Skráning einstaklinga

Umsögn í þingmáli 101 á 150. þingi


Þingmál lagt fram: 12.09.2019 Tegund þingmáls: Lagafrumvarp Fjöldi umsagna við þingmál: 13 Fjöldi umsagnabeiðna við þingmál: 94 Ferill þingmálsins á althingi.is Sendandi: Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Samtök fjármálafyrirtækja Viðtakandi: Alls­herjar- og mennta­mála­nefnd Dagsetning: 10.10.2019 Gerð: Umsögn
S A M TÖ K FJÁ R M Á LA FYR IR TÆ K JA lcelandic Financial Services Association SFF Nefndasvið Alþingis, b.t. allsherjar- og menntamálanefndar Austurstræti 8-10 150 Reykjavík nefndasvid@althingi.is Efni: Umsögn um frumvarp til laga um skráningu einstaklinga, 101. mál. Samtök atvinnulífsins (SA), Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) (samtökin) vísa til tölvupósts allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 26. september sl. þar sem óskað var umsagnar samtakanna um ofangreint frumvarp. Samtökin vísa til fyrri umsagnar sinnar um málið frá 14. maí 2019 og árétta það sem þar kom fram. Markmið laganna er að stuðla að réttri skráningu einstaklinga og skapa þannig grundvöll fyrir tiltekin réttindi og tilteknar skyldur. Enn fremur er það markmið laganna að skráning upplýsinga í þjóðskrá byggist á bestu fáanlegu gögnum á hverjum tíma. Í júní 2018 voru sett lög nr. 70/2018 um Þjóðskrá Íslands. Tilgangurinn með þeirri lagasetningu var að ramma inn á einum stað yfirlit yfir öll verkefni stofnunarinnar, yfirstjórn, skipulag og gjaldskrárheimildir. Lögum um skráningu einstaklinga er ætlað að vera sérlög gagnvart þessum lögum. Skilin á milli þessara laga eru hins vegar óljós og þá sérstaklega varðandi gjaldtökuheimildir. SA, SFF og SI gera eftirfarandi athugasemdir við lagafrumvarpið. 1. Gjaldtaka Í 5. gr. laga nr. 70/2018 er að finna heimild fyrir Þjóðskrá Íslands til að innheimta þjónustugjöld samkvæmt gjaldskrá fyrir þjónustu sem nánar er tiltekin í ákvæði 1. mgr. 5. gr. Samtökin gerðu athugasemd við þetta ákvæði á frumvarpsstigi, í nóvember 2018, en afar óljós skil eru á milli framangreindar heimildar til innheimtu þjónustugjalda og gjaldtökuheimildar 19. gr. lagafrumvarpsins. Lagaákvæðin eru keimlík og óþarfi að kveða á um slíka gjaldtöku í báðum lögum. Í 20. gr. frumvarpsins segir að ríkissjóður standi straum af árlegum kostnaði við rekstur þjóðskrár að 9/10 hlutum og Tryggingastofnun að 1/10 hluta. Þrátt fyrir þetta ákvæði segir í 2. mgr. 19. gr. að tekjum af þjónustu skv. 1. mgr. skuli varið til að standa undir rekstrarþáttum þjóðskrár, eftirliti með miðlun og notkun, viðhaldi, uppbyggingu og framþróun þjóðskrárkerfisins. Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. skal við ákvörðun gjalda leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, framleiðslu, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, reksturs, viðhalds og þróunar kerfa og annars búnaðar og tækja, alþjóðlegrar samvinnu og stjórnunar- og stoðþjónustu, auk kostnaðar sem almennt hlýst af eftirliti og þjónustu. Loks segir í 4. mgr. að sé óskað þjónustu utan hefðbundins skrifstofutíma skuli greiða fyrir vinnu starfsmanns skv. útseldum taxta með álagi samkvæmt gjaldskrá Þjóðskrár Íslands. Þjónustugjaldaákvæði í 5. gr. laga nr. 70/2018 er alveg sambærilegt að þessu leyti. Reykjavík, 10. október 2019 Samtök atvinnulífsins | Borgartúni 35 | 105 Reykjavík | Sími 591 0000 | Netfang sa@sa.is | www.sa.is mailto:nefndasvid@althingi.is mailto:sa@sa.is http://www.sa.is S A M TÖ K FJÁ R M Á LA FYR IR TÆ K JA lcelandic Financial Services Association SFF Svo virðist því, þrátt fyrir ákvæði 20. gr. frumvarpsins, að gjaldtaka Þjóðskrár fyrir nánar tilgreind atriði, sbr. 1. mgr. 19. gr., eigi að standa undir öllum rekstrarkostnaði stofnunarinnar. Umræddur rekstrarkostnaður er liður í því að stofnunin ræki lögbundin hlutverk sín, sbr. 3. gr. laga nr. 70/2018. Samtökin hafa lýst því yfir og ítreka þá afstöðu að ekkert sé því til fyrirstöðu að eðlilegt og sanngjarnt gjald komi fyrir aðgang að gögnum Þjóðskrár Íslands en sá kostnaður verður að vera í samræmi við raunverulegan kostnað að baki því að veita aðgang að gögnunum. Það er einnig eðlilegt að ríkið greiði fyrir kostnað við að halda skrána, enda um að ræða grundvallarskrá sem ríkinu er nauðsynlegt að halda en það þarf að vera skýrt að aðrir notendur sem fá aðgang að gögnum Þjóðskrár greiði eingöngu fyrir breytilegan kostnað sem fellur til við afhendingu gagnanna. Launakostnaður, svo dæmi sé tekið, er alltaf hluti af grunnrekstrarkostnaði stofnunarinnar, nema þegar um ræðir sérvinnslu sérfræðinga sem er seld sérstaklega. Samtökin mótmæla því að slík gjaldtaka í formi þjónustugjalda skuli standa undir kostnaði af rekstri stofnunarinnar. Ef fjármagn skortir ætti að leita til þeirra aðila sem ber samkvæmt lögum að fjármagna stofnunina um meira fjármagn, áður en lögð eru á gjöld sem bitna á atvinnulífi og almenningi. Almennt er viðurkennt að þjónustugjöldum er eingöngu ætlað að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við þá þjónustu sem látin er í té af hinu opinbera. Þá má leiða af skilyrðum 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, að stjórnvaldi er með öllu óheimilt að afla almennra rekstrartekna með innheimtu þjónustugjalda. Of víðtækt framsal til stjórnvalda við ákvörðun þjónustugjalda, líkt og ákvæði 19. gr. gerir ráð fyrir, getur falið í sér brot gegn ákvæðum stjórnarskrár um skattlagningarheimildir. 2. Samkeppnisrekstur Samtökin telja mikilvægt að greina á milli almannahlutverks Þjóðskrár Íslands og samkeppnisreksturs hennar með skýrum hætti. Þjóðskrá Íslands heldur úti innskráningarþjónustunni island.is og starfrækir Íslykilinn í beinni samkeppni við einkaaðila. Það er mikilvægt að samkeppnisrekstur sé skýrlega aðgreindur annarri starfsemi Þjóðskrár Íslands og sérstaklega ber að gæta að því að innheimt þjónustugjöld séu ekki nýtt til að niðurgreiða samkeppnisrekstur. f.h. Samtaka fjármálafyrirtækja f.h. Samtaka atvinnulífsins Jóna Björk Guðnadóttir, lögfræðingur Heiðrún Björk Gísladóttir, lögmaður f.h. Samtaka iðnaðarins Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur