Stefnumótun og framtíðarskipulag náms á framhalds­skólastigi á Suðurnesjum

Umsögn í þingmáli 127 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 19.09.2019 Tegund þingmáls: Þingsályktunartillaga Fjöldi umsagna við þingmál: 10 Fjöldi umsagnarbeiðna við þingmál: 14 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Keilir, miðstöð vísinda,fræða og atvinnulífs Viðtakandi: Alls­herjar- og mennta­mála­nefnd Dagsetning: 04.12.2019 Gerð: Umsögn
Stefnumótun og framtíðarskipulag náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum - Keilir [1143] Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs 4.12.2019 Stefnumótun og framtíðarskipulag náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum 127. mál á 150. löggjafarþingi Keilir er alhliða menntafyrirtæki í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Skólinn skiptist í fjögur sérhæfð meginsvið, en innan hvers þeirra er fjölbreytt námsframboð. Þá býður Keilir upp á opin framhaldsskólanámskeið og undirbúningsnám fyrir bæði framhalds- og háskólanám. Aldrei hafa fleiri nemendur stundað nám eða sótt námskeið á vegum Keilis og stefnir í met í fjölda umsókna á vorönn 2020. Frá upphafi hefur skólinn einsett sér að byggja upp námsmannasamfélag þar sem boðið er upp á vandað nám með áherslu á nútímalega kennsluhætti, fyrsta flokks aðstöðu og náið samstarf við atvinnulífið. Keilir hefur útskrifað rétt um þrjú þúsund nemendur frá stofnun skólans árið 2007. Skólinn er sérhæfður og leggur áherslu á persónulega þjónustu, ásamt nútímalegum og fjölbreyttum kennsluháttum, bæði í fjarnámi og staðnámi. Einnig að nemendum sé skapað traust og gott námsumhverfi. Keilir starfar samkvæmt þjónustusamningi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið um kennslu á framhaldsskólastigi en þar sem starfsemi skólans er ekki á fjárlögum hamlar það framtíðar stefnumótun og áætlunargerð skólans verulega. Árið 2011 gerði Capacent könnun á menntunarstigi í tengslum við verkefnið Efling menntunar á Suðurnesjum, sem var sett á laggirnar af ríkisstjórn við árslok 2010. Í þeirri könnun sögðust 17,7% svarenda hafa lokið háskólaprófi. Árið 2017 var þetta hlutfall orðið um 24% (MMR, 2017). Hlutfall háskólamenntaðra á Suðurnesjum hefur þannig farið ört hækkandi, þó það sé enn þónokkuð undir landsmeðaltali en alls höfðu um 43,7% landsmanna á aldrinum 25-64 ára lokið háskólapófi árið 2018 (Hagstofa Íslands, 2019). Keilir gegnir mikilvægu hlutverki á Suðurnesjum og hefur átt stóran þátt í að draga úr áfallinu sem varð við lokun herstöðvarinnar á Miðnesheiði og í uppbyggingu Ásbrúar í kjölfarið. Svæðið varð enn fyrir búsifjum við fall flugfélagsins WOW og fækkunar ferðamanna í kjölfarið, en um 700 störf töpuðust á svæðinu. Stjórnendur Keilis fagna umræðu og þingsályktunartillögu um stefnumótun og framtíðarskipulag náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum, en löngu er orðið tímabært að heildstæð menntastefna sé mótuð fyrir svæðið. Fólksfjölgun á Suðurnesjunum undanfarin ár hefur verið mikil og er Reykjanesbær orðið stærsta sveitarfélag utan höfuðborgarsvæðisins. Framlög ríkisins til menntamála á svæðinu hafa ekki fylgt þessari þróun. Á Suðurnesjunum er viðvarandi hátt atvinnuleysi og mikil fjölgun fólks af erlendu bergi brotnu. Það kallar á nýstárleg og sveigjanleg menntaúrræði fjölbreyttra menntastofnanna. Til þess að virkja betur þann mannauð sem býr á svæðinu og framtíðar atvinnutækifæri, er mikilvægt að ýta undir og styðja fjölbreytt framhaldsnám sem undirbýr fólk á öllum aldri fyrir nám og störf. Sér í lagi þarf að huga að nýstárlegum kennsluháttum sem mæta þörfum og kröfum bæði nútíma nemenda sem og atvinnulífs í hraðri þróun. Auk þess verða menntastofnanir að geta brugðist hratt og faglega við þeim áskorunum og tækifærum sem verða til á svæðinu. Með stefnumótun og framtíðarskipulagi náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum er stigið mikilvægt og þarft skref í átt að því að mæta þessum áskorunum, og er mikilvægt að fulltrúar þeirra menntastofnana sem sinna framhaldsnámi að loknum grunnskóla komi að borðinu. Fulltrúar Keilis lýsa sig reiðubúna til að taka virkan þátt í slíkri vinnu. Virðingarfyllst, Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis