Varnarmálalög

Umsögn í þingmáli 11 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 11.09.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 2 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 5 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Utanríkisráðuneytið Viðtakandi: Utanríkismála­nefnd Dagsetning: 15.01.2020 Gerð: Umsögn
Umsögn utanríkisráðuneytisins um frumvarp til laga um breytingu á varnarmálalögum nr. 34/2008 með síðari breytingum 150. löggjafarþing 2019-2020 Þingskjal 11- 11. mál Alþingi hefur með samþykkt varnarmálalaga nr. 34/2008 og laga nr. 119/2018 ásamt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, veitt utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra forræði yfir málaflokknum öryggis- og varnarmál og falið honum umsjón með samningum við erlend ríki og alþjóðastofnanir. Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu leggur ýmsar skyldur á herðar íslenska ríkisins sem bandalags- og gistiríki, þ.m.t. viðhald og endurnýjun varnarmannvirkja á Íslandi og byggingu nýrra varnarmannvirkja í samræmi við varnarhagsmuni landsins og ákvörðun ráðherra. Þjóðaröryggisstefna Íslands frá 2016 endurspeglar þennan raunveruleika þar sem í 6. gr. segir: „Að tryggja að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.“ Með breytingatillögu þeirri sem fyrir liggur á þingskjali 11, er ráðgerð tvenns konar breyting. Annars vegar sú að allar bókanir og viðbætur við varnarsamninginn skuli bera undir Alþingi til samþykktar og sama gildi um skilasamninga og samkomulag sem feli í sér breytingu á framkvæmd þess samnings. Enn fremur er gert ráð fyrir nýrri grein um framkvæmdir og viðhald á öryggissvæðum svohljóðandi: „Alla uppbyggingu og allar framkvæmdir umfram eðlilegt viðhald á öryggisvæðum, varnarsvæðum, mannvirkjum Atlantshafsbandalagsins sem og aðrar sambærilegar framkvæmdir og uppbyggingu skal bera undir Alþingi til samþykktar.“ Hvað varðar breytingu á 3. gr. laganna á þá gengur hin nýja málsgrein þvert á tilgang og innihald 4. gr. varnarmálalaganna um forræði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra varðandi framkvæmd samninga á þessu sviði, en þar segir; „Ráðherra fer með fyrirsvar af hálfu íslenska ríkisins í samskiptum og samstarfi við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóðastofnanir á sviði öryggis- og varnarmála, þ.m.t. Atlantshafsbandalagið. Jafnframt annast ráðuneytið öll samskipti við erlendan liðsafla sem dvelur hérlendis á vegum íslenskra stjórnvalda.“ Þá gengur hin nýja grein í V. kafla varnarmálalaganna þvert á tilgang og innihald 3. gr. laganna um forræði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra varðandi framkvæmd varnarmálaganna og rekstur og umsjón varnarmannvirkja og öryggissvæða, en þar segir; „Ráðherra fer með yfirstjórn varnarmála og framkvæmd laga þessara. Ráðherra ber ábyrgð á gerð hættumats á sviði varnarmála og mótun og framkvæmd öryggis- og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi.“ Fyrirliggjandi frumvarp um breytingar miðar að því að skerða forræði utanríkisráðherra á framkvæmd öryggis- og varnarmála á Íslandi með því að taka úr höndum hans ábyrgð og umsjón með samningagerð við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóðastofnanir og vegna framkvæmda á öryggissvæðum. Með þessu væri Alþingi að færa til sín framkvæmdavald sem gengur gegn þrískiptingu ríkisvaldsins og grundvallarreglum stjórnarskrár um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Með slíkri breytingu væru ákvarðanir um byggingu íbúðar- og athafnahúsnæðis á Keflavíkurflugvelli, háðar sérstakri heimild löggjafans. Spyrja má hvort þörf sé atbeina Alþingis við ákvörðunartöku um sambærilegar byggingar á öðrum stöðum í landinu sem lúta skipulagsvaldi sveitarstjórna og annarra fagráðuneyta. Ríkt og reglulegt samráð er við þingið um öll meiriháttar utanríkismál í samræmi við ákvæði þingskaparlaga. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra upplýsir Alþingi reglulega um framvindu öryggis- og varnarmála á Íslandi með skýrslugjöf og umræðu sem fram fer árlega og gerir grein fyrir stefnu, þróun og fyrirætlunum, auk þess að gera grein fyrir stöðu mála. Ákvæði varnarmálalaga, 25. gr., áréttar sérstaklega þessa skýrslugjöf ráðherrans, með vísan til 24. gr. þingskapalaga. Jafnframt kemur ráðherra, ásamt embættismönnum ráðuneytisins reglulega á fundi utanríkismálanefndar, til samráðs um utanríkismál, þar á meðal öryggis og varnarmál. Slíkt samráð fer fram í trúnaði þegar við á, í samræmi við 24. grein þeirra laga, þegar um mikilsverða samningshagsmuni eða þjóðaröryggismál er að ræða. svo og með svörum vegna fyrirspurna þingmanna. Til viðbótar umræðu í utanríkismálanefnd fer fram umræða á vettvangi fjárlaganefndar varðandi fjárveitingar til málaflokksins, verkefna sem fyrirhuguð eru og áætlana til næstu ára í samræm við ákvæði laga um opinber fjármál. Því er ljóst að mikið og virkt samráð og upplýsingagjöf fer fram við Alþingi varðandi öryggis- og varnarmál og er því lýðræðisleg umræða og umfjöllun tryggð innan ramma núgildandi þingskaparlaga og varnarmálalaga. Yrði frumvarp þetta samþykkt myndi það hafa í för með sér gerbreytingu á forræði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra á sviði öryggis- og varnarmála, sem væri í algeru ósamræmi við samningsforræði og samráð sem fer fram um aðra málaflokka sem undir utanríkisráðuneyti heyra. Eðli verkefnanna, málaflokksins og þörf á trúnaði við samningsgerð, umfjöllun og fyrirsvar í málaflokknum kallar á ríkan trúnað í samráði og samskiptum við Alþingi á meðan á samningsgerð stendur. Gjörbreytt framkvæmd sem þessi breytingatillaga gerir ráð fyrir, myndi setja ákvarðanir um tilteknar varnarframkvæmdir í uppnám, veikja samningsstöðu Íslands í samskiptum við önnur ríki á þessu sviði og getur valdið því að ógerlegt verði að standa við varnarskuldbindingar okkar gagnvart Bandaríkjunum og innan Atlantshafsbandalagsins. A f þessum ástæðum leggst utanríkisráðuneytið eindregið gegn samþykkt þessa frumvarps.