og botngerð. Þar getur verið uppeldi en engin veiði svo dæmi séu tekin. Vænta má að þekking á búsvæðum m.t.t. mikilvægi fiskframleiðslu komi til með að aukast á komandi árum. Vinnu við gerð arðskrármata hefur fylgt umtalsverður kostnaður sem að hluta skýrist af skyldum sem kveðið er á um í upplýsingalögum. Árið 2015 skilaði starfshópur sem skipaður var til að m.a. skoða þann mikla kostnað sem fylgdi endurmati á arðskrá. Í áliti starfshópsins m.a. bent á skort á fiskifræðilegri þekkingu innan arðskrárnefndar. Með grunnþekkingu á fiskifræðilegum/líffræðilegum þáttum eru líkur til að matsnefnd geti á markvissari hátt kallað eftir gögnum til að byggja mat á. Einnig er líklegt að fiskifræðileg þekking myndi nýtast til að yfirfara fyrirliggjandi gögn til að sjá hvort líkur geti verið til að breytingar hafi orðið á forsendum frá fyrra mati og þar með dregið úr kostnaði við endurskoðun á arðskrármati. Það sem líklega vegur þó þyngst er að með breyttri skipan ætti að verða til þekking innan matsnefndar til að kalla eftir vinnu sérfræðinga eða gögnum við matsgerð ef þörf er á líkt og kveðið er á um í 44. gr. Að framansögðu er Hafrannsóknastofnun hlynnt þeim breytingum sem lagðar hafa verið til á 44. gr. og telur að um framför sé að ræða. Komið hefur upp spurning um vanhæfni ef Hafrannsóknastofnun tilnefnir einn af þremur aðilum í arðskrárnefnd þar sem hluti þeirrar gagna sem lögð eru til grundvallar getur hafa verið unnin af starfsmönnum stofnunarinnar. Eftir sem áður liggur fyrir að ef um hagsmunaárekstra er að ræða gilda ákvæði um vanhæfni ef matsnefndarmenn eru tengdir viðkomandi veiðifélagi. Hafrannsóknastofnun telur langsótt að sá sem tilnefndur er sem fagaðili verði vanhæfur vegna þekkingar og að aukið mikilvægi fagþekkingar vegi þar mun þyngra til hagsbóta fyrir veiðiréttarhafa í heild. Benda má á að endurskoðuð arðskrá þarf staðfestingu Fiskistofu. F. h. Hafrannsóknastofnunar