Skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri

Umsögn í þingmáli 190 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 07.10.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 1 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 0 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Hagsmuna­samtök heimilanna Viðtakandi: Efna­hags- og við­skipta­nefnd Dagsetning: 09.10.2019 Gerð: Umsögn
Umsögn HH um 190. mál á 150. löggjafarþingi Nefndasvið Alþingis Austurstræti 8-10 150 Reykjavík 9. október 2019 Efni: Umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um 190. mál á 150. löggjafarþingi Skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri Hagsmunasamtök heimilanna eru "félag sem starfar í þágu almannaheilla" og frumvarp þetta kann því að hafa þýðingu fyrir samtökin sem og önnur sambærileg samtök hér á landi. Samtökin leggjast alfarið gegn þessu máli að svo búnu, af ýmsum mismunandi ástæðum. Í fyrsta lagi er það lagt fram með afbrigðum til flýtiafgreiðslu án nokkurs samráðs við félög sem það kann að hafa áhrif á. Í öðru lagi felur það í sér veruleg inngrip í félagafrelsi, sem efast má um hvort samræmist stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Í þriðja lagi eru alvarlegir annmarkar á texta frumvarpsins sem geta leitt til þess að það höggvi í þann knérunn sem síst skyldi, fremur en þann sem er yfirlýst markmið þess og vissulega þarf að uppræta þ.e. peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Frumvarp þetta er lagt fram með afbrigðum til flýtiafgreiðslu en í framsögu ráðherra kom fram að yrði það ekki afgreitt með þessum flýti gætu hlotist af því alvarlegar afleiðingar. Þrátt fyrir spurningar þingmanna var því ekki svarað við fyrstu umræðu hverjar þær afleiðingar kynnu að verða. Á hinn bóginn kom fram að frumvarpið geti haft áhrif á allt að 300 íslensk félagasamtök, en ekkert kom þó fram um hvaða félagasamtök þar gæti verið að ræða. Hagsmunasamtök heimilanna hafa til dæmis enga vitneskju um hvort frumvarpið geti haft áhrif á þau sjálf, en á engu stigi hefur verið haft neitt samráð við samtökin um málið og því varla við ýmis önnur sambærileg samtök. Félagafrelsi er bundið í 74. gr. stjórnarskrár en með þeirri undantekningu að grípa megi inn í starfsemi félaga sem séu talin hafa ólöglegan tilgang. Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er því ætlað að gilda um félög til almannaheilla, en það er fullkomlega löglegur tilgangur og því fela öll íþyngjandi ákvæði frumvarpsins í sér skerðingu á félagafrelsi löglegra félaga. Að íslenskum rétti falla ágreiningsmál um starfsemi félagasamtaka, svo sem um lögmæti aðalfundar eða atkvæðagreiðslu um málefni félags, jafnan undir svið einkamálaréttar. Með frumvarpinu er brugðið frá þessu með því að gera brot á reglum á þessu sviði að opinberum sakamálum sem geti jafnvel leitt til refsiviðurlaga. Þessi ákvæði frumvarpsins eru stjórnskipulega ótæk og væri því réttast að vísa málinu frá Alþingi. Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins miðast gildissvið þess við: "félög til almannaheilla" sem stofnað er til eða starfrækt eru "í þeim tilgangi að safna eða útdeila fjármunum" í "almannaþágu" og eru með "starfsemi yfir landamæri". Þessi hugtök, sem öll hafa veigamikla þýðingu, eru þó hvergi skilgreind í ákvæðum frumvarpsins, og er því með öllu óljóst hvaða félög það geti átt við um. Eins og áður var nefnt er það til dæmis algjör rökleysa að setja lög um lögleg félög til að uppræta ólögleg félög ef þau ólöglegu félög sem þau lög eiga að uppræta falla ekki undir gildissvið þeirra laga! Hagsmunasamtök heimilanna • Ármúla 5 • 108 Reykjavík • kt. 520209-2120 • heimilin@heimilin.is • www.heimilin.is 1 / 2 http://www.althingi.is/ http://www.heimilin.is/ https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=150&mnr=190 mailto:heimilin@heimilin.is http://www.heimilin.is Hugtakið "félög til almannaheilla" hefur hingað til aldrei verið skilgreint að íslenskum rétti. Allskyns samtök gætu kosið að skilgreina sig sem slík og er frumvarpið því afar óljóst að þessu leyti. Á hinn bóginn hefur verið lagt fram frumvarp til laga um félög til almannaheilla sem mótar ramma utan um slíka starfsemi með almennum skilyrðum. Það mál væri miklu rökréttara að leiða til lykta og að skýra með því nánar þessa skilgreiningu áður en sett verði sérlög um tiltekinn undirflokk slíkra félaga (þau sem eru með starfsemi yfir landamæri). Enn fremur leiðir af orðinu almannaheill að slík lög geta varla átt við um ólöglega starfsemi sem getur tæpast talist þjóna almannaheillum. Fremur en að snúast um löglega starfsemi ætti þetta frumvarp því miklu frekar að snúast um ólöglega starfsemi, þar á meðal misnotkun á félögum í glæpsamlegum tilgangi, sem væri auðveldara að skilgreina. Enn fremur er orðalag um þann tilgang að "safna eða útdeila fjármunum" nánast galopið. Almennt eru flest félagasamtök háð einhverskonar fjárframlögum, sem er algengt að séu í formi félagsgjalda, styrkja frá einstaklingum og fyrirtækjum, ágóða af fjársöfnunum meðal almennings, auk fjárveitinga sem sækja má um frá hinu opinbera. Slík samtök útdeila jafnan fjármunum til að greiða kostnað vegna starfsemi sinnar og verkefna sem þau ráðast í, en óljóst er hvort slíkar greiðslur falli undir útdeilingu fjármuna samkvæmt frumvarpinu. Gera þarf skýrari greinarmun á því hvort um sé að ræða eiginlegan rekstrarkostnað eða hreina styrki til skjólstæðinga viðkomandi félaga. Þá er orðalag um "starfsemi yfir landamæri" óljóst þar sem ekki er skilgreint hvenær starfsemi teljist vera yfir landamæri og er það því einnig nánast galopið í frumvarpinu. Þó íslensk félagasamtök hafi sjaldnast fastar starfsstöðvar í öðrum löndum geta þau tekið þátt í allskyns fjölþjóðlegu samstarfi, til dæmis átt aðild að heildarsamtökum hliðstæðra samtaka í öðrum löndum ("regnhlífarsamtökum"), átt í reglulegu samstarfi við slík samtök, eða gert út sendinefndir vegna einstakra viðburða. Vegna þess í hve fjölbreytilegu formi fjölþjóðleg starfsemi félagasamtaka getur verið þyrfti að skilgreina mun betur hvar þessi mörk skuli draga, heldur en gert er með frumvarpi þessu. Samkvæmt framangreindu hafa Hagsmunasamtök heimilanna miklar áhyggjur af því að það frumvarp sem hér um ræðir sé ekki þannig búið að það geti náð markmiðum sínum heldur sé þvert á móti hætt við að það hafi í för með sér alvarlegar og íþyngjandi hliðarverkanir sem séu til þess fallnar að skapa réttaróvissu og grafa þannig undan réttindum almennra borgara. Þess vegna leggjast samtökin alfarið gegn frumvarpinu að svo búnu og sérstaklega gegn sjálfri málsmeðferðinni sem einkennist af flýti og afbrigðum undir óljósum hótunum um meintar afleiðingar sem algjör óvissa ríkir þó um. Samkvæmt framangreindu leggjast Hagsmunasamtök heimilanna gegn frumvarpi þessu óbreyttu, þó þau styðji að sjálfsögðu allar aðgerðir gegn peningaþvætti og annarri glæpastarfsemi. - o - Virðingarfyllst, f.h. Hagsmunasamtaka heimilanna, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formadur@heimilin.is Guðmundur Ásgeirsson, erindreki@heimilin.is Hagsmunasamtök heimilanna • Ármúla 5 • 108 Reykjavík • kt. 520209-2120 • heimilin@heimilin.is • www.heimilin.is 2 / 2 http://www.heimilin.is/ mailto:formadur@heimilin.is mailto:erindreki@heimilin.is mailto:heimilin@heimilin.is http://www.heimilin.is