Útgáfa á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar

Umsögn í þingmáli 232 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 15.10.2019 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 3 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 7 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Sögu­félag Viðtakandi: Stjórnskipunar- og eftirlits­nefnd Dagsetning: 06.11.2019 Gerð: Umsögn
SÖGUFÉLAG 1902 Skrifstofa Alþingis, nefndasvið Austurstræti 8-10 150 Reykjavík Reykjavík, 5. Nóvember 2019 Efni: Umsögn um þingsályktunartillögu um útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar - 232. Mál Með vísan í umsagnarbeiðni 10927 sendir Sögufélag hér álit sitt og umsögn um þingsályktunartillögu um útgáfu á dómum og skjölum Yfirréttarins á Íslandi. Í lögum Sögufélags segir svo í 2. grein: „Markmið félagsins er að gefa út tímarit, heimildarit og annað efni um sagnfræði og söguleg efni, einkum um sögu Íslands." Stofnun Sögufélags árið 1902 er í raun sprottin af þeirri þörf íslenskra mennta- og ráðamanna að gefa út heimildir um sögu þjóðarinnar sem þóttu mikilvægar til skilnings á fortíð Íslendinga og baráttu þeirra fyrir sjálfstæði. Heimildaútgáfa hefur því frá upphafi verið lykilhlutverk Sögufélags. Með útgáfu Alþingisbóka, skjala Landsnefndarinnar fyrri, Jarðabóka Árna Magnússonar og Páls Vídalín, Sýslu- og sóknalýsinga, og fjölda annarra rita og ritraða hefur sagnfræðingum jafnt sem áhugamönnum um sögu verið veittur greiður aðgangur að merkilegum heimildum sem varpa ljósi á fortíð Íslendinga. Ótvírætt má telja mikilvægi skjala Yfirréttarins sem heimildir um marga þætti samfélagsins eins og réttarheimildir eru í raun þjóðarspegill á sinn hátt. Fyrirætlanir um þessa útgáfu hófust enda fyrir nálægt þremur áratugum og þegar er komið út fyrsta bindi verksins. Sögufélag fagnar því að nú sé möguleiki á að halda áfram þessu verki og styður þær fyrirætlanir heilshugar. Rétt er einnig að horfa til afar farsæls samstarfs Sögufélags og Þjóðskjalasafns Íslands, ásamt ríkisskjalasafni Danmerkur, í útgáfu Landsnefndarskjalanna, en þar hafa fræðimenn Þjóðskjalasafns lyft grettistaki í vinnslu heimilda til að veita almenningi greiðan aðgang að þeim, hvort tveggja í prentuðu og stafrænu formi. Heimildasöfnin sem Sögufélag hefur gefið út eða átt aðild að útgáfu á hafa hingað til flest verið gefin út á prenti en nú er svo komið að möguleikar á stafrænni útgáfu eru margir, hvort heldur er í formi hefðbundinna rafbóka eða gagnagrunna. Sögufélag hefur undanfarið unnið að stefnumótun í starfi sínu og útgáfu með hliðsjón af þessum breytingum og horfir til þess að gefa út heimildir og rit jöfnum höndum í prentuðu og stafrænu formi sé þess nokkur kostur og ef rekstrargrundvöllur félagsins leyfir. Einnig hefur mikið verið rætt um framtíð tímaritsins Sögu og formið á útgáfu þess, hvort stefna eigi að eingöngu rafrænni útgáfu eður ei. Stafræn gögn og varsla þeirra er sannarlega framtíðin og í útgáfu teljum við afar mikilvægt að koma til móts við ólíkar þarfir neytenda, hvort sem óskað er eftir stafrænum eða prentuðum S ö g u f é l a g • D y n g j u v e g i 8, 104 R e y k ja v ík • s o g u f e l a g @ s o g u f e l a g . i s • w w w . s o g u f e l a g . i s mailto:sogufelag@sogufelag.is http://www.sogufelag.is SÖGUFÉLAG 1902 gögnum. Sala á heimildaútgáfum Sögufélags hefur einmitt leitt í ljós að enn er eftirspurn eftir prentuðum útgáfum, Alþingisbækur eru t.a.m. enn keyptar. Reyndar er það svo að margar af heimildaútgáfum Sögufélags eru uppseldar. Þá teljum við einnig mikilvægt að horfa til varðveislu gagna til langs tíma. Varðveisla stafrænna gagna getur verið mikil áskorun vegna sífelldra breytinga í stafrænum heimi. Rafræn gögn og varðveisla þeirra krefst einnig mikillar orku og þó að Íslendinga skorti ekki orku nú er rétt að horfa til framtíðar og umhverfissjónarmiða. Prentun á litlu upplagi á heimildaútgáfu samhliða rafrænni útgáfu tryggir varðveislu þeirra til langs tíma og frá sjónarmiði varðveislu eru heimildirnar þá ekki allar settar í sömu körfu, ef svo má segja. Þannig mætti líta á prentaða útgáfu sem öryggisafrit af stafrænni útgáfu auk þess sem það tryggir um leið að ólíkum þörfum neytenda sé mætt. Að lokum má nefna að kostnaður við prentun á hóflegu upplagi bóka er hverfandi í heildarvinnslu heimildanna. Sögufélag telur verkefnið afar verðugt til að minnast aldarafmælis Hæstaréttar og styður að þessi þingsályktun nái fram að ganga. Virðingarfyllst, Brynhildur Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri